Leiklistarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:25:47 (1609)

1998-12-03 16:25:47# 123. lþ. 32.7 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál. Frv. til leiklistarlaga fékk töluvert mikla umfjöllun og mikla umræðu í vor og kom nokkuð breytt aftur til þingsins í haust. Ég tel að þær breytingar séu allar til bóta. Ég tel að frv. sé orðið þannig úr garði gert núna að ég treysti mér til þess að styðja það og skrifa undir með meiri hlutanum.

Það eru einkum tvö atriði sem mest hafa verið rædd í sambandi við þetta frv. Það er annars vegar það sem felst í 6. gr. um þjóðleikhússtjóra og skipan hans og hins vegar það sem kom hér til umræðu rétt áðan, hvort rétt væri að tíunda í lögunum eða í lagagrein einstakar menningarstofnanir. Um þetta vil ég segja eftirfarandi, hæstv. forseti:

Í fyrsta lagi varðandi ráðningu þjóðleikhússtjóra finnst mér þurfa ákaflega sterk rök fyrir því að þjóðleikhússtjóri, einn opinberra embættismanna, sæti þeirri reglu að vera einungis ráðinn til tíu ára. Ég tel að það þurfi ákaflega sterk rök og ef slík rök finnast varðandi hann þá hljóti þau einnig að finnast hvað varðar fjölda annarra embættismanna. Ég held að við gætum t.d. með góðum rökum sagt að það væri gott fyrir fjöldamargar skólastofnanir að þar yrði skipt um skólastjórnendur með reglulegu millibili, og nánast allar menningarstofnanir.

Svo vill til að fyrir líklega tveimur, þremur árum voru sett ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þar var tekin upp sú meginregla að embættismenn eru ráðnir til fimm ára í senn og síðan er heimilt að auglýsa stöðu þeirra ef ástæða er til, en almennt er gert ráð fyrir því að embættismenn séu ráðnir áfram til fimm ára í senn. Ég hef því ekki getað fundið nógu sterk rök sem mæla með því að þjóöðleikhússtjóri, einn íslenskra opinberra embættismanna, þurfi að sæta þessum skilyrðum, hvað sem segja má um þau almennt hvað varðar menningar- og menntastofnanir.

Í öðru lagi varðandi 16. gr. þá finnst mér einfaldlega ekki ganga upp að telja upp í lagagrein einstakar stofnanir vegna þess að hvort sem við horfum nokkur ár aftur í tímann eða fram á veginn þá er það nú svo, kannski sem betur fer, að leikhús koma og fara. Þau breytast. Ég vil benda á að t.d. í Reykjavík er fjöldi atvinnuleikhúsa sem rekin eru af leikurum eða öðrum. Sum þeirra hafa gríðarlega mikla starfsemi, eins og t.d. Loftkastalinn sem er m.a. í samstarfi við Þjóðleikhúsið og í Hafnarfirði er orðið til afar merkilegt atvinnuleikhús. Mér finnst það einfaldlega ekki ganga upp að telja upp einhverja aðila sem eru starfandi núna. Ég get t.d. varpað fram eftirfarandi spurningu: Er Íslenska óperan atvinnuópera eða atvinnuleikhús? Starfsemi Íslensku óperunnar er því miður ansi brokkgeng og staða hennar hefur verið þannig á þessu hausti að hún hefur ekki treyst sér til þess að setja upp óperu. Þar eru ekki fastráðnir söngvarar þannig að við komum að því hvernig og hvað eigi að skilgreina sem atvinnuleikhús.

[16:30]

Í 16. gr. er tíundað að heimilt sé að gera samninga við einstakar stofnanir eða leikhús eða aðra aðila um rekstur. Slíkir samningar eru í gildi, m.a. við Íslensku óperuna og Íslenska dansflokkinn og hugsanlega fleiri aðila sem ég þekki ekki til. Við hljótum því að treysta því að þeir aðilar sem eru með öfluga leiklistarstarfsemi fái að sjálfsögðu stuðning ríkisins og það er okkar á hinu háa Alþingi að fá að standa vörð um þann stuðning.

Síðast en ekki síst, hæstv. forseti, veltur það á fólkinu í landinu, bæði úti á landsbyggðinni sem hefur áratugum saman haldið uppi ótrúlega öflugri leiklistarstarfsemi og því fólki sem sækir leikhús. Það er þessara aðila að standa vörð um gott og öflugt leikhús og stuðningur þess skiptir mestu. Því miður hefur nokkuð dregið úr aðsókn mjög víða úti á landi eins og kom fram nýlega þegar áhugaleikhúsin voru að kynna starfsemi sína. Vissulega tek ég undir að það er skylda ríkisins að styðja leiklistarstarfsemi í landinu en ég held að það skipti ekki meginmáli hvort ein eða fleiri slíkar stofnanir eru taldar upp í lögum á meðan þessi starfsemi er stunduð og er öflug og ber okkur að sjálfsögðu skylda til þess að styðja hana.