Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:22:28 (1617)

1998-12-04 11:22:28# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:22]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til fjáraukalaga og tillögur varðandi það mál. Eins og gefur að skilja er kannski ekki mikill áhugi á þeim málum, ég tala nú ekki um í dag þegar búið er að varpa þeirri sprengju að dómur Hæstaréttar sem felldur var í gær sé einhver afdrifaríkasti dómur í sögu dómkerfis á Íslandi. Því er kannski ekki ástæða til að ætla að fólk hafi hugann við þau mál sem nú eru til umræðu sem skipta þó verulegu máli ekki bara fyrir einstaklinga heldur einnig fyrir margar stofnanir ríkisins og hafa nokkuð afdrifarík áhrif á stöðu ríkissjóðs. Það er nefnilega ástæða til að vekja athygli á því og sérstaklega hæstv. fjmrh. að fjárhagsdæmi ríkisins verður ekki gert upp í plús eins og ætlað var. Eins og málin horfa í dag eru allar líkur á að hallinn verði u.þ.b. 3,5 milljarðar kr. á árinu 1998. Það er eitthvað öðruvísi en reiknað var með. Þetta segi ég og byggi á þeim gögnum sem fjárln. hefur undir höndum, m.a. með umsögn Ríkisendurskoðunar þar sem bent er á að líklega geti tekjuhallinn orðið u.þ.b. 2,8 milljarðar. Til viðbótar því hefur meiri hluti fjárln. lagt til 619,9 millj. svo nákvæmlega sé með farið. Ég held að þetta sé mjög alvarlegt.

Ég vil benda á að í gögnum Ríkisendurskoðunar er sýnt fram á að um 1,5--2 milljarða vanti í formi virðisaukaskatts í tekjur ríkisins miðað við áætlun. Þetta er mjög alvarlegt dæmi og ástæða til að hafa nokkur orð um það mál og bera fram spurningar til hæstv. fjmrh. í því sambandi.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í svar á þskj. 349 við fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til hæstv. fjmrh. um virðisaukaskatt. Ég vil benda á að frá árinu 1990 er alvarleg minnkun hlutfallslega á tekjum af innlendum virðisaukaskatti sem nemur í prósentum talið um 10--11% miðað við árin 1990--1996. Þetta er alvarleg staðreynd sem blasir við. Þetta er stutt með framsetningu Ríkisendurskoðunar á þessu máli og ég spyr: Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera til að efla starfsemi við innheimtu virðisaukaskatts? Ráða má af þeim svörum sem eru á þskj. 349 að um sé að ræða undanskot frá virðisaukaskatti. Ég tel brýna nauðsyn á að grípa inn í það mál og beini þessu sérstaklega til hæstv. fjmrh.

Ég vil einnig benda á heimasíðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún bendir á að í maí 1996 hafi skattrannsóknarstjóri fjallað um undanskotshættur í virðisaukaskatti sem hann taldi vera sérstaklega í innskattsvikum, þ.e. offærslu innskatts og skattrannsóknarstjóri talaði einnig um að algengasta svikaleiðin í virðisaukaskatti væri að tekjur skattskyldra rekstraraðila væru vantaldar og þar með væri ekki staðið skil á innheimtum í virðisaukaskatti. Þetta eru, hæstv. fjmrh., mjög alvarleg dæmi sem verður að skoða því það skiptir máli að innheimta þær tekjur sem ríkinu ber. Það er því ekkert síður áhugi hjá minni hluta fjárln. á því að tekjur innheimtist eins og vera ber en að útgjöld fari þangað sem þörfin er mest.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á tillögu minni hluta fjárln. sem gerð er grein fyrir á þskj. 397 þar sem gerð er tillaga um aukningu fjármuna til Ríkisspítala upp á 300 millj. og til Sjúkrahúss Reykjavíkur upp á 300 millj. og að auki 152 millj. vegna tekjutryggingar ellilífeyrisþega. Það er ástæða til að fjalla um þessi mál vegna þess að eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns þá er u.þ.b. 1 milljarður í halla sem þessum spítölum er ætlað að draga með sér og það hreinlega gengur ekki. Það dæmi getur bara ekki gengið að þessar stofnanir dragi með sér milljarðshalla. Þess vegna gerum við ábyrga tillögu því að við vitum að það kemur að því að gera verður þetta dæmi upp. En um leið og ég segi þetta vil ég virða við hæstv. ríkisstjórn að búið er að vinna gott verk varðandi stöðu sjúkrahúsanna víða á landsbyggðinni. Ég vil láta það koma fram að það ber að virða það sem vel er gert. Slæm dæmi sem lúta að mörgum stofnunum hafa verið strikuð út eða kláruð. Þær stofnanir hafa þurft að draga með sér skuldahala árum saman og ég virði það auðvitað að striki skuli hafa verið slegið yfir það og þau mál kláruð án þess að ég ætli að geta um sérstakar stofnanir í því sambandi.

[11:30]

Ég vek sérstaklega athygli á þessari tillögu um tekjutryggingu ellilífeyrisþega. Af hverju er ég að vekja athygli á því að við gerum aðeins tillögu um 152 milljónir? Það er vegna þess að það er sá munur sem er á þeim fjármunum sem áttu að ganga til þessa málaflokks og þess sem sett var til málaflokksins samkvæmt nákvæmum útreikningum Ríkisendurskoðunar eins og vitnað hefur verið til, þ.e. að ríkið hefur tekið til sín 152 milljónir af þeim fjármunum sem hefðu annars gengið til fatlaðra, öryrkja og aldraðra. Þetta er alvarlegt mál og þetta miðast aðeins við fjárhagsárið í ár sem er að líða, 1998.

Ég bendi sérstaklega á að ef miðað er við síðustu fjögur árin frá 1995 vantar 1.842 milljónir til þess að þessi hópur fengi sambærilega hækkun og lægstu laun sem eru þó, herra forseti, að mati sérfræðinga ekki nægjanleg til framfæris. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég beini þessum athugasemdum til hæstv. fjmrh. ef hann má vera að því að hlusta á þessar athugasemdir sem skipta miklu máli.

Ég vek athygli hæstv. fjmrh. á því, herra forseti, að þeir sem eru verst settir þurfa tafarlausa hjálp. Það eru u.þ.b. 1.400 öryrkjar í landinu sem þurfa tafarlausa hjálp. Öryrkjar á Íslandi eru 8.000 manns og örorka þeirra er á mismunandi stigi. Í þessum hópi er fólk með mismunandi tekjur og þarfir. Hjón sem eru bæði öryrkjar fá 85 þús. kr. til að framfleyta sér, þ.e. þau sem fá ekki úr lífeyrissjóði né hafa aðrar tekjur. Nokkuð margir öryrkjar eru með 15 þús. kr. vegna hlutdeildar makans í tekjuöflun. Ég tel að ástæða sé til þess að taka þennan málaflokk sérstaklega fyrir og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessum málaflokki? Er meiningin að leiðrétta þann mismun sem er miðaður við meðaltalsvísitölu eða er kannski hugmyndin að leiðrétta þann mismun sem vantar upp í lægstu laun, þ.e. þær hækkanir sem hafa verið og ætti að miða við lægstu laun?

Ég bendi sérstaklega á hóp sem í eru u.þ.b. 700 einstaklingar sem hafa 43--65 þús. kr. á mánuði. Þessu fólki, herra forseti, verður að hjálpa strax. Þetta eru öryrkjar sem hafa verið metnir með varanlega 75% örorku, eru eignalausir og eru í leiguhúsnæði. Þeir eru ýmist einhleypir eða í sambúð. Þetta er hópurinn sem hefur lægstar bætur og á engan möguleika á því að auka tekjur sínar. Þessar tekjur eins og ég sagði áðan eru u.þ.b. 43--65 þús. kr. á mánuði og þessu fólki verður að hjálpa og það strax. Ég treysti því að hv. formaður og varaformaður fjárln. og hæstv. fjmrh. taki á þessu máli með minni hlutanum sem hefur lagt fram öll gögn um hvernig málið stendur í fjárln. með nákvæmum útreikningum, skipt á milli áranna 1998 og varðandi fjárlagafrv. 1999 og síðan útreikninginn á árunum frá 1998 aftur á bak til ársins 1995. Þetta eru málin sem skipta miklu.

Vegna þess að hér hefur verið talað fjálglega um góðærið þá hefur góðærið smeygt sér á einhvern hátt fram hjá dyrum þessa hóps sem verst er settur. Af því að við erum að nefna þessi mál tel ég að kjaragrunninn verði að hækka upp í 75--80 þús. kr. Ég hef flutt ár eftir ár frv. til laga um lögbindingu lágmarkslauna. Það tengist nákvæmlega þessu máli. Í því frv. var gert ráð fyrir 85 þús. kr. lögbundnum lágmarkslaunum. Ég vil geta þess, herra forseti, að það mál er vegna samkomulags við hæstv. forsrh. í sérstakri umfjöllun hjá Þjóðhagsstofnun sem hefur þurft tímann frá því í september og fram til þessa tíma til þess að gefa umsögn um þá framsetningu sem er á því máli. Það mál hefur ekki komið fram enn þá á þingi vegna þess að það er í sérstakri umfjöllun.

Einum hópi vil ég ekki gleyma, úr því að ég fæ tækifæri til að ræða um það hér í stólnum, en það eru aldraðir á elliheimilum og á dvalarheimilum, sem ekkert hafa nema dagpeninga sem nema 12.080 kr. á mánuði, 144 þús. kr. á ári. Það er allt sem þetta fólk hefur til ráðstöfunar. Þar vil ég að tekið verði á málunum. Ég beini því til hæstv. fjmrh. að láta skoða hvað sé lágmark sem fólk þarf að hafa til ráðstöfunar sem vasapeninga. Þetta eru kallaðir vasapeningar því að allar tryggingabætur og annað renna til uppihaldsins á þessum dvalarheimilum.

Það er náttúrlega eitt mál enn sem bæta má við að það er auðvitað alveg út úr kortinu, herra forseti, að dæmin skuli gerð þannig upp að börn einstæðra foreldra, vegna ákvæða um tekjutengingar, svipti viðkomandi aðila heimilisuppbót. Ég skal taka eitt glöggt dæmi sem ég er með í kollinum.

Einstæð móðir með 19 ára son, sem hún styður til þess að komast í iðnskóla eða í framhaldsnám, hefur 53.500 kr. á mánuði af því að sonur hennar er skráður inn á heimilið hjá henni. Ef hann væri skráður hjá föður sínum gæti þessi kona fengið um leið tæpar 64 þús. kr. Þetta er náttúrlega eitthvað sem verður að laga og hefði átt að vera búið fyrir löngu. En þetta er bara eitt dæmi sem kemur upp í hugann af þeim sem orðið hafa á vegi mínum á undanförnum dögum og vikum. Þetta verður að laga.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla miklu meira um málið sem við erum að ræða hér, fjáraukalög. En allt sem ég hef nefnt hér tengist fjáraukalögum 1998. Við eigum eftir 3. umr. og það er möguleiki að grípa inn í þessi mál, og ég nefni sérstaklega grunnlífeyri elli- og örorkuþega.

Ég held, herra forseti, að ástæðulaust sé að hamra meira á þeim málum sem ég hef verið að reyna að vekja sérstaklega athygli á, þ.e. skattsvikum eða undanskoti, að líkindum frá virðisaukaskatti, og stöðu sjúkrahúsanna í Reykjavík ásamt og með málefnum þeirra sem lakast eru settir.

En ég vil að lokum þakka meiri hlutanum, hv. formanni og varaformanni fyrir ágætt samstarf ásamt öðrum í meiri hlutanum. Ég virði þá stöðu sem meiri hlutinn er í og þá sérstaklega hv. formaður gagnvart minni og jafnvel meiri hluta því að hann starfar sem umboðsmaður ríkisstjórnar í umfjöllun um fjárlagagerð og fjáraukalagagerð. Það er oft snúin staða en gott samkomulag hefur náðst um ákveðin atriði og ég þarf ekki að ítreka það sem hér hefur verið sagt um afstöðu minni hlutans. Minni hlutinn er samstæður og stendur sameiginlega að sjálfsögðu að minnihlutaálitinu og ég læt þar með lokið mínu máli, herra forseti.