Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 12:17:15 (1627)

1998-12-04 12:17:15# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykn. fór nokkrum orðum um stöðu sjúkrahúsanna, stóru ríkisspítalanna. Það er ekki óeðlilegt því þar er auðvitað um mjög umfangsmikinn rekstur að ræða sem fjárln. eyðir verulega miklum tíma í að skoða. Hv. þm. vakti athygli á því að minni hlutinn hefur flutt breytingartillögu sem felur í sér að hækka framlögin á þessu ári til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég vil hins vegar vekja athygli á því vegna ræðu hv. þm. að í fjáraukalagafrv. er gert ráð fyrir því að Ríkisspítalarnir fái 352 millj. til viðbótar við það sem er í fjárlögum í ár og Sjúkrahús Reykjavíkur fái 373 millj. til viðbótar við það sem er í fjárlögum í ár. Þegar fjárln. fór yfir þessa stöðu mála, höfðum við það auðvitað í huga að Ríkisspítalarnir fá í fjárlagafrv. fyrir næsta ár u.þ.b. einn milljarð kr. í hækkun og Sjúkrahús Reykjavíkur hækkar um 630 millj. frá fjárlögum þessa árs til frv. næsta árs. Þegar við bættist að á vegum ráðuneytanna og á vegum þessara sjúkrastofnana hefur verið í gangi mjög umfangsmikil úttekt og vinna faghóps sem hefur það verkefni að leita allra leiða til að endurskipuleggja og samræma rekstur þessara stóru, risavöxnu rekstrareininga okkar á heilbrigðissviðinu töldum við ekki forsvaranlegt að gera breytingar við fjáraukalagafrv. eins og það liggur fyrir og gerir ráð fyrir verulega auknum fjármunum til Ríkisspítalanna á meðan ekki lægi fyrir niðurstaða þar.