1998-12-04 13:07:46# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. er rétt að taka fram vegna umfjöllunar að undanförnu að rætt hefur verið um hvort Ísland ætli sér að gerast stofnaðili að Kyoto-bókuninni. Sú umræða er allvillandi að mínu mati. Hið rétta er að stjórnvöld hafa nú til umfjöllunar hugsanlega undirritun bókunarinnar og það eru engin tengsl á milli undirritunar og stofnaðildar. Það liggur fyrir að bókunin mun ekki öðlast gildi fyrr en eftir nokkur ár og öll ríki sem gerast aðilar að bókuninni fyrir þann tíma teljast stofnaðilar.

Ríki geta gerst aðilar að Kyoto-bókuninni með tvennum hætti. Í fyrsta lagi geta þau ríki sem undirrita bókunina fullgilt hana síðar, eða með svokallaðri ,,ratification``. Í öðru lagi geta þau ríki sem ekki undirrita bókunina gerst aðilar eftir 15. mars nk. með svokallaðri aðild eða ,,accession``. Það er enginn munur á stöðu aðila eftir því hvor leiðin er farin.

Rétt er að taka fram að samkvæmt þjóðarrétti felst almennt engin skuldbinding í undirritun alþjóðasamnings. Undirritun skapar ríkisstjórn enga skyldu til að leggja samninginn fyrir þjóðþing eða þjóðhöfðingja til fullgildingar en þessi áfangi í samningsgerðinni gerir ríkisstjórn kleift að stíga það skref óski hún eftir því.

Eins og kunnugt er og hv. þm. tók fram var með samþykkt Kyoto-bókunarinnar samhliða tekin ákvörðun um að fjórða aðildarríkjaþingið skyldi m.a. taka til skoðunar og eftir atvikum gera ráðstafanir varðandi viðeigandi aðferðir til að taka á stöðu ríkja sem talin eru upp í viðauka B við bókunina þar sem einstök verkefni mundu hafa veruleg hlutfallsleg áhrif á losun á skuldbindingartímabilinu. Ákvörðun þessi, sem er ekki hluti af Kyoto-bókuninni sjálfri, var tekin í ljósi málflutnings íslensku sendinefndarinnar á þinginu í Kyoto um sérstakar aðstæður Íslands. Þetta hefur verið nefnt íslenska ákvæðið, a.m.k. hér á landi.

Þetta mál kom síðan til umfjöllunar á nýafstöðnu aðildarríkjaþingi í Buenos Aires og þar lagði íslenska sendinefndin fram endurbætta tillögu að ákvörðun þingsins í málinu. Bandaríkin, Ástralía og Mónakó lýstu fullum stuðningi við tillöguna. ESB og Kanada studdu hana ekki en lýstu sig reiðubúin til að ræða málið áfram og smáeyjaríkin og ríkin G-77 eða þróunarríkin lýstu yfir skýrri andstöðu við tillöguna.

Niðurstaða þingsins var sú að halda áfram umfjöllun um málið með það fyrir augum að afgreiða það eftir því sem við á á næsta aðildarríkjaþingi að ári. Aðildarríkjum var boðið að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna fyrir 1. mars nk. til undirbúnings umræðu um málið á fundi í Bonn næsta sumar.

Það sem ræður afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli er það að við leggjum áherslu á að Ísland geti gerst aðili að þessari bókun, enda verði tekið tillit til verulegra hlutfallslegra áhrifa einstakra verkefna á heildarlosun á Íslandi og við erum að meta þetta mál í ljósi þess. Hins vegar kemur skýrt fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að hann telur rangt að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og leyfir sér m.a. að segja að með því sé ríkisstjórnin að vinna að sérhagsmunum á Íslandi en ekki almannahagsmunum, sem ég kem ekki heim og saman. Hann segir líka að losun hér á landi sé jafnmikil og annars staðar að meðaltali í Evrópuríkjum. Þetta er algerlega rangt. Ég bið hv. þm. að kynna sér þessi mál áður en hann kemur með slíka sleggjudóma. Hv. þm. segir einnig að það sé til skammar að halda á sérstökum hagsmunum Íslands og vinna að því að hægt sé að nýta endurnýjanlega orkugjafa á Íslandi. Ég tel málflutning hans vera fyrst og fremst til skammar.