1998-12-04 13:15:46# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:15]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Staða Íslands í þessu máli er satt að segja sneypuleg svo vægt sé til orða tekið. Hér er svo mikið í húfi og vísa ég þar m.a. til orða hv. málshefjanda áðan að sómi hefði verið að því og reyndar í hæsta máta eðlilegt ef Ísland hefði verið í hópi þeirra ríkja sem skrifuðu fyrst undir samkomulagið eða bókunina sem gerð var í Kyoto. Í stað þess hafa ráðamenn komið okkur í þá stöðu að vera eina OECD-ríkið sem hefur ekki skrifað undir og við höfum ekki einu sinni tryggingu fyrir því að skrifað verði undir fyrir 15. mars og þá meina ég án alls fyrirvara. Það væri okkur verulegur álitshnekkir og mundi veikja stöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi ef svo færi sem augljóslega er hætta á eftir svör hæstv. ráðherra. Íslenskir ráðamenn hafa að mínu mati haldið illa á þessu máli og gert okkur skömm til með þessu mengunarbetli.

Hagsmunir okkar eru miklir. Þeir liggja ekki í því að fá að menga meira. Það er mikill misskilningur. Ísland er sældarland í mörgu tilliti, efnahagslega, atvinnulega, hvað snertir menntunarstig og fleira auk þess sem við eigum vannýtta ýmsa möguleika sem felast fyrst og fremst í virkjun mannvits og ekki síst í hreinu ómenguðu umhverfi. Ég skora á hæstv. ráðherra að strjúka nú mengunina úr augum sér og sjá framtíðina í ögn heiðskírara ljósi.