1998-12-04 13:17:53# 123. lþ. 33.92 fundur 135#B undirritun Kyoto-bókunarinnar í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í Buenos Aires# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þar sem tími leyfir viðbót af minni hálfu inn í umræðuna vil ég víkja ögn að því svokallaða íslenska ákvæði sem ríkisstjórnin hefur fram til þessa gert að skilyrði fyrir því að hún verði samferða öðrum þjóðum í sambandi við loftslagsmálin. Með þessari ósk er ríkisstjórnin að biðja um að losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjuframkvæmdum á Íslandi verði tekið út úr bókhaldi Íslands. Þarna er mjög sérstök beiðni á ferðinni og þau rök sem hæstv. ríkisstjórn færir fram fyrir þessari ósk sinni og tillögugerð á alþjóðavettvangi eru sannast sagna afar veik.

Samkvæmt loftslagssamningum á næsta ársþing eftir að fjalla um þetta mál, kannski í nóvember á næsta ári. Fyrr liggur ekkert fyrir um efnislega niðurstöðu í málinu. Hver hún verður vitum við ekki og spurningin er: Ætlar ríkisstjórnin að gera samþykkt þessa ákvæðis að skilyrði fyrir aðild sinni að Kyoto-bókuninni um langa framtíð? Ef þetta verður ekki samþykkt að ári ætlar þá íslenska ríkisstjórnin eða þeir sem halda nú á málum að stuðla að því að Ísland standi utan við?

Ég tel að Ísland eigi að beita sér í sambandi við þróun loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar á grundvelli þeirra ákvæða sem þar eru og sem verið er að útfæra og sem gefa þátttakendum, aðildarríkjunum, ákveðna möguleika til sveigjanleika. Að ætla að fara að taka stóriðjuna út fyrir sviga í þessu máli setur allt þetta mál í uppnám, hér innan lands líka. Halda menn að aðrar atvinnugreinar verði fúsar til þess að fara að skera niður hjá sér í losun gróðurhúsalofttegunda eða almenningur ef stóriðjan fær frítt spil í þessum efnum? Ég fæ ekki séð að auðvelt verði að koma slíku fram.