Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:35:57 (1641)

1998-12-04 13:35:57# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hæstv. utanrrh. um Ísland og Evrópusambandið sem var vitnað til hér áðan er óhjákvæmilegt að minna á að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er ekki eina ástæðan fyrir því að aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði okkur Íslendingum mjög óhagstæð og getur ekki komið til greina. Með aðild að Evrópusambandinu mundu Íslendingar glata sjálfsákvörðunarrétti sínum á fjöldamörgum sviðum, ekki aðeins á sviði löggjafarvalds og dómsvalds heldur einnig á mörgum sviðum framkvæmdarvalds. Svo dæmi sé nefnt geta aðildarríki Evrópusambandsins ekki gert viðskiptasamninga við ríki utan Evrópusambandsins. Þau verða að fórna þeim viðskiptasamningum sem þau hafa þegar gert. Fyrir land eins og Ísland sem hefur mesta sóknarmöguleika á mörkuðum utan ESB væri slíkt alger frágangssök.

Sumir ímynda sér að aðild að Evrópusambandinu fylgi gull og grænir skógar en þessu er þveröfugt farið. Við yrðum að hækka skatta allverulega vegna skattgreiðslna okkar til sambandsins ef við gerðumst aðilar.

Nei, við verðum að muna eftir því að aðild að Evrópusambandinu er ekki eins og hvert annað milliríkjasamstarf. Evrópusambandið er ekki venjulegur samstarfsvettvangur ríkja, né samband sjálfstæðra ríkja, heldur vísir að nýju stórríki, nýju sambandsríki eins og utanríkisráðherra Þýskalands vakti reyndar athygli á í ræðu nú fyrir nokkrum dögum. Þetta er margslungið mál og menn mega ekki tala um það eins og það snúist eingöngu um sjávarútvegsmál.