Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:38:13 (1642)

1998-12-04 13:38:13# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að þakka hæstv. utanrrh. og formanni Framsfl. fyrir heiðarlega framgöngu í þessu máli. Á nýafstöðu þingi Framsfl. --- nú hefur hann ítrekað þá afstöðu sína hér --- skýrði hann frá breyttri stefnu Framsfl. í Evrópumálum. Nú er aðild að Evrópusambandinu komin á dagskrá hjá Framsfl. og þetta verða kjósendur að vita. Þeir verða að vita þetta vegna þess að um þetta er kosið. Ég þakka því hæstv. formanni Framsfl. og utanrrh. heiðarleikann.

Í stjórnmálum er notað ákveðið merkjamál. Í Evrópuumræðunni eru lykilhugtökin: Opin umræða, könnunarviðræður og að vera á dagskrá. Þetta nota þeir fylgjendur Evrópusambandsins sem vilja ræða þessi mál og sjá til að við sækjum um aðild að bandalaginu. Nú hefur hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. slegist í þennan hóp. Í stjórnmálum eiga menn ekki að leyna skoðunum sínum. Menn eiga ekki að leynast í skúmaskotum eða í skápum. Menn eiga að koma úr skúmaskotunum og fara út úr skápnum. Það hefur hæstv. utanrrh. nú gert fyrir hönd síns flokks, Framsfl., í Evrópumálum og fyrir það ber að þakka.