Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:42:39 (1644)

1998-12-04 13:42:39# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér kemur mjög á óvart ef hæstv. utanrrh. er undrandi eða ósáttur við að hér sé vitnað í ræðu hans frá flokksþingi framsóknarmanna. Hún er opinbert gagn, hélt ég. Hana má nálgast á netinu og einnig hefur hæstv. ráðherra sjálfur endurbirt þessi ummæli nánast óbreytt í blaðagrein. Formaður Framsfl. og hæstv. utanrrh. hljóta í grófum dráttum að vera einn og sami maðurinn. Við getum væntanlega fengið skýra niðurstöðu í því máli. Þar af leiðandi er það eðlilegasti hlutur í heimi að taka þau mál fyrir og ræða hér.

Þetta mál snýst ekki um, herra forseti, hverjir vilji hugsa um framtíðina og hverjir ekki, eða hverjir séu með opinn hug og hverjir lokaðan. Ræðum þetta ekki á þeim forsendum. Það sem mér gengur til með að taka málið upp er að skýra hlutina og fá umræður á Alþingi um alvarleg og mikilvæg mál. Ég ber enga ábyrgð á áhuga Alþfl. á að ganga í Evrópusambandið og aðferðafræðinni sem hæstv. ráðherra vitnaði í, að sumir telji það rétta aðferð að sækja um til að láta á það reyna hvað okkur bjóðist, hef ég hafnað enda stenst hún ekki. Menn sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu að gamni sínu, svona til að tékka á því hvað þeim bjóðist rétt eins og þeir séu að gera tilboð í gamla bíldruslu. Þetta er ekki svoleiðis mál.

Ef menn leggja inn umsókn að Evrópusambandinu verður það að gerast í alvöru og þá ætla menn inn í bandalagið, fái þeir það út úr viðræðunum sem þeim býðst og yfirleitt hvort sem er. Það að láta könnun fara fram á ,,hypothetískum`` atriðum eins og þeim hvort við kynnum að fá undanþágu frá ákvæðum Rómarsáttmálans verkar afar fjarstæðukennt á mig.

Varðandi samstöðu við Grænlendinga og Færeyinga skal ég síst draga úr því enda hef ég lengi tekið þátt í vestnorrænu samstarfi. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að það samstarf eigi að byggja á vangaveltum um mögulega aðild þeirra að Evrópusambandinu. Mér er ekki kunnugt um annað en að Grænlendingar séu eina þjóðin sem sloppið hefur út úr Evrópusambandinu og hafi lítinn áhuga á að fara þangað inn aftur. Ég veit ekki til að Færeyingar sæki fram til sjálfstæðis, eins og þeir gera um þessar mundir, til þess eins að afsala sér því að stórum hluta í Evrópusambandinu. Ég held menn ættu að fara varlega með að blanda sér í utanríkismál grannþjóða okkar með slíkum vangaveltum.