Breyttar áherslur í Evrópumálum

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 13:45:15 (1645)

1998-12-04 13:45:15# 123. lþ. 33.93 fundur 136#B breyttar áherslur í Evrópumálum# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. málshefjanda, Steingrími J. Sigfússyni, um að ekki sé rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu í því skyni að kanna þessa hluti. Ég er einnig sammála honum um að ef við sækjum um aðild að Evrópusambandinu þá hlyti það að vera vegna þess að við ætluðum þangað inn en mundum ekki gera það að gamni okkar. Það hefur á margan hátt reynst Norðmönnum dýrkeypt í samstarfinu við Evrópu að hafa sótt um tvisvar og hafnað því tvisvar. Að mínu mati hefur það einnig skaðað samstarf Evrópusambandsins við EFTA-ríkin án þess að ég geti sérstaklega kennt Norðmönnum þar um. Það liggur alveg fyrir að málsmetandi aðilar og forustumenn í stjórnmálum í Noregi ætluðu með þjóð sína í Evrópusambandið en fólkið hafnaði því.

Ég sé hins vegar ekki af hverju það ætti að vera andstætt hagsmunum Íslands að skoða þessi mál betur með opnum huga í samvinnu við nágranna okkar. Ég hef engan áhuga á því að blanda mér inn í hagsmunamál þeirra. Ég hef rætt þessi mál við þá á persónulegum nótum og leitað svara við því hvernig best verði staðið að málinu í framtíðinni. Annað er ég ekki að gera. Ef menn telja að það rangt, þá það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það þjóni íslenskum hagsmunum. Ég tel að við sem stjórnmálamenn eigum að ræða þessi mál opnum huga. Ég er þeirrar skoðunar, og sagði það við flokk minn, að við ættum að gera það.

Ég sagði hins vegar ekki að við ættum að ganga í Evrópusambandið og ég mótmæli því að hv. þm., sérstaklega hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, skuli alltaf lesa orðin öfugt.