Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:00:09 (1646)

1998-12-04 14:00:09# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til sjútvrh. en það er mikilvægt að utanrrh. sé viðstaddur. Það veldur mér hins vegar vonbrigðum að forsrh. hefur ekki séð sér fært að vera einnig viðstaddur þegar svo mikilvægt mál er til umræðu.

Dómur Hæstaréttar um úthlutun veiðileyfa er stórtíðindi í íslenskri pólitík. Hér hefur verið í gildi löggjöf, varin af ríkisstjórnarflokkunum, um úthlutun veiðileyfa, aðganginn að mikilvægustu auðlind þjóðarinnar. Hæstiréttur hefur nú úrskurðað að þessi lög brjóti í bága við atvinnufrelsis- og jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins. Þetta er örlagaríkur dómur, herra forseti, sem varðar eitt mikilvægasta mál samtímans.

Hér vakna fjölmargar spurningar. Alþingi verður að bregðast við þessu alvarlega máli. Niðurstaða Hæstaréttar er krafa um að lögunum verði breytt. Ég geri mér grein fyrir því að stutt umræða í dag er aðeins inngangur að meðferð málsins á Alþingi. En það er mikilvægt fyrir Alþingi og þjóðina að vita hvað oddvitar meiri hlutans á Alþingi, hæstv. forsrh. og utanrrh., og sjútvrh., hyggjast fyrir.

Við höfum gagnrýnt þetta kerfi á Alþingi og fólkið í landinu hefur gagnrýnt það óréttlæti sem kerfið hefur haft í för með sér. Fólkinu hefur ofboðið hvernig arðurinn af auðlindinni hefur færst á fárra manna hendur og því kemur engum á óvart að Hæstiréttur skuli fella dóm sinn á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Slík mismunun getur ekki gengið til lengdar í lýðræðisríki.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa varið þessa mismunun. Þeir hafa varið kerfið sem sitt eigið og reynt að gera lítið úr málflutningi þeirra sem haldið hafa uppi merkjum jafnræðis og réttlætis. Hæstiréttur sagði að úthlutun veiðileyfa samræmist ekki jafnréttis- og atvinnufrelsisreglu stjórnarskrárinnar.

Hæstiréttur tók ekki afstöðu til úthlutunar kvótans að þessu sinni. En spurningar vakna um skiptingu kvótans. Líklegt verður að teljast að úthlutun kvótans til fárra, sem byggir á sama grunni og veiðileyfið, brjóti einnig í bága við stjórnarskrána.

Viðbrögð forsrh. við dómnum vekja undrun og vonbrigði. Það virðist ekki vera ætlunin að fara eftir dómi Hæstaréttar heldur skoða hvernig hægt sé að fara fram hjá honun. Hann reynir að gera lítið úr niðurstöðum Hæstaréttar eins og þær hafi ekki almenna skírskotun heldur aðeins gildi gagnvart stefnanda málsins, þ.e. hvort réttmætt hafi verið að synja honum um veiðar í lögsögunni. Forsrh. fjallar ekki um þann þátt dómsins þar sem tekin er afstaða til þeirrar aðferðar sem gilt hefur um úthlutun veiðileyfa til þessa á grundvelli 5. gr. laga um stjórn fiskveiða. En það er einmitt kjarni málsins.

Hæstiréttur segir að úthlutun veiðileyfanna feli í sér svo alvarlega mismunun fyrir þegnana að hún brjóti í bága við stjórnarskrána. Mér finnst alvarlegt að með ummælum sínum rýrir forsrh. þjóðarinnar, oddviti ríkisstjórnarinnar, álit Hæstaréttar og vegur þar með að grundvallarsjónarmiðum stjórnskipunar í landinu. Það er alvarlegt og það vekur ugg að túlkun ráðherranna virðist vera að ekki þurfi að gera breytingar á kerfinu sem hefur verið í þágu fárra útvaldra.

Því beini ég, herra forseti, þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að viðhalda stjórnkerfinu með því að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar.

Að lokum, herra forseti. Sjútvn. Alþingis hlýtur að koma saman vegna þessa alvarlega máls.