Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:10:28 (1648)

1998-12-04 14:10:28# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur svo sem heyrst áður að 5. gr. laga um stjórn fiskveiða stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þessu hafa ýmsir haldið fram en í fyrsta sinn var höfðað mál vegna synjunar á umsókn um veiðiheimildir og það látið ganga í gegnum allt kerfið og nú hefur dómur verið felldur í Hæstarétti.

Og sjá: Úthlutun veiðiheimilda eftir þeim reglum sem hér hafa gilt hefur verið dæmd ólögleg, þ.e. sú grein í lögum um stjórn fiskveiða sem kveður á um að menn þurfi að hafa átt skip á tilteknum tíma og að veiðiheimildirnar séu bundnar við skipið en ekki veiðireynslu eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka. Ef það hefði verið raunin þá hefðu sjómennirnir sem stunduðu veiðarnar fyrst og fremst átt að fá úthlutað veiðiheimildum en ekki þeir sem áttu skip á tilteknum tímapunkti.

Mikið ósætti hefur ríkt um þetta fyrirkomulag en stjórnvöld hafa verið tryggir varðhundar þessa kerfis og þess vegna eru það vissulega tímamót þegar Hæstiréttur gefur falleinkunn lögum sem auðsöfnun einstakra svokallaðra sægreifa hefur byggst á. Þetta hlýtur að leiða til þess að úthlutunarreglurnar verði endurskoðaðar.

Þegar ég tók það upp á Alþingi á sl. vori hvort ekki mætti ræða hér hvort skipta mætti viðbótarheimildum með öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast svaraði hæstv. sjútvrh. því til að ekki yrði vikið frá lögum um stjórn fiskveiða. Nú hafa þau lög að hluta til verið dæmd dauð og ómerk svo ekki verður lengur undan því vikist að gefa upp á nýtt.

Herra forseti. Þessi dómur er sigur fyrir almenning sem hefur verið hlunnfarinn í núverandi kerfi.