Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:17:20 (1651)

1998-12-04 14:17:20# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Loksins, loksins fær réttlætið að ráða. Þetta voru fyrstu orðin sem komu upp í hug minn þegar umræddur dómur Hæstaréttar barst mér til eyrna. Það hlaut að koma að því að einhver gæti stöðvað yfirvofandi rán aldarinnar, rán sægreifanna á auðlind þjóðarinnar. Það eykur trú mína á Ísland sem réttarríki að Hæstiréttur hafi kveðið upp þann dóm að fiskveiðistjórnarkerfi sem skerðir atvinnufrelsi og mismunar þegnunum án þess að nauðsyn beri til stríði gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Með öðrum orðum stenst það ekki stjórnarskrárákvæði að lögbinda um ókomna tíð að veiðileyfi skuli takmörkuð við skip sem voru við veiðar árið 1988 eins og gert er í 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þegar 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða var fyrst gerð ótímabundin árið 1990 var ekki búið að lögfesta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þetta er hugsanlega málsbót fyrir löggjafann. Sambærileg ákvæði er þó einnig að finna í lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem samþykkt voru eftir stjórnarskrárbreytinguna eða í desember 1996. 5. og 6. gr. þeirra laga hljóta að vera í sama uppnámi og 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða eftir umræddan dóm Hæstaréttar.

Herra forseti. Þetta hlýtur að teljast áfellisdómur fyrir löggjafann. Sá þingmaður sem hér stendur hefur sagt á Alþingi að því miður geti minni hlutinn ekki komið í veg fyrir rán aldarinnar á meðan hér er lýðræðislegur meiri hluti sem þjónar hagsmunum útgerða og sægreifa og við því sé því miður ekkert að gera. En nú hefur kraftaverkið gerst. Já, ég segi kraftaverk vegna þess að sjálfstæði dómstólanna hefur oft verið dregið í efa. Þessi dómur er sigur réttlætisins, sigur dómskerfisins og veruleg áminning til löggjafans og þeirra sem telja það sjálfsagt að þingmenn standi í hagsmunagæslu sem stríði gegn grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Vissulega þarf þingið að gaumgæfa þá stöðu sem upp er komin, augljóst er að breyta þarf 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða til að sjútvrn. geti tekið umsókn Valdimars Jóhannessonar til efnislegrar meðferðar. Hafi hann þökk fyrir þrautseigju sína.