Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:19:53 (1652)

1998-12-04 14:19:53# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Nauðsynlegt er við mat á úrskurði Hæstaréttar að hafa í huga að rétt er að spara ályktanir þar til menn hafa íhugað dóminn og forsendur hans til hlítar. Það sem liggur fyrir óumdeilanlega er að synjun sjútvrn. er felld úr gildi en líka er tekið fram af hálfu Hæstaréttar að ekki er tekin afstaða til þess hvort þeim sem sótti um veiðileyfi og aflamark hafi borið réttur til að fá það. Niðurstaða Hæstaréttar liggur því ekki fyrir um hvort menn eigi rétt til þess. Þá ber líka að hafa í huga að Hæstiréttur tekur fram að rétt sé að takmarka veiðar og hann fellst á líka á að rétt sé að takmarka veiðar við skip, þótt hann útiloki ekki að nauðsynlegt kunni að vera að breyta þeirri forsendu, a.m.k. út frá þeirri viðmiðun sem sett var á sínum tíma. Það er ljóst að beina þarf sjónum að 5. gr. laganna en mér er ekki ljóst hversu víðtækar breytingar þarf að gera á henni til að mæta sjónarmiðum Hæstaréttar. Þær kunna að vera minni háttar en það kann líka að þurfa að gera róttækari breytingar. Augljóslega er Hæstiréttur að senda skilaboð um að ekki sé víst að úthlutunarkerfið standist til framtíðar og á því kunni að þurfa að gera breytingar og það eru vissulega athyglisverð tíðindi og að mörgu leyti jákvæð fyrir íbúa í sjávarbyggðum landsins. En ég vek líka athygli á því, herra forseti, að meðal þeirra leiða sem ræddar hafa verið til að úthluta veiðiheimildum er uppboð veiðiheimilda. Mér sýnist að Hæstiréttur hafi slegið þá leið af.