Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:40:58 (1662)

1998-12-04 14:40:58# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún varpar fyrst og fremst ljósi á það að við stöndum frammi fyrir mjög vandasömu verkefni.

Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið vil ég taka fram að það er misskilningur að 5. gr. núverandi fiskveiðistjórnarlaga feli í sér þær grundvallarreglur sem fiskveiðistjórnarkerfið byggir á. Þær grundvallarreglur koma fram í 7. gr. en ekki 5. gr. Þess vegna er það misskilningur sem hér hefur komið fram í þeim efnum.

Varðandi ummæli hv. 5. þm. Vesturl. þá held ég að mjög mikilvægt sé fyrir hann og þá sem tala með þeim hætti að gera sér grein fyrir því að ef dómurinn er túlkaður á þann veg sem hann gerir, að kippa grundvellinum með öllu undan fiskveiðistjórnarlöggjöfinni, þá hygg ég að það komi einmitt verst niður á þeim aðilum sem hann bar fyrir brjósti í ræðu sinni vegna þess að þá væri verið að taka veiðiréttinn frá þeim og ákveða að honum skuli úthlutað öðruvísi.

Ég hygg að það sé alveg ljóst að hugmyndir um að skattleggja veiðiheimildirnar svara í engu þeim kröfum sem Hæstiréttur gerir í dómi sínum enda hefur enginn ræðumanna í dag haldið því fram. Álitaefni geta komið upp um það hvort uppboð á veiðiheimildum geti svarað kröfum Hæstaréttar. Þá værum við í þeirri sérkennilegu stöðu að það væri brot á jafnræðisreglu að binda aflaheimildir við skip, en það væri í samræmi við jafnræðisreglu að binda aflaheimildir við peninga og ég hygg að ýmsum þætti það vera mjög sérkennileg niðurstaða.