Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 1999

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:59:24 (1664)

1998-12-04 14:59:24# 123. lþ. 33.16 fundur 296. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 1999# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á eftirtöldum samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999 sem gerðir voru í Reykjavík 7. október 1998:

1. Sameiginlegri bókun milli Evrópubandalagsins, Færeyja, Íslands, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norður-Atlantshafi á árinu 1999.

2. Bókun milli Færeyja, Íslands, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um sérstakar verndunarráðstafanir með tilliti til stjórnar veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999.

3. Samningi milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999.

4. Samkomulagi milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands, efnahagslögsögu Noregs og fiskveiðilögsögu Jan Mayen á árinu 1999.

5. Samkomulagi milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 1999.

[15:00]

Hinn 6. maí 1996 var undirrituð í Ósló bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi. Aðilar eru strandríkin fjögur: Ísland, Færeyjar, Noregur og Rússland. Þau skuldbinda sig í bókuninni til að starfa saman að verndun síldarstofnsins, skynsamlegri nýtingu hans og stjórn veiða úr honum í því skyni að tryggja sjálfbæra nýtingu stofnsins til langs tíma. Önnur langtímamarkmið koma fram í bókuninni. Samkvæmt lið 6.2. skulu aðilar í viðræðum sínum um skiptingu aflaheimilda á komandi árum taka mið af breytingum sem verða á dreifingu stofnsins. Á grundvelli þessa ákvæðis var komið á fót vinnuhópi vísindamanna til að fylgjast með og meta þróun og dreifingu stofnsins í þessu skyni. Kveðið var á um skiptingu heildarafla samningsaðila fyrir árið 1996. Hins vegar náðist ekki samkomulag við Evrópubandalagið um takmarkanir á veiðum þess á árinu 1996 og ákvarðaði það sér einhliða veiðiheimildir upp á 150 þúsund lestir.

Brýnt var talið að ná samkomulagi allra aðila sem stunda veiðar úr stofninum. Eftir tvær samningalotur tókust í Ósló hinn 14. desember 1996 samningar strandríkjanna fjögurra og Evrópubandalagsins um veiðar á árinu 1997. Samkvæmt samningunum var heildarafli aðilanna á árinu 1997 1.498 þúsund lestir en samkvæmt sérstakri bókun var Rússland skuldbundið til þess að veiða ekki 12 þúsund lestir af þeim kvóta sem í þess hlut kom. Aflinn skiptist þannig að í hlut Íslands og Færeyja komu 315 þúsund lestir en þar af fékk Ísland 233 þúsund lestir. Í hlut Evrópubandalagsins komu 125 þúsund lestir, í hlut Noregs 854 þúsund lestir og í hlut Rússlands 192 þúsund lestir.

Samkomulag náðist milli sömu aðila vegna veiða á árinu 1998 eftir viðræður í Ósló hinn 28. október 1997. Niðurstaða viðræðnanna var í megindráttum sú sama og í samningunum fyrir árið 1997, að því undanskildu að heildaraflamarkið árið 1998 var ákveðið 1.300 þúsund lestir í stað 1.498 þúsund lesta árið 1997. Skipting afla var hlutfallslega sú sama og það ár.

Á fundi sömu aðila í Reykjavík 6. og 7. október 1998 náðist samkomulag um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á næsta ári. Er það óbreytt frá samkomulaginu fyrir árið í ár. Heildaraflamarkið árið 1999 verður því 1.300 þúsund lestir. Samkvæmt sérstakri bókun er Rússland skuldbundið til þess að veiða ekki 10.400 lestir af þeim kvóta sem í þess hlut kemur. Aflaskiptingin er óbreytt og koma í hlut Íslands og Færeyja 273 þúsund lestir, í hlut Evrópubandalagsins 109 þúsund lestir, í hlut Noregs 741 þúsund lestir og í hlut Rússlands 177 þúsund lestir.

Eins og fyrr er í sameiginlegu bókuninni gert ráð fyrir að aðilar komi sér í sérstökum tvíhliða samningum saman um frekara fyrirkomulag veiða, meðal annars um heimildir til veiða í lögsögu hvers annars. Samkvæmt samningi milli Íslands og Færeyja er framangreindum kvóta þeirra áfram skipt þannig að í hlut Íslands koma 202 þúsund lestir en 71 þúsund lestir í hlut Færeyja. Samningurinn kveður á um að skipum hvors aðila verði heimilt að veiða í lögsögu hins með sama hætti og á undanförnum árum.

Enn fremur var gengið frá tvíhliða samningi milli Íslands og Noregs og er hann einnig óbreyttur. Samkvæmt honum fá íslensk skip ótakmarkaðan aðgang að lögsögunni við Jan Mayen og mega veiða 9 þúsund lestir af kvóta Íslands í efnahagslögsögu við meginland Noregs. Norsk skip fá heimild til að veiða allt að 144 þúsund lestir í íslenskri lögsögu á næsta ári. Jafnframt var gerður samningur milli Íslands og Rússlands þar sem rússneskum skipum er áfram veitt heimild til að veiða allt að 5.600 lestir á takmörkuðu svæði í austurhluta efnahagslögsögu Íslands.

Aðilar voru sammála um að halda áfram vinnu að þróun framtíðarnýtingarstefnu til að tryggja skynsamlega nýtingu norsk-íslenska síldarstofnsins. Vinnuhópur aðila vinnur að tillögugerð að höfðu nánu samráði við sérfræðinga Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.