Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 15:14:52 (1668)

1998-12-04 15:14:52# 123. lþ. 33.14 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Flestir lífeyrissjóðir landsmanna eru skipulagðir nánast sem sjálfseignarstofnanir. Eignarhaldið er fyrst og fremst á réttindum þeim sem eru skilgreind í þeirri tryggingavernd sem sjóðirnir veita og það á við um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda eins og aðra lífeyrissjóði þannig að eignarhaldið snýr fyrst og fremst að réttindunum. Þannig er að lífeyrissjóðirnir eru mjög misjafnlega upp byggðir. Ýmsir lífeyrissjóðir, svokallaðir frjálsir lífeyrissjóðir, eru reknir á vegum einkaaðila. Varðandi þá sjóði mundu menn líta svo á að það væru fyrst og fremst réttindin í sjóðunum sem væru eign sjóðfélaganna en spurningin væri ekki endilega sú hver nákvæmlega eigi það sem í sjóðunum er.

Um skipan stjórnarinnar tel ég að með þeirri skipan sem í frv. er, þá sé henni ágætlega fyrir komið. Það hefur sýnt sig að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda hefur verið þokkalega --- ég held að það sé jafnvel of vægt til orða tekið --- ég mundi segja að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda hafi verið vel stjórnað á undanförnum árum og það hefur ekkert annað komið fram í þeirri skipan stjórnar sem verið hefur hingað til, en að þeir sem hafa stjórnað sjóðnum hafi leitast við að ná sem bestri ávöxtun á eignum sjóðsins. Ég tel þess vegna að sjóðurinn muni geta staðið mjög myndarlega við þær skuldbindingar sem hann hefur tekið á sig og ef eitthvað er þá muni þær greiðslur sem fólk hefur innt af hendi til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda skila sér mjög vel þegar kemur að töku lífeyris.