Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:41:30 (1675)

1998-12-07 13:41:30# 123. lþ. 34.91 fundur 140#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:41]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vissi ekki að hæstv. fjmrh. færi með forsetavald í þinginu. Þetta var ákaflega sérkennileg ræða hjá hæstv. ráðherra. Hann er hér með umvandanir fyrir hönd forseta í þessum efnum. Það kom mjög skýrt fram hjá mér vegna hvers ég legði jafnmikla áherslu á að fá þetta svar núna en ekki löngu seinna en það er einmitt vegna þess að þessar klukkustundirnar, þessa dagana, eru í gangi stórútboð af hálfu ríkisstjórnarinnar og einmitt hér eftir örfáar mínútur er hinu háa Alþingi gert að taka afstöðu til mála sem eru beintengd þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir mánuði síðan. Það er auðvitað kjarni málsins og ég frábið mér útúrsnúninga á borð við þá sem voru settir fram af hálfu hæstv. fjmrh. Auðvitað er samviskan slæm í þessu, það gefur auga leið.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa brugðist vel við. Það er einmitt mjög mikilvægt að þetta svar komi í dag eða á morgun. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að þetta svar kæmi síðar í dag og í seinasta lagi á morgun. Mér er kunnugt um að á morgun verða þessi mál til umræðu, þ.e. kennitölufárið, kostnaður við sölu ríkisfyrirtækja og það undirverð sem í gangi hefur verið mestan part kjörtímabilsins og þess vegna er brýnt að þær upplýsingar liggi fyrir við þá umræðu.

Ég átti orðræður við hæstv. fjmrh. fyrir helgi, svo allrar sanngirni sé gætt, og vakti athygli hans á að ég biði þessa svars. Hann hefur brugðist hratt og vel við því þannig að þar hefur hann staðið sig í stykkinu og ég þakka fyrir það. En ég frábið mér það hins vegar að hæstv. ráðherrar komi hér í ræðustól og ætli að kenna okkur þingmönnum lexíuna. Maður, líttu þér nær.