Viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:46:00 (1677)

1998-12-07 13:46:00# 123. lþ. 34.95 fundur 144#B viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. 8. þm. Reykv. að dómurinn sem hann vitnaði til og kveðinn var upp í Hæstarétti lýtur að mjög mikilsverðum málum. Ef ég tók rétt eftir mat hv. þm. það svo að Hæstiréttur hefði aldrei fyrr blandað sér inn í pólitíska umræðu með jafnafgerandi hætti og í þessum dómi. Ég ætla ekki að fullyrða að þetta sé rétt mat hjá hv. þm. en þó má vel vera að hv. þm. hafi komist réttilega að orði um störf Hæstaréttar.

Ríkisstjórnin hefur fjallað um málið, það er til skoðunar í sjútvrn. Eins og fram kom í utandagskrárumræðu á föstudaginn er málið mikilvægt og þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru, tóku mjög undir að vandað yrði til allra viðbragða við þessum dómi. Umfjöllun um þarf að byggjast á ítarlegri skoðun á þeim niðurstöðum sem hér liggja fyrir og ég vænti þess að ríkisstjórnin geti kynnt niðurstöðu af sinni hálfu innan tíðar.