Viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:47:38 (1678)

1998-12-07 13:47:38# 123. lþ. 34.95 fundur 144#B viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þingflokkur jafnaðarmanna hóf umræðu um þetta mál í utandagskrárumræðu fyrir helgi. Ljóst er að enn er ekki neinna tíðinda að vænta frá hæstv. ríkisstjórn. Þegar maður skoðar ummæli hæstv. ráðherra hefur maður á tilfinningunni að þeir ætli að vinna þetta með því að gera eins litlar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og hægt er.

Það er mjög erfitt að henda reiður á ætlun ríkisstjórnarinnar þegar hæstv. forsrh. eyðir megninu af sínum tíma í að tala niður til Hæstaréttar og hæstv. utanrrh. talar um að til greina komi að breyta stjórnarskránni. Maður hefur satt að segja ekki heyrt aðrar eins yfirlýsingar. Hæstv. sjútvrh. upplýsti í engu um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.

Ég vil minna á það sem formaður þingflokks jafnaðarmanna óskaði eftir í umræðunni fyrir helgi, þ.e. að sjútvn. yrði tafarlaust kölluð saman til að ræða þessi mál. Ég veit ekki til að það hafi verið gert. Nú hafa þau tíðindi gerst í þinginu að formaður sjútvn. er kominn í herbúðir stjórnarliðanna og það skýrir kannski að nefndin skuli ekki enn hafa verið kölluð saman.

Mér er hins vegar ljóst, herra forseti, að þetta mál er það alvarlegt að taka verður til uppstokkunar úthlutunarreglur á fiskveiðikvóta hér á landi. Það er stórt mál og brýnt að þingið svari hvernig það ætlar að taka á því. Það eru grafalvarleg tíðindi í dómi Hæstaréttar að lög sem Alþingi hafði samþykkt stangist á við stjórnarskrá. Þetta er efni, herra forseti, sem snýr ekki einungis að ríkisstjórninni, þetta snýr að þinginu, stjórn og stjórnarandstöðu.