Viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:49:59 (1679)

1998-12-07 13:49:59# 123. lþ. 34.95 fundur 144#B viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. sem talaði hér áðan er jafnframt ráðherra dómsmála. Hæstv. forsrh. hefur gert alvarlegar athugasemdir við dómsuppkvaðningu Hæstaréttar. Hann hefur í fyrsta lagi haldið því fram að Hæstiréttur rugli saman hugtökum í dómi sínum. Hann hefur í öðru lagi látið í það skína að ámælisvert sé að úrskurður Hæstaréttar skuli felldur af fimm dómendum en ekki sjö.

Það er ástæða til þess að spyrja yfirmann dómsmála í landinu, hæstv. dómsmrh.: Er hann sammála hæstv. forsrh. hvað þessi atriði varðar? (Sjútvrh.: Er þetta umræða um störf þingsins?)