Frumvarp um persónuvernd

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 13:59:20 (1686)

1998-12-07 13:59:20# 123. lþ. 34.97 fundur 146#B frumvarp um persónuvernd# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ekki nóg með að frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði sé eitt umdeildasta frv. sem komið hefur til kasta þingsins nú situr, um er að ræða eitt umdeildasta frv. sem hefur verið tekið til afgreiðslu á Alþingi á síðustu áratugum.

Fyrir fáeinum dögum vakti ég máls á því að nauðsynlegt væri að fjalla jafnframt um þáltill. um dreifða gagnagrunna sem þingmenn óháðra hafa flutt og frv. um gagnagrunn sem nokkrir hv. þm. jafnaðarmanna hafa flutt.

[14:00]

Því var neitað. Það var fellt af meiri hluta ríkisstjórnarinnar í heilbrn. Um þann vilja ríkisstjórnarinnar að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi fái að velja um þessa kosti var vitað. En hitt var ekki vitað að hún ætlaði að ganga á bak orða sinna varðandi frv. um persónuvernd. Mér finnst það algerlega óásættanlegt að frv. um miðlægan gagnagrunn verði tekið hér til umfjöllunar í dag án þess að hitt frv. liggi fyrir og ég tek undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að ekki er nóg að frv. verði lagt hér fram, það þarf að fá afgreiðslu á Alþingi áður en gagnagrunnurinn er tekinn til umfjöllunar.