Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 14:56:08 (1703)

1998-12-07 14:56:08# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru alveg fáheyrðar yfirlýsingar sem hv. varaformaður heilbr.- og trn. gefur hér vegna þessarar spurningu. Sjúklingar eiga ekki að hafa þann rétt að láta eyða upplýsingum um sig í þessum gagnagrunni. Við getum deilt endalaust um persónugreinanleika upplýsinganna. Látum það vera. Það er grundvallarregla að menn geti hætt við og menn geti dregið allar upplýsingar sínar til baka. En rökin fyrir því, herra forseti, af hverju það er ekki leyft, eru þau að nú er gagnagrunnurinn allt í einu ekki orðinn jafngott rannsóknartæki. Hvað þýðir það? Það þýðir, herra forseti, að fjárhagslegum hagsmunum rekstraraðilans er steypt í voða með því að heimila þessi sjálfsögðu réttindi sjúklinga. Ég bið menn að athuga, herra forseti, hvað hæstv. varaformaður heilbr.- og trn. var að segja. Það á að ganga á rétt sjúklinganna. Þetta mál er nú nógu erfitt. Það á ekki einungis að ganga á þann sjálfsagðan rétt sjúklinga að geta hætt í grunninum heldur líka að upplýsingum sé hægt að eyða, sem er grundvallaratriði. En rökin fyrir því að þetta sé ekki hægt eru að fjárhagsstöðu rekstrarleyfishafans er stefnt í hættu. Svona er ekki hægt að gera, herra forseti.