Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:01:00 (1707)

1998-12-07 15:01:00# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er greinilegt að það á af hálfu meiri hlutans, ef fylgt er talsmanni hans, að staglast og þrástagast á því að hér sé ekki um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða. Það á að vera lykilatriði í vörninni hjá meiri hlutanum sem ætlar að bera þetta fram. Vitnað er í stofnanir, stofnun eins og Lagastofnun Háskólans. Hvaða viska er það sem Lagastofnun Háskólans býr yfir? Ef það væri lagadeildin mundi ég hlusta á það. En að eitthvert álit sem einhver lögfræðingur fær greitt fyrir sé eitthvað marktækt í þessum efnum. Það er alveg ljóst í ljósi þess sem hér kemur fram að engu á að skeyta um persónuverndina varðandi væntanlega nýja löggjöf og rökin sem eru borin fram í því efni að taka afgreiðslu þessa máls fram fyrir væntanlega nýja löggjöf um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga undirstrikar það algera virðingarleysi sem meiri hlutinn hefur í sambandi við þetta grundvallaratriði málsins.