Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:05:03 (1710)

1998-12-07 15:05:03# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ómögulega verið sammála því sem lesið var upp úr viðkomandi blaðagrein, að segja sem svo að sjúklingur sé sviptur ráðstöfunarrétti yfir upplýsingum sínum. Það er aldeilis ekki svo. Sjúklingur getur ákveðið að vera ekki með, hann getur sagt blátt nei, ég vil ekki vera með. En segja síðan að sjúklingur sé sviptur þessum ráðstöfunarrétti og hann sé færður til lækna og stofnana er ekki rétt. Það er einmitt mjög skýrt í nefndaráliti okkar að ef læknir segir nei, eins og margir læknar virðast ætla að gera, því miður, þá getur sjúklingur sagt já og það er sjúklingurinn sem ræður. Ráðstöfunarréttur hans er sterkari en ráðstöfunarréttur læknis og ég vona svo sannarlega að sjúklingar og landsmenn almennt taki þá ákvörðun að vera með í þessum miðlæga gagnagrunni af því að hann felur í sér mjög mikil tækifæri. Menn verða að átta sig á því.

Ég ítreka að réttur sjúklings er sterkari en réttur læknis sem ekki vill vera með.