Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:07:01 (1712)

1998-12-07 15:07:01# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. framsögumann, Siv Friðleifsdóttur, um það sem segir í nál. meiri hlutans á bls. 2.

,,Meiri hlutinn vekur athygli á að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og landlæknir eiga alltaf rétt á upplýsingum úr gagnagrunni á heilbrigðissviði án endurgjalds til að nota við gerð heilbrigðisskýrslna, áætlana og annarra verkefna.``

Það kemur m.a. fram í umræddum drögum að frv. um persónuvernd, og vakin hefur verið athygli á því, að eitt frumhlutverk slíkra reglna um persónuvernd sé að tryggja að ríkisvaldið misnoti ekki aðstöðu sína og aðgang að upplýsingum gagnvart einstaklingum. Ég spyr: Hvað er átt við með ,,áætlana og annarra verkefna``? Getur verið að unnt sé að nota þetta í tengslum við fjárveitingar til sjúkrahúsanna, hugsanlega í tengslum við hvaða læknismeðferð gefur meiri árangur en einhver önnur? Mér finnst mjög mikilvægt að það komi skýrt fram hér hvaða önnur verkefni verið er að tala um í áliti meiri hlutans.