Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:25:03 (1728)

1998-12-07 15:25:03# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Sólveig Pétursdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt taka undir orð forseta áðan að þessi umræða hefur þegar farið fram fyrr í dag. En þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur umræðuna ítreka ég það sem hann hefur látið koma fram áður að það er ekkert ósætti í þingflokki sjálfstæðismanna um þetta frv., þ.e. frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ég vil láta það koma skýrt fram og enn fremur líka að ítreka það sem hæstv. dómsmrh. sagði, að ekki eru þannig tengsl á milli þessara mála að þau þurfi endilega að verða samferða í þinginu þótt frv. um persónuvernd hafi borið hér á góma.

Þannig er mál með vexti, og hv. formaður heilbr.- og trn. hefur einmitt bent á það áður í umræðu, að komið hefur fram ákveðið misræmi á milli þessara tveggja umræddu frumvarpa, þ.e. frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og frv. um gagnagrunninn, og verið er að vinna að því að skoða þessi mál á vegum ríkisstjórnarinnar.

(Forseti (GÁS): Forseti verður að árétta að hér erum við að ræða fundarstjórn forseta en ekki störf þingsins. Sú umræða fór fram einmitt um þetta atriði fyrir hálfum öðrum tíma. Forseti fer þess á leit við hv. þm. að þeir beini þá orðum sínum til forseta og geri athugasemdir við fundarstjórn hans ef þær eru einhverjar.)

Hæstv. forseti. Ég átti ekki frumkvæði að því að þessar umræður færu fram. Ég vildi hins vegar út af þeim spurningum sem hafa komið fram upplýsa að unnið væri að því að þetta frv. kæmi fram í þinginu, bara svo að það sé ljóst.