Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:28:52 (1730)

1998-12-07 15:28:52# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég vænti þess að hæstv. forseti hafi veitt athygli orðum hv. 5. þm. Reykv., Sólveigar Pétursdóttur, hér áðan þegar þingmaðurinn vék að því að unnið væri að því að samræma ákvæði í frumvarpi sem er í meðferð hjá ríkisstjórninni við það mál sem við erum að ræða hér. Hvers konar endileysa er þetta, virðulegur forseti, í vinnubrögðum í máli sem þessu? Við eigum að taka trúanlegt að tillit verði tekið til, það á að laga væntanlegt frumvarp að löggjöf sem á að byggja á væntanlegri löggjöf um persónuvernd.

Þetta er slík afturfótafæðing, ef það á að nefna það því nafni, sem er hér á ferðinni að leitun er að öðru eins, virðulegur forseti.

[15:30]

Ég tel að hér þurfi að kalla til fólk sem ber virðingu þingsins fyrir brjósti og það er auðvitað forsn. og hæstv. forseti fer þar fremstur í flokki. (Gripið fram í: Er ekki forseti í stólnum?) Að sjálfsögðu. Forseti í stólnum? Ekki fæ ég betur séð, virðulegur þingmaður, enda var ég að beina orðum mínum til hæstv. forseta og benda á að einmitt forsn. og forseti þingsins bæru ábyrgð á þessum vinnubrögðum.

Að mínu mati, virðulegur forseti, er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram. Það verður að fresta henni þar til við höfum afgreitt boðuð lög um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga.