Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:35:43 (1741)

1998-12-07 17:35:43# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekki á móti því að menn hafi fasta og ákveðna skoðun á máli. Ég hefði ekkert haft á móti því ef hv. þm. sem hér var að svara hefði tekið afstöðu með þessu frv. og haldið því fram. En það sem mér finnst vera miklu alvarlegra er það hvernig hv. þm. hrærir öllu í graut í sínum málflutningi og röksemdafærslu. Það veldur mér áhyggjum. Þetta er ekki aðeins í gervi þingmanns heldur birtist þetta í gervi ritstjórans á sl. sumri með átakanlegum hætti.

Hv. þm. orðaði það svo í ræðu sinni að hann væri svo bernskur þrátt fyrir roskinn aldur. Ég held að það sé ekki málið, það sé ekki skýring, neitt slíkt. Mér finnst einfaldlega að það skorti á samkvæmni í málflutningi hv. þm. sem ber fram álit 1. meiri hluta ásamt öðrum og það kemur líka fram að botninn er dottinn úr þessu áliti því að hv. þm. ver miklum hluta af sínum tíma til þess að leiða það í ljós að meiri hlutinn sem hann hefur verið að gæla við hefur svikið hann í tryggðum með einhverri breytingu sem ekki kemur neitt fram í álitinu að ég fæ séð.

Síðan víkur hv. þm. sér algerlega undan því að svara spurningu minni um það hvers vegna hv. þm. beitti sér ekki fyrir því að aflað væri álitsgerða alþjóðlegra, virtra stofnana erlendis frá í þessu máli. Til þess var fullt ráðrúm frá sl. vori frá því að þetta frv. kom fram og hugmyndir um það komu fram og beinar tillögur og tilboð inn í nefndina í bréfi til nefndarmanns sem þar var kynnt þann 10. nóvember 1998 frá virtum sagnfræðingi sem hefur fylgst náið með þessu máli. Hann sendi erindi með ákveðnum hugmyndum til nefndarinnar en var ekki einu sinni virtur svara í þeim efnum.