Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:39:35 (1744)

1998-12-07 17:39:35# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti nokkuð vænt um ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, formann heilbr.- og trn. Hann fór ansi ítarlega yfir frv. og komst að þeirri niðurstöðu að það væru tvö atriði sem hugsanlegt væri að breyta til þess að ná meiri pólitískri sátt um þetta mál.

Í fyrsta lagi var það dregið fram að það þyrfti að skoða að draga úr heimild til einkaréttar og í öðru lagi að taka öðruvísi á aðgangsnefnd vísindamanna en meiri hlutinn hefur lagt til.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson sérstaklega hvað felist beinlínis í því að draga úr heimild til einkaréttar, af því að ég held að það atriði sé nokkuð torsótt hvað það varðar að fá meiri hlutann til þess að samþykkja eitthvað slíkt. Hvað felst í því að draga úr heimild til einkaréttar?

Á hinn bóginn held ég að hugsanlega væri hægt að skoða breytingar á aðgengi vísindamanna með því að skoða þær leiðir sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í sinni framsögu og kannski sérstaklega þá leið að sleppa aðgengisnefndinni en semja við vísindamenn í gegnum einstakar stofnanir.

Mér þykir mjög gott að heyra að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er til í að skoða pólitíska sátt um þetta mál ef þessar tvær breytingar eru sérstaklega útlistaðar og það væri saga til næsta bæjar ef hugsanlegur leiðtogi samfylkingarinnar í Reykjavík væri með meiri hlutanum í þessu máli, ef sættir takast.