Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:47:10 (1748)

1998-12-07 17:47:10# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:47]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Í upphafi aldarinnar sem nú er senn á enda voru auðlindir Íslands lítt þekktar nema kannski hjá fámennum hópi manna sem hafði nýtingu þeirra að áhugamáli, ýmist vegna eigin hagsmuna eða vegna hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Alþekktur er áhugi Einars Benediktssonar á virkjun íslensku fallvatnanna og deilurnar um fossamálið á fyrstu áratugum aldarinnar eru mörgum kunnar. Fossanefndin klofnaði í afstöðu sinni um hvort veita skyldi sérleyfi til Fossafélagsins Íslands um virkjun fallvatna og mikill hiti var í allri umræðu um þetta stóra mál.

Árið 1923 voru sett vatnalög og með þeim var m.a. bannað að skilja veiðirétt í vötnum frá jörð. Áður en löggjöfin var sett hafði framsýnn maður búsettur í Reykjavík áttað sig á verðmæti þeirrar auðlindar sem felst í lax- og silungsveiði í ám og vötnum og hugðist komast yfir slík verðmæti. Á einum stað vestur á Snæfellsnesi rennur laxveiðiá mikil og í vötnum á þessu svæði spriklar silungur. Maðurinn úr Reykjavík sem áður er nefndur vildi eignast veiðiréttinn í þessum ám og vötnum og hann áttaði sig á þeim takmörkunum sem komandi löggjöf mundi setja honum við að ná fram vilja sínum. Því valt mikið á fyrir honum að hafa skjót viðbrögð. Hann lagði því leið sína vestur, spjallaði við bændur og gerði þeim tilboð. Bændurnir tóku honum flestir vel og þótti flestum sem hann byði vel. Hann vildi kaupa veiðiréttinn í ánni og vötnunum. Hvað vötnin varðaði gekk tilboðið yfirleitt út á að bændur fengju einhverja peninga fyrir en að auki skyldi þeim heimilt að veiða sjálfir í vötnunum og niðjum þeirra einnig, sér og sínum til neyslu. Bændunum, sem höfðu fram að þessu aðeins nýtt veiðiréttinn fyrir sig og sína, þótti sem kaupin væru þeim hagstæð. Sennilega hafa þeir illa áttað sig á því hvað þessi skrýtni maður úr Reykjavík vildi með veiðiréttinn gera ef þeir mættu eftir sem áður veiða fyrir sig og niðja sína í vötnunum.

Nú á síðustu áratugum þessarar aldar komu eftirmálin hins vegar í ljós. Með málaferlum á málaferli ofan hefur verið reynt að hnekkja þeim óréttlátu samningum sem gerðir voru fyrr á öldinni í skjóli þess að verðmætin sem um var höndlað voru seljendum ekki kunn, en kaupandanum fullkunn. Niðjum bændanna sem gerðu samningana hefur gengið upp og ofan að fá óréttlætinu hnekkt, enda verðmætin öllum kunn í dag og málið afar flókið út frá eignarréttarlegum forsendum. Maðurinn úr Reykjavík auðgaðist hins vegar gífurlega á kaupunum á meðan bændurnir húktu við hungurmörk á bæjunum allt í kringum hina gjöfulu á og silungsveiðivötnin.

Stundum hefur mér komið þessi saga í hug þegar rætt er um greiðsluna sem við Íslendingar ætlum að þiggja fyrir að afhenda heilsufarsupplýsingar forfeðra okkar, okkar sjálfra og niðja okkar til hagnýtingar fyrir tiltekið fyrirtæki. Menn tala mikið um hagnaðarvon, að inn í íslenskt heilbrigðiskerfi streymi peningar, sem reyndar er mikill misskilningur, og jafnframt fáum við nokkur hundruð störf sem við mundum ekki fá ella og ókeypis lyf. Aðgangur íslenskra vísindamanna, annarra en rekstrarleyfishafa, að grunninum á í þokkabót að vera svo til ókeypis. Þegar íslenskir vísindamenn mótmæla því að einkaréttur sé veittur einu fyrirtæki eins og frv. gerir ráð fyrir hafa talsmenn rekstrarleyfishafa og meiri hlutans á Alþingi fljótt rekið fingur á loft og sagt í umvöndunartóni: Já, en kæru vísindamenn. Hafið þið ekki allan þann aðgang að ykkar litlu gagnagrunnum sem þið höfðuð áður? Við viljum aðeins til viðbótar við það sem þið höfðuð, gera vel við ykkur og bjóða ykkur svo til ókeypis aðgang að hinu nýja galdratæki, þ.e. ef rekstrarleyfishafi telur ykkur ekki ógna viðskiptahagsmunum hans. Auk þess fjölgar störfum og lyfin verða ókeypis fyrir Íslendinga. Hvernig getið þið staðið á móti þessu ef þið hafið allt sem þið höfðuð áður hvort eð er?

Þessi rök minna mig á þegar stórlaxinn úr Reykjavík bauð bændunum fyrir vestan peninga, auk þess yrði allt eins og það hafði áður verið. Þeir og niðjar þeirra gætu áfram veitt í vötnunum.

Sem betur fer átta íslensku vísindamennirnir í dag sig á því hvað klukkan slær, en ríkisstjórn Íslands reynir hins vegar að fá þá til að gleypa við hugmyndinni. Rekstrarleyfishafinn væntanlegi hefur jú augljósa hagsmuni af því að frv. náist í gegnum þingið, enda rekur hann fyrirtæki sitt væntanlega vel. Hvað ríkisstjórn Íslands gengur til með þessari hugmynd er mér hins vegar fullkomlega hulið, nema hún hafi látið plata sig með einhverri draumsýn um frægð og frama íslensku þjóðarinnar og trúi því einlæglega að með þessu framtaki séu Íslendingar að fórna sér í þágu þess að allir sjúkdómar sem mannkynið hrjá verði læknaðir og það á næstu áratugum. Því hefur heyrst fleygt í umræðunni og hver veit nema einhver trúi þeirri vitleysu?

Páll Kr. Pálsson verkfræðingur er þaulkunnugur nýsköpunarumhverfi íslenskra atvinnufyrirtækja. Hann skrifar grein í Morgunblaðið nú um helgina. Þar reynir hann að leita skýringa á því hvað ríkisstjórninni gangi til og reyndar gagnrýnir hann harðlega að ríkisstjórnin skuli ætla að innleiða hugmyndafræði haftanna, þ.e. veitingu einkaréttar í atvinnurekstri, inn í líftæknina, eitt veigamesta þekkingarsvið framtíðarinnar og þannig raska eðlilegri framþróun markaðarins á sviði sem e.t.v. á eftir að skipta verulegu máli í hagkerfi okkar á næstu áratugum.

Páll trúir því að hefting samkeppni með sérleyfi eða einkarétti yrði slæm niðurstaða, bæði fyrir markaðinn og fyrirtækið sjálft. Hann hrekur mjög sannfærandi í grein sinni þau rök að sérleyfi sé nauðsynlegt til að umbuna fyrir frumkvöðulsframtak. Hann bendir á að menn hafi þróað aðrar aðferðir til umbunar fyrir slíkt frumkvöðulsframtak án þess að ríkið þurfi að skerða samkeppni með sérleyfum eða einkarétti. Ég get tekið undir með Páli Kr. Pálssyni með það að samkeppni sé óhemju mikilvægur og nauðsynlegur þáttur til að framþróun vísinda verði sem mest. Veiting einkaréttar eða sérleyfis á borð við það sem gert er ráð fyrir í frv. hlýtur alltaf að fela í sér höft fyrir aðra og til lengri tíma einnig fyrir fyrirtækið sem fær rekstrarleyfið.

Páll bendir einnig á það í grein sinni að a.m.k. sé stórvarasamt, út frá sjónarhóli hluthafa í fyrirtækinu sem ætla sér að ná skráningu á alþjóðlegum mörkuðum, að vera háð lagalegum forsendum varðandi veigamikinn þátt í rekstri sínum, þar sem eins og hann orðar það ,,... misvitrir stjórnmálamenn geta með breytingum á lögum gripið inn í og haft áhrif á stöðu og möguleika fyrirtækisins.`` Páll segir síðan, með leyfi forseta:

,,Slíkt gæti t.d. gerst ef þróunin yrði sú að eftir nokkur ár kæmi annar aðili sem náð hefði lengra á þessu sviði og óskaði eftir heimild til að byggja upp gagnagrunn hér á landi. Sá aðili væri reiðubúinn að setja fjármagn í uppbyggingu gagnagrunns og ráða fjölda sérfræðinga í vinnu. Íslensk erfðagreining, sem hugsanlega hefði ekki náð eins langt, væri þá jafnvel í þeirri stöðu að geta komið í veg fyrir slíka uppbyggingu. Hins vegar þyrfti Íslensk erfðagreining með því ekki að vera að brjóta skuldbindingar sínar gagnvart einkaréttar- eða sérleyfisveitandanum. Þessi staða gæti hæglega leitt til mjög neikvæðrar þróunar og umræðu sem bitnað gæti á fyrirtækinu með ófyrirséðum afleiðingum.``

Síðar segir Páll í þessari grein sinni:

,,Aðstandendur Íslenskrar erfðagreiningar virðast sjá í uppbyggingu gagnagrunnsins möguleika til að víkka út starfsemi sína og byggja fleiri undirstöður undir reksturinn. Gagnagrunnurinn virðist hins vegar ekki vera forsenda fyrir þeim erfðafræðilegu rannsóknum sem Íslensk erfðagreining stundar, enda starfa þar í dag yfir 200 manns án þess að nokkur gagnagrunnur eða sérleyfi sé til staðar.``

Og áfram segir hann:

,,Fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar segja að miklir möguleikar felist í að þróa alls kyns líkön til að bæta árangurinn í rekstri heilbrigðiskerfa með uppbyggingu gagnagrunnsins. Það er því ljóst að í því liggja miklir hagsmunir fyrir okkur sem þjóð að gagnagrunnurinn verði búinn til ef þetta er rétt. Spurningin er hins vegar sú hvort stjórnvöld eigi ekki einhverja aðra möguleika til að stuðla að uppbyggingu gagnagrunnsins en að veita fyrirtækinu sérleyfi eða einkarétt.``

Hann bendir síðan á ýmsar leiðir sem eru mögulegar í þessum efnum og ég tel að hafi ekki fengið allt of mikla umfjöllun í þessari umræðu frekar en margt annað sem upp á hefur verið stungið.

Skrif Páls Kr. Pálssonar eru athyglisvert innlegg í þessa umræðu en satt best að segja hefur mér blöskrað þau ótrúlegu tök sem ríkisstjórnin virðist hafa á sínu fólki í þessu máli. Raddirnar sem vakið hafa athygli á þessum þætti málsins eru ótrúlega fáar, bæði hér á þingi og úti í samfélaginu, þ.e. að frátöldu svo til öllu vísindasamfélaginu. Hér er ég að tala um fólk í öðrum geirum.

Það er vægast sagt ankannalegt að sjá þingmenn Sjálfstfl. hvern um annan þveran, með örfáum undantekningum, styðja að einu fyrirtæki sé án útboðs veitt sérleyfi á svo viðamiklu máli sem hér um ræðir. Látum Framsfl. nú vera en Sjálfstfl. hefur a.m.k. í orði þóst standa gegn slíkum höftum í atvinnulífinu. Það sannast kannski betur í þessu máli en nokkru öðru, að auðlindamálunum meðtöldum, hversu grunnt er á hina eiginlegu trú sjálfstæðismanna á frjálsa samkeppni. Frjáls samkeppni er hentug þegar hún snýst um að koma verðmætum í hendur ákveðinna aðila en þegar hinir útvöldu eru ekki líklegir til að ná sínu fram með frjálsri samkeppni hentar haftastefna og einokun betur.

Ég er þeirrar skoðunar að á fáum sviðum atvinnulífsins sé hin frjálsa samkeppni nauðsynlegri en einmitt á vísindasviðinu. Það felst í eðli þeirra, vísindanna, að þau þurfa að vera frjáls og óháð ríkisafskiptum og höftum til að geta þróast sem mest og best. Það veit hver maður sem eitthvað veit að einokun hefur þann tilgang að halda einhverjum öðrum niðri. Annars þyrftu menn ekki einokun.

Í nútímalýðræðisþjóðfélagi er grundvallaratriði að skapa heilbrigð samkeppnisskilyrði í atvinnulífinu til að skapa möguleika á afkomu sem staðið geti undir félagslegu velferðarkerfi, öflugu heilbrigðis- og menntakerfi og öryggisneti fyrir þá einstaklinga og hópa sem á aðstoð samfélagsins þurfa að halda. Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur rekið, að hluta undir þeim formerkjum að skapa hér velferðarsamfélag að þeirra mati, hefur hins vegar í raun beðið algert skipbrot sem birtist hvergi betur en í þessu frv. Skefjalaus úthlutun verðmæta til fárra á kostnað hinna mörgu, ýmist undir yfirskriftinni einkavæðing eða þá í hinu berskjaldaða formi sem einkarétturinn í þessu frv. er, er algerlega óþolandi og í andstöðu við allt sem kallast getur heilbrigð samkeppni. Það er ekki nóg að færa atvinnurekstur úr höndum ríkisins til einkafyrirtækja ef þau njóta óeðlilegrar samkeppnisstöðu og halda öðrum niðri á meðan. Slíkt hátterni er ekki líðandi og getur ekki reynst farsælt til lengdar.

Reyndar er athyglisvert í tengslum við þessa umræðu hér að heyra þær efasemdaraddir sem nú þegar má greina hjá ríkisstjórninni um framkvæmd hinnar margfrægu einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég sá einhvers staðar eða heyrði að hæstv. viðskrh. teldi að hún hefði ekki tryggt þá dreifðu eignaraðild sem stefnt hefði verið að í upphafi og því þyrfti að breyta leikreglunum. Þetta kemur okkur í stjórnarandstöðunni að vísu ekki á óvart, að breyta þurfi leikreglunum fyrir einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar en fróðlegt væri að vita hvort viðskrh. telur gagnagrunnsfrv. tryggja þá dreifðu eignaraðild í líftækniiðnaði og eðlilegu samkeppni sem nauðsynleg er vísindunum til framdráttar. Það væri fróðlegt.

Fá þingmál hafa fengið jafnmikla umfjöllun á síðari árum, bæði innan og utan Alþingis, og frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Eins og þegar hefur verið vakin athygli á af hálfu annarra frsm. hefur heilbr.- og trn. fengið tugi manna á sinn fund í tengslum við málið og á sjötta tug hefur skilað skriflegum umsögnum um það. Eins hefur fjöldi funda hefur verið haldinn um málið víðs vegar í samfélaginu. Reyndar hafa verið stofnuð sérstök samtök, Mannvernd, til verndar persónuvernd og friðhelgi einkalífs, að því er mér sýnist í beinu framhaldi af þessu máli og til að vekja athygli á þeirri hættu sem felst í frv. þessu.

[18:00]

Frá því að málið var lagt fyrir Alþingi á vordögum hefur farið fram mikil umræða um persónuvernd og leikreglur á vísindasviðinu og er það af hinu góða. Ég tek það fram í áliti mínu að málið hafi tekið miklum breytingum frá upphaflegri gerð, eins og þegar hefur verið bent á hér, og ég reyndar tek svo djúpt í árinni að segja að allar þær brtt. sem fram hafa komið frá meiri hlutanum séu til bóta. En ég er þegar farin að efast um að ég geti staðið við þá fullyrðingu því að í máli frsm. meiri hlutans kemur það t.d. fram sem ég hafði ekki áttað mig á að svo virðist sem gert sé ráð fyrir að ættfræðiupplýsingar séu hluti af þessum umrædda gagnagrunni. Þetta var mjög mikið rætt, eins og hv. formaður heilbr.- og trn. benti á í framsöguræðu sinni. Þetta var mjög mikið rætt á síðustu stigum, ég held bara á síðasta fundi heilbr.- og trn. Ég er t.d. með drög sem við vorum að skoða um breytingar, drög 4, sem eru næstsíðustu drög sem lágu fyrir, og þar segir um þetta, með leyfi forseta, í tengslum við breytingar á 10. gr.:

,,Tölvunefnd skal í samráði við rekstrarleyfishafa móta verklag og vinnuferli til að tryggja persónuvernd við samtengingu ættfræðiupplýsinga við upplýsingar í gagnagrunninum.``

Samkvæmt þessum texta er alveg skýrt að ættfræðiupplýsingar eru ekki inni í gagnagrunninum. Svo koma drög 5, en ég hafði ekki áttað mig á að einu orði hefði verið skotið þar inn í:

,,Rekstrarleyfishafi skal móta verklag og vinnuferli sem uppfylli skilyrði tölvunefndar til að tryggja persónuvernd við samtengingu ættfræðiupplýsinga við aðrar upplýsingar í gagnagrunninum.``

Þarna virðist vera gert ráð fyrir því að ættfræðiupplýsingarnar séu inni í gagnagrunninum.

Ég vil spyrja hv. frsm. heilbr.- og trn., sem ég vona að sé einhvers staðar hér að hlusta, því ég tel mjög mikilvægt að fá úr þessu skorið: Eru ættfræðiupplýsingarnar inni í þessum gagnagrunni eða ekki? Ef ekki þá vil ég vita: Hvað þarf rekstrarleyfishafi að gera til þess að geta keyrt þær saman við gagnagrunninn? Hvernig er þessu nákvæmlega háttað? Það er algjörlega óþolandi að þetta mál skuli enn þá vera óljóst nú þegar við erum að taka málið til 2. umr. í þinginu og ég krefst þess að þetta verði útskýrt mjög ítarlega hér á eftir í ræðu frsm. meiri hlutans vegna þess að það er gjörsamlega óþolandi að ræða þetta alltaf undir þessum óljósu formerkjum eins og hefur verið hvað þetta mál varðar og reyndar mörg önnur mál sem tengjast þessu frv.

En þrátt fyrir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað og allar þær umsagnir sem hafa borist þá er enn margt óljóst um þetta stóra mál. Stoðir þess eru vægast sagt fúnar og áhættan sem tekin er með samþykkt þess er að mínu mati mun meiri fyrir land og þjóð en ásættanlegt er.

Áður en farið er ofan í efnisatriði málsins finnst mér nauðsynlegt að rekja nokkuð þann sérkennilega aðdraganda sem mál þetta hafði áður en það kom til kasta Alþingis. Hugmyndin sem birtist í frv. fæddist að því er virðist hjá fyrirtækinu Íslenskri erfðagreiningu eða forstjóra þess og hefur legið fyrir frá upphafi að fyrirhugað er að það fyrirtæki fái rekstrarleyfið sem um er rætt í frv. þótt hvergi sé á það minnst í frumvarpstextanum í dag. Í athugasemdum með frv. hefur fyrirtækið þó verið nefnt á einhverju stigi í einhverri útgáfunni sem lá fyrir auk þess sem það dylst engum sem fylgist með umfjöllun um málið þar sem forstjóri fyrirtækisins hefur staðið í fremstu víglínu talsmanna þessa máls.

Þó að það sé kannski fullkomlega eðlilegt og gerist mjög oft að kveikja þingmála sé víðs vegar í samfélaginu, og ekkert nema gott um það að segja, þá skýtur það nokkuð skökku við að sjá þingmáli stýrt svo augljóslega frá ákveðnu atvinnufyrirtæki sem raunin hefur verið með þetta mál. Slík vinnubrögð eru hvorki þingi né þjóð til sóma. Það er líka kannski athyglisvert að það hefur komið í ljós í umræðu um þetta mál að svo virðist sem það séu jafnvel hátt í fjögur ár síðan þessi hugmynd var fyrst viðruð, frá því að umræddur rekstrarleyfishafi virðist vera farinn að viðra þessar hugmyndir við fyrirtæki úti í hinum stóra heimi um að koma til samstarfs við Íslenska erfðagreiningu um einhverja slíka hugmynd sem þarna er verið að ræða um. Það hefur verið fullyrt við mig að til séu gögn sem sýni fram á þetta, bréfaskipti sem hafi átt sér stað þegar árinu 1995. Mér fyndist forvitnilegt að vita á hvaða stigi málsins ríkisstjórnin kemur að þessu máli. Því að við sem erum hér óbreyttir þingmenn fáum þetta mál eins og kunnugt er ekki fyrr en á vordögum inn í þingið og þá voru mjög fáir sem virtust um það vita í íslensku samfélagi og auk þess sem keyra átti það í gegn með miklum hraði. Það væri því fróðlegt að vita á hvaða stigi það er sem ríkisstjórnin eða einstakir aðilar í henni fara að ræða þetta mál við hinn væntanlega rekstrarleyfishafa.

Ég vil, herra forseti, gera athugasemd við það að hv. frsm. meiri hlutans er ekki hér í salnum og óska eftir því að hún sé viðstödd umræðuna vegna þess að ég mun beina til hennar mörgum spurningum og tel mikilvægt að hún hlusti á athugasemdir mínar til að geta svarað þeim.

(Forseti (ÓE): Forseti gerir ráðstafanir til að kalla á hana.)

Ég vil líka vekja á því athygli strax í upphafi að á vegum dómsmrn. hefur þegar farið fram nokkur vinna að lagafrumvarpi um persónuvernd, eins og þegar hefur komið fram, og liggja fyrir drög að slíku frumvarpi. Þess hefur margoft verið farið á leit við ríkisstjórnina að þessi tvö frv. séu rædd samhliða í þinginu þar sem gagnagrunnsfrumvarpið snertir óneitanlega persónuvernd og snýst um persónuvernd, snýst um það að fara fram hjá reglum, almennum reglum um persónuvernd. Ekki hefur verið fallist á þá kröfu og er það athyglisvert. En það er kannski ekki svo athyglisvert í ljósi þess að ég sé ekki betur, eftir að hafa séð þessi drög sem eru skrifuð af okkar færustu sérfræðingum á sviði persónuverndar, Þorgeiri Örlygssyni, lagaprófessor og formanni tölvunefndar, Sigrúnu Jóhannsdóttur, lögfræðingi í dómsmrn. og framkvæmdastjóra tölvunefndar, og fleirum, en að gagnagrunnsfrumvarpið sé í töluverðri andstöðu við allar þær hugmyndir sem persónuverndarfrumvarpsdrögin gera ráð fyrir, m.a. hvað varðar skilgreiningu á persónugreinanlegum upplýsingum og ýmsum fleiri atriðum sem ég mun kannski koma inn á á eftir.

Þá veltir maður því fyrir sér hvort meiningin sé að breyta þeim drögum, breyta grundvallarlöggjöfinni um persónuvernd í samræmi við það frv. sem hér liggur fyrir, eða hvort það verði nú svo að ef þessi frumvarpsdrög verða tekin til afgreiðslu á vorþinginu eða jafnvel fyrr, þá þurfi að byrja á því að breyta frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði vegna þess að þetta tvennt gengur bara ekkert upp saman. Og það sem meira er, það liggur líka fyrir að Alþingi Íslendinga þarf að fullgilda ákveðnar tilskipanir um þetta efni sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu. Þingið þarf að undirbúa slíka löggjöf og auðvitað væri eðlilegt að hún væri hér líka inni á borðum og að þetta væri allt saman rætt í samhengi og þetta væri allt í samræmi, herra forseti, en svo virðist sem það sé það einfaldlega ekki. Ég velti því fyrir mér hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að lenda þessu máli á endanum vegna þess að þau verkefni sem liggja fyrir ganga ekki upp, þau samræmast ekki hvort öðru.

Ég vil líka taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram um að fyrir liggja tvö þingmál sem snerta svipað efni og eru kannski tilraunir til þess að vekja upp umræðu um aðrar aðferðir en nákvæmlega þessa útfærslu á gagnagrunni á heilbrigðissviði. Annars vegar þáltill. um dreifða gagnagrunna og hins vegar frv. til laga um miðlæga úrvinnslu heilsufarsupplýsinga. En þrátt fyrir það að óskað hafi verið eftir því af minni hlutans hálfu að þessi tvö mál væru tekin til umræðu um leið og gagnagrunnsfrumvarpið þá hefur ekki verið fallist á það og vil ég taka undir með þeim sem átelja þessi vinnubrögð. Ég tel reyndar að þessi vinnubrögð sýni að búið hafi verið að ákveða það þegar af hálfu meiri hlutans hvernig ætti að gera þetta og hverjum ætti að veita þetta umrædda rekstrarleyfi. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo vegna þess að það hefur beinlínis verið reynt að þegja allar aðrar hugmyndir í hel. Það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt þegar um svo stórt mál er að ræða eins og það sem við erum að tala um hér.

Þegar hefur verið vakin athygli á því að hægt er að gera þessa hluti öðruvísi ef menn á annað borð vilja þessa skráningu, sem ég held að sé vissulega framtíðin, að einhver slík skráning verði höfð í frammi, en hugmyndir eins og hafa komið fram og t.d. nágrannar okkar í Finnlandi hafa framkvæmt um dreifða gagnagrunna sem þjóna sama tilgangi, vísindalegum tilgangi, en eru allt öðruvísi útfærðar og ógna ekki persónuverndinni á sama hátt og það mál sem hér um ræðir, þær hugmyndir hefur ekki mátt ræða, jafnvel þó að fram hafi komið hér á Íslandi fyrirtæki sem segist vera tilbúið til þess að framkvæma slíka hugmynd og þurfi ekki neitt einkaleyfi eða neinn einkarétt til þess.

Meðal þeirra aðila sem hafa vakið athygli á þessari hugmynd eru Bernharð Pálsson, Tryggvi Pétursson og fleiri frá Urði, Verðandi og Skuld. Þeir hafa dregið það fram að áhrif veitingar þessa sérleyfis á þróun líftækniiðnaðarins í landinu hljóti alltaf að vera neikvæð. Það fylgi því að erfitt verði að fá fjármagn í önnur fyrirtæki sem starfa á þessu sviði. Þeir hafa bent á að fylgst sé með þessu máli um allan heim, bæði lyfjafyrirtæki og vísindamenn og fleiri horfi á það, af misjöfnum hvötum, hvert fordæmi það verður sem Íslendingar gefa í þessum efnum. Ég óttast það því miður að verði þetta frv. að lögum verði okkar ekki minnst með virðingu fyrir það framtak okkar.

Miðlægur gagnagrunnur með heilsufarsupplýsingum heillar þjóðar, eins og verið er að tala um hér, er án efa mikilvægt tæki til framþróunar á sviði vísinda og rannsókna. Eða hvað?

Nú þegar hefur komið í ljós að 44 heilsugæslulæknar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki taka þátt í þessu framtaki. Sérfræðilæknar eru hver á fætur öðrum að komast á þá skoðun, er mér sagt. Mannvernd, félagasamtökin sem voru nefnd hér áðan, hafa bent á mjög mörg atriði sem eru neikvæð í tengslum við þetta frv. og hafa barist ötullega til að vekja athygli á þeirri ógn sem frv. hefur í för með sér við persónuverndina. Ég vil meina að m.a. sú barátta ásamt allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um málið hafi gert það að verkum, sem kom í ljós í nýlegri skoðanakönnun, að æ fleiri landsmenn eru á móti þessari hugmynd og munu ekki vilja vera með þegar af þessu verður. Það má því vissulega spyrja þeirrar spurningar hvort þetta mál muni auka hróður íslenskra vísindamanna og verða þeim til framdráttar eða ekki. Ég segi fyrir mitt leyti að ég efast stórlega um það.

En framþróun á sviði vísinda ber vissulega að skoða í því ljósi að það þarf að vera tryggt að ekki sé troðið á mannréttindum einstaklinganna sem taka þátt í rannsóknum og þess vegna þarf að tryggja lágmarkspersónuvernd og friðhelgi einkalífs. Við gætum sagt sem svo að það sé svo mikilvægt að þessi framþróun eigi sér stað að við séum tilbúin að ganga mjög langt til að tryggja hana. Einn þeirra gesta sem komu fyrir heilbr.- og trn., geðlæknir hér í borg, sagði að hann hefði t.d. ekkert á móti því að taka sýni úr heilanum á öllum sjúklingum sem til hans kæmu með geðklofa. Það mundi veita honum nóbelsverðlaun á örfáum árum, ekki skaða sjúklinginn mikið, aðeins einstaka maður gæti fengið blæðingu, það væri sem sagt óveruleg áhætta sem fylgdi þessu. En hugmyndin er ógeðfelld og þess vegna er hún ekki framkvæmd, þótt hún auki verulega líkur á lækningu þessa tiltekna sjúkdóms.

Mér fannst þetta dæmi mjög athyglisvert og það vakti mig til umhugsunar um það hversu langt hægt er að ganga í svona málum. Við megum aldrei gleyma því að einstaklingarnir og þeirra mannhelgi þarf að vera grundvallaratriði þegar við erum að tala um rannsóknir á fólki.

[18:15]

Í umsögn tölvunefndar um frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði er því haldið fram að frv. sé viðamesta málið sem komið hafi til kasta Alþingis síðustu áratugi, það snerti skráningu og meðferð persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs.

Tölvunefnd bendir á að málið snúist um miðlæga skráningu og varðveislu upplýsinga um alla íslensku þjóðina nokkra áratugi aftur í tímann og hagnýtingu þeirra upplýsinga í margvíslegum tilgangi. Í umsögn tölvunefndar er vakin athygli á því að upplýsingarnar sem til stendur að skrá séu viðkvæmari en flest annað sem okkur mennina varðar. Af þeim ástæðum telur hún m.a. nauðsynlegt að tryggja stjórnarskrárvarinn rétt manna til að njóta friðhelgi einkalífsins. Ég vil í þessu samhengi benda á að í margumræddum drögum að frv. til laga um persónuvernd sem hér liggur fyrir eru heilsufarsupplýsingar skilgreindar sem óvenju viðkvæmar persónuupplýsingar sem fara þurfi sérstaklega varfærnislega með.

Tölvunefnd bendir á þá staðreynd að meginmarkmið vestrænnar löggjafar um persónuvernd hafi lengi verið að sporna við því að hægt væri að ná fram heildarmynd af þjóðfélagsþegnunum, eins og þeirri sem frv. mun hafa í för með sér, og það sé gert í löggjöf víða um Vesturlönd með því að banna samtengingu viðkvæmra persónuupplýsinga nema í algerum undantekningartilfellum og að undangengnu umfangsmiklu hagsmunamati.

Ég vil taka undir þessi sjónarmið tölvunefndar og vek athygli á að frv. snýst um að heimila frávik frá almennum reglum sem gilda um meðferð og skráningu persónuupplýsinga og um vísindarannsóknir sem tengjast mönnum. Tölvunefnd sem hefur á að skipa okkar helstu sérfræðingum á þessu sviði telur auk þess að upplýsingar í grunninum verði persónugreinanlegar. Nefndin er ekki sammála því að upplýsingarnar séu ópersónugreinanlegar sem hlýtur jú að teljast mjög alvarlegt í ljósi þess hlutverks sem tölvunefnd er ætlað við framkvæmd og starfrækslu gagnagrunnsins auk þess að öll lagasmíðin byggist á að í grunninum séu ópersónugreinanlegar upplýsingar.

Persónuverndin er kannski sá þáttur í umræðunni um þetta mál sem hvað mest hefur verið gagnrýndur. Margir hafa sagt hana standa á veikum grunni, ekki síst þar sem öll umgerð frv. miðast við að í grunninum séu ópersónugreinanlegar upplýsingar. Stjórnvöld hafa hafnað því á þeirri forsendu að leita þurfi samþykkis einstaklinga fyrir þátttöku í gagnagrunninum. Á sama hátt var á sömu forsendum ekki gert ráð fyrir því í frv. að vísindasiðanefnd færi yfir umsóknir um aðgang að grunninum, sem reyndar hefur verið gerð tillaga um nú af hálfu meiri hlutans.

Frumskilyrðið er að ákvæði um innihald og notkun grunnsins séu skýr áður en reglur um persónuvernd eru ákveðnar. Þess vegna er mjög brýnt að áður en frv. er samþykkt liggi fyrir hvaða upplýsingar eigi að fara í grunninn og tilgreint sé hvers kyns upplýsingar megi ekki fara í hann. Þetta er enn ekki ljóst, herra forseti, og hefur ekki verið unnt, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir minni hlutans í heilbr.- og trn., að fá uppgefið skýrt og nákvæmlega hjá heilbrrn. hvaða upplýsingar eigi að vera þar inni. Það gerir persónuverndina og alla umræðu um hana flóknari en ella. Þó á að túlka þann vafa sem hugsanlega er einstaklingunum í hag en ekki öfugt eins og ég vil meina að gert hafi verið í þessu frv.

Ég dreg stórlega í efa að í þessum grunni séu eingöngu upplýsingar sem ekki er hægt að persónugreina og tek undir álit fjölmargra aðila um það. Ég tel því nauðsynlegt að farið sé eftir þeim meginreglum sem um meðferð slíkra upplýsinga gilda við rannsóknir á fólki.

Að mínu mati er óásættanlegt að heilsufarsupplýsingar séu fluttar í slíkan grunn án samráðs við þá einstaklinga sem í hlut eiga. Þegar um vísindarannsóknir á fólki er að ræða er hin almenna regla sú að leita samþykkis fólks fyrir þátttöku. Það er ekki gert ráð fyrir slíku samþykki í frv. Því hefur verið hafnað af hálfu meiri hlutans þrátt fyrir að ýmsar hugmyndir hafi verið nefndar í þá veru að framkvæma þetta atriði. Það hefur reyndar verið bent á að örðugt sé að afla upplýsts og óþvingaðs samþykkis í hefðbundnum skilningi þess hugtaks þar sem ekki liggi fyrir hvaða upplýsingar eigi að fara í grunninn og ekki sé ljóst hvað gera eigi við upplýsingarnar í framtíðinni. Ég skil þessi rök fullkomlega en bendi eigi að síður á að þótt ekki séu forsendur fyrir því að leita upplýsts samþykkis sé ekki rétt að draga af því þá ályktun að yfir höfuð sé ekki hægt að leita eftir samþykki fyrir þátttöku. Ég vil segja að þvert á móti er mikilvægt að fólk sé upplýst um hvað gert sé í þessu frv. í stað þess að reyna að telja því trú um að þetta sé allt í fínu lagi, þarna séu ekki persónugreinanlegar upplýsingar.

Óskýrleiki frv. með hvað fara eigi í grunninn styður það sjónarmið að nauðsynlegt sé að upplýsa fólk um áhættuna leita eftir samþykki fyrir þátttöku. Ég vil vekja athygli á því að mjög margir umsagnaraðilar frv. töldu nauðsynlegt að leitað yrði samþykkis fyrir þátttöku. Bæði voru það einstaklingar hér heima og stofnanir, auk fjölmargra aðila er starfa á erlendri grundu. Einn slíkra er Bogi Andersen, prófessor við Kaliforníuháskóla. Viðbrögð hans við umsögn 15 prófessora og dósenta við læknadeild Háskóla Íslands um gagnsemi miðlægs gagnagrunns voru að senda heilbr.- og trn. bréf. Um samþykki sjúklings segir hann m.a. í bréfinu og vísar þar til umsagnar 15 dósenta og prófessora við læknadeild Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

,,Þar segir að færa megi sterk rök fyrir því að ætlað samþykki ,,sé í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar um þessi efni ...`` Svo er alls ekki. Siðareglur gera ráð fyrir upplýstu samþykki nema í undantekningartilfellum og þá aðeins þegar nánast engin áhætta felst í rannsókninni fyrir sjúklinginn og erfitt er að fá upplýst samþykki. Hvorugt skilyrðið á við um fyrirhugaðan gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar.

Gagnagrunnur eins og Íslensk erfðagreining ætlar að byggja og reka felur í sér ýmsar áhættur fyrir sjúklinga:

a. Viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um einstaklinga geta lekið úr grunninum. Hér ber sérstaklega að benda á að gagnagrunnurinn er ekki ,,anonymous`` [eða nafnlaus sem er kannski ekki alveg rétt þýðing] því í hann verður stöðugt bætt upplýsingum um einstaklinga og því þarf dulkóðun. Jafnvel ef gagnagrunnurinn yrði gerður ,,anonymous`` yrðu einstaklingar persónugreinanlegir á tiltölulega auðveldan hátt vegna fámennis Íslendinga. Í honum verða líka erfðaupplýsingar sem í eðli sínu eru alltaf persónugreinanlegar.

b. Stjórnvöld geta notað upplýsingar til að réttlæta ýmsar aðgerðir sem koma sjúklingum mjög illa, eins og t.d. lokun sjúkradeilda.``

Í þessu samhengi vil ég benda á að slíkar athugasemdir hafa komið fram hjá fleiri umsagnaraðilum, m.a. siðaráði landlæknis. Það er ekki endilega alltaf æskilegt fyrir þjóðfélagsþegna að heilbrigðisyfirvöld geti haft ótakmarkaðan aðgang að slíkum upplýsingum. Til eru dæmi þess að ríkisvaldið hafi misnotað slíkar upplýsingar á þann hátt að komið hafi fólki illa. Ég vil vekja athygli á þeim möguleika. Þó ætlunin sé kannski ekki að nota upplýsingarnar þannig þá er sá möguleiki alltaf fyrir hendi og ástæða til að vara við honum. Bogi Andersen segir síðan:

,,c. Þeir sem kaupa upplýsingar úr gagnagrunninum geta notað þær til að mismuna öðrum hópum. Þannig hefur Íslensk erfðagreining lagt áherslu á að þeir muni selja aðgang að grunninum til tryggingafyrirtækja og ,,health maintenance organization`` (HMO). Þessir aðilar geta notað upplýsingarnar á jákvæðan hátt og þeim verður ekki veittur aðgangur að einstaklingsupplýsingum. Tryggingafyrirtæki og HMO-fyrirtæki eru engu að síður líkleg til að nota upplýsingarnar til að mismuna einstaklingum og hópum. Íslendingar eru almennt þeirrar skoðunar að allir eigi rétt á sömu heilbrigðisþjónustu án tillits til fjárráða eða sjúkdómatíðni. Því miður er þessu ekki svo farið í Bandaríkjunum þar sem algengt er að fólki sé mismunað af tryggingafélögum og HMO-fyrirtækjum vegna sjúkdómasögu og ef það er í áhættuhópum. Í nýlegri grein í New York Times var því lýst að nú væru HMO-fyrirtæki, en ekki megalómanískir læknar eða brjálaðir sjúklingar orðnir ,,bófarnir`` í læknaþáttum sjónvarpsins. Svo alræmd eru þessi fyrirtæki nú að tveir frambjóðendur til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í síðustu kosningum voru taldir hafa náð kosningu að miklu leyti með því að tala gegn slíkum fyrirtækjum. Það þarf því upplýst samþykki frá sérhverjum einstaklingi áður en heilsufarsupplýsingar hans eru notaðar af tryggingafyrirtækjum og HMO-fyrirtækjum.``

Þetta er mat Boga Andersens sem starfar í öðru umhverfi í öðru þjóðríki. Hann varar mjög eindregið við þessu og reyndar hefur hann líka skrifað grein í Morgunblaðinu sem birtist sl. föstudag ef ég man rétt. Hún er mjög athyglisverð þar sem hann varar stórlega við þessari hugmynd.

Siðfræðistofnun hefur fjallað um samþykki sjúklings. Hún segir um þennan þátt:

,,Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ætluðu samþykki sjúklings fyrir því að upplýsingar um hann séu færðar í grunninn en að sjúklingur geti óskað eftir því að það verði ekki gert. Sterk siðferðileg rök eru hins vegar fyrir því að gera eigi kröfu um að rekstrarleyfishafi afli samþykkis sjúklings áður en upplýsingar um hann eru færðar í grunninn.

Í fyrsta lagi hefur ítrekað verið bent á að þrátt fyrir dulkóðun muni upplýsingarnar í grunninum eðli málsins samkvæmt vera persónugreinanlegar. Það veltur því að stórum hluta á aðgangstakmörkunum að grunninum hversu vel tekst að tryggja persónuleyndina. Í frumvarpinu eða í greinargerð með því kemur ekki fram hvers eðlis aðgangstakmarkanirnar eiga að vera. Hvað sem því líður breyta aðgangstakmarkanir ekki eðli sjálfs gagnagrunnsins. Verulegum erfiðleikum getur auk þess verið háð að hafa eftirlit með að slíkar aðgangstakmarkanir séu virtar og auðvelt kann að reynast síðar að taka ákvarðanir um að þeim skuli breytt eða þær afnumdar.

Vegna þess að hér er um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða hefur fólk rétt á að vera spurt hvort það samþykki að upplýsingunum sé ráðstafað í gagnagrunninum. Ekki er nægilegt að ganga út frá að fólk veiti samþykki sitt ef það lætur ekki frá sér heyra. Þar eð upplýsingarnar um gerð hins fyrirhugaða miðlæga gagnagrunns eru að ýmsu leyti af skornum skammti, verður slíkt samþykki ekki ,,upplýst`` í venjulegum skilningi þess orðs. En skortur á upplýsingum um miðlægan gagnagrunn er ekki rök fyrir því að óþarft sé að leita samþykkis einstaklinga áður en upplýsingar um þá eru færðar í hann.``

Siðfræðistofnun bendir í áliti sínu einnig á að gagnagrunnur af þessu tagi byggist m.a. á trausti. ,,Leiki verulegur vafi á því að upplýsingarnar í grunninum séu ópersónugreinanlegar, eins og raunin hefur orðið, þá skaðar það bæði grunninn sjálfan, með því að draga úr vilja fólks til að láta þangað upplýsingar, og heilbrigðiskerfið í heild með því að draga úr trausti fólks til þess. Sé það útbreidd skoðun fólks að ganga eigi út frá að það samþykki eitthvað sem á í raun að fá formlegt samþykki þess fyrir þá hlýtur það óhjákvæmilega að vekja tortryggni. Það er aðeins ein raunhæf leið til að koma í veg fyrir að slík tortryggni vakni um gagnagrunn af því tagi sem hér er til umræðu: Að gera samþykki sjúklinga að skilyrði þess að upplýsingar um þá séu færðar í grunninn.``

Mannvernd hefur líka sent heilbr.- og trn. umsögn og bendir á það í sinni umsögn ,,að í öllu vísindastarfi sem byggist á persónugreinanlegum upplýsingum eins og hér um ræðir, er það grundvallarsjónarmið að leitað sé eftir upplýstu og óþvinguðu samþykki hvers einstaklings fyrir skráningu og nýtingu upplýsinganna. Eingöngu má víkja frá þeirri kröfu á grundvelli afmarkaðra rannsóknaráætlana sem standast siða- og vísindakröfur að mati tölvunefndar og vísindasiðanefndar.``

Athygli heilbr.- og trn. hefur einnig verið vakin á því að fjölmargir erlendir aðilar hafa haft miklar áhyggjur af þessu máli, ekki síst í ljósi þess að þarna kunni að vera skapað ákveðið fordæmi sem ekki muni verða mannkyninu til mikils framdráttar þegar fram í sækir. Þetta mál hefur fengið umfjöllun í öllum helstu og virtustu vísindatímaritum heimsins eins og Nature Biotechnology, Nature Genetics og Science. Reyndar hafa verið skrifaðar ritstjórnargreinar um málið í öllum þessum blöðum. (ÖS: Líka í DV.) Líka í DV eins og hv. fyrrverandi ritstjóri þess dagblaðs bendir á.

Auk þess hefur verið umfjöllun um þetta í mörgum stórblöðum á heimsvísu og fjölmiðlar aðrir, ljósvakamiðlar, hafa líka tekið þetta til umfjöllunar. Í mjög fáum tilvikum hefur sú umfjöllun verið jákvæð fyrir íslensku þjóðina eða íslensku ríkisstjórnina. Í allflestum tilvikum hefur þvert á móti verið varað mjög við þessari hugmynd. Að auki hafa siðanefndir, norrænar, evrópskar, bandarískar og alþjóðlegar kynnt sér þýðingar á frv. og fjallað um málið. Heilbr.- og trn. hefur m.a. borist afrit af áliti norrænnar lífsiðfræðinefndar sem fjallaði um þetta mál. Einnig hefur verið bent á að siðanefnd HUGO sé að ljúka við siðareglur sem frv. stangist verulega á við. Ég vil í tengslum við þetta vekja athygli á því að ég óskaði eftir því í heilbr.- og trn. að til þess að taka af vafa um þetta atriði þar sem okkur hefur verið bent á í heilbr.- og trn. að hugsanlega kunni hið alþjóðlega vísindasamfélag að hafa í frammi einhverjar aðgerðir í kjölfar þess ef af samþykkt þessa frv. verður, einhvers konar þvingunaraðgerðir til þess að reyna að fá ríkisstjórnina ofan af þessari hugmynd. Slíkar aðgerðir, í hvaða formi sem þær yrðu, mundu koma sér mjög illa fyrir íslenska vísindamenn hvar sem þeir starfa. Þess vegna lagði ég á það áherslu í heilbr.- og trn. og nokkrir nefndarmenn tóku undir það að leitað væri eftir áliti erlendra aðila, hugsanlega vísindasiðanefnda austan hafs og vestan, eða eftir áliti einhverra þeirra fjölmörgu vísindamanna erlendis sem hafa skoðað málið mjög ítarlega. Mjög margir aðilar hafa haft samband við nefndina eða einstaka nefndarmenn og lýst yfir áhyggjum sínum af málinu, að leitað væri eftir umsögnum slíkra aðila í meira mæli og í raun og veru var ekkert fallist á þá kröfu. Meiri hluti heilbr.- og trn. hafnaði henni og taldi að það virtist ekki vera það mikilvægt að ástæða væri til þess að leita eftir slíku áliti.

[18:30]

Ég óttast að við eigum eftir að verða vör við einhvers konar aðgerðir í kjölfarið á þessu sem geri það að verkum, annað tveggja eða hvort tveggja, að hugmyndin, jafnvel þó að frv. fari í gegnum þingið, verði aldrei að veruleika. Og ef hún verður að veruleika, þá verði grunnurinn sem tæki til vísindarannsókna algjörlega ónýtur. Og líka af þeim rökum m.a. sem ég benti á áðan, þá liggur þegar fyrir að mjög margir munu ekki vilja vera með í grunninum. Bæði munu læknar í miklum mæli ekki vilja gera samstarfssamninga við fyrirtækið og einstaklingar munu óska eftir því að upplýsingar um þá séu ekki settar í grunninn.

Ég vil aðeins grípa hér ofan í álit sem norræn lífsiðfræðinefnd gerði um málið, en sú nefnd er á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju Norðurlandanna. Eitt af helstu verkefnum nefndarinnar er að ganga úr skugga um, ræða og láta í ljós skoðanir um siðfræðileg álitamál varðandi líffræði og læknisfræði á Norðurlöndunum. Nefndin fjallaði um drög að frumvarpi íslenska heilbrrn. um gagnagrunn á heilbrigðissviði og ég hafna því að ekki sé að marka það álit nefndarinnar, eins og meiri hlutinn hefur brugðist við því, vegna þess að það sé bara um drög sem voru til í sumar, en ég vil segja að álitið standist allt að einu um frv. í þeirri mynd sem það er núna. Í þessu áliti segir m.a., með leyfi forseta:

,,Frumvarpsdrögin veita einkalífi og mannhelgi einstaklingsins ófullnægjandi vernd. Fyrir því eru eftirfarandi ástæður: Þar sem gagnagrunnurinn felur í sér upplýsingar um fámenna þjóð er auðvelt að komast að því um hvaða einstakling er að ræða í hvert skipti með því að skoða ættartré og sérkenni einstaklinga. Frv. kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að afla upplýsinga um ákveðna þjóðfélagshópa án upplýsts samþykkis þeirra. Hér höfum við einkum í huga fólk, sem ekki getur veitt upplýst samþykki sökum aldurs, sjúkdóma eða andlegrar fötlunar og er því í sérstaklega viðkvæmri stöðu og getur átt á hættu á að fá á sig óæskilegan stimpil sé upplýsingum um það ekki haldið fullkomlega leyndum, og að sjálfsögðu einnig þá sem látnir eru. Sú hætta er ávallt fyrir hendi að með nútímatækni verði tiltölulega auðvelt og raunhæft að komast að dulmálslykli hvaða dulkóðunaraðferðar sem er þegar nægilega sterkir viðskiptahagsmunir eru í húfi.``

Ég vil skjóta hér inn í þetta álit norrænu lífsiðfræðinefndarinnar að í frumvarpsdrögunum um persónuverndina er m.a. tekið fram í athugasemdum með frv. að það sé eitt sérkenni á allri umræðu um persónuvernd í tengslum við viðkvæmar upplýsingar sem eru skráðar í tölvum að löggjöfin nær ekki að fylgja eftir tækniþróuninni. Tækniþróunin er svo ör að löggjöfin nær ekki að fylgja henni eftir sem er ákveðið vandamál. Hvernig dettur mönnum í hug að þetta haldi, jafnvel þó að dulmálslykillinn frægi sé tryggur í dag, ef við tökum mið af þeirri framþróun sem hefur orðið á sviði tölvutækni bara hin síðustu fimm ár, sem er svo hröð að maður hefur ekki undan að endurnýja tölvuna sína ef maður ætlar að fylgjast með henni, hvernig dettur mönnum í hug að halda að þetta haldi eitthvað lengur en kannski í mesta lagi út næsta ár eða þarnæsta ár? Ef ekki verður búið að komast að þessu eftir eitt ár þá verður búið að því eftir fimm ár eða tíu ár og a.m.k. örugglega eftir 20 ár, að mínu mati.

Síðan segir áfram í umsögn norrænu lífsiðfræðinefndarinnar:

,,Þar sem um miðlægan gagnagrunn er að ræða verður unnt að komast að öllum upplýsingum er í honum felast í einu, sé viðeigandi hugbúnaður notaður. Þetta þýðir einnig að auðvelt verður að flytja gagnagrunninn ólöglega til annarra landa.``

Síðan segir:

,,Í frumvarpsdrögunum eru engin ákvæði um undir hvaða skilyrðum leyft verður að afkóða gögnin. Nauðsynlegt er að skilgreina reglur um það hvernig og hvenær sé rétt að afnema dulkóðunina og t.d. nálgast einstakling í því skyni að afla ítarlegri upplýsinga um heilsufar hans/hennar eða til að tilkynna einstaklingi að af rannsóknum á gögnunum megi ráða að ákveðin áhætta sé á því að hann/hún fái sjúkdóm sem unnt er að koma í veg fyrir.``

Við þessu hefur reyndar meiri hlutinn brugðist á ákveðinn hátt en ég tel að allt að einu standi álit þessarar norrænu lífsiðfræðinefndar, sem ég hef ekki lesið hér í heild sinni þó ýmislegt fleira bitastætt sé í því, undir sér þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv.

Í 8. gr. frv. hefur verið sett ákvæði sem heimilar sjúklingi að óska eftir því að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Og eins og fram hefur komið getur slík beiðni varðað allar upplýsingar sem þegar liggja fyrir um hann í sjúkraskrám eða kunna að verða skráðar eða nánar tilteknar upplýsingar. Skylt er að verða við slíkri beiðni og skal landlæknir annast gerð eyðublaða fyrir slíkar tilkynningar og sjá til þess að þau liggi frammi á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum.

Það má alveg taka undir það að neitunarákvæði 8. gr. hafi verið til bóta frá því sem var í fyrstu gerð frv. en það dugir allt að einu of skammt. Fjölmargir aðilar, m.a. Geðhjálp, hafa bent á að slíkt ákvæði dugi lítt til verndar þeim sem vegna t.d. geðveiki, ellihrumleika eða annarra sjúkdóma geta ekki tekið slíka ákvörðun, eru einfaldlega ekki færir um það.

Ekki hefur verið fallist á þá kröfu minni hlutans í heilbr.- og trn. að fólk sem vill hætta þátttöku í grunninum geti jafnframt fengið eytt þeim upplýsingum sem um það hafa farið í gagnagrunninn, sem þó verði að telja lágmarksréttindi. Þá hefur einnig verið á það bent að á meðan unnt sé að keyra upplýsingar úr grunninum saman við ættfræðiupplýsingar sé lítill vandi að setja þá einstaklinga sem neita að vera með í grunninum inn með því að búa til svokallað genakort, sem grundvallað er á ættingjum þeirra, og þannig er neitunin í raun farin fyrir lítið, það er bara fyllt upp í eyðuna. Þetta er t.d. eitt af því sem kom í ljós í þessari umræðu sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir og ég held að mjög fáir Íslendingar geri sér grein fyrir hvað er í raun og veru hægt að gera mikið ef þessar upplýsingar eru allar tengdar saman.

Börn eru einn hópur sem sérstaklega þarf að huga að í þessum efnum og ég tel að það sé á engan hátt nægilega vel tryggt í frv. að þau njóti þeirrar verndar sem æskilegt er. Það hafa þegar verið raktar hér af hálfu frsm. 1. minni hluta hugmyndir til úrbóta hvað persónuvernd barna varðar og brtt. lagðar fram þeim hugmyndum til stuðnings, auk þess sem þar er lagt til að heimilt sé að láta eyða upplýsingum eftir að þær hafa farið inn í grunninn. Ég er sammála þeim brtt. og tel að ef þær verði samþykktar sé ásýndin örlítið betri en hún er í dag hvað þennan þátt málsins varðar.

Í frv. er ekki sérstakt ákvæði um látna menn en eðli málsins samkvæmt geta þeir ekki nýtt sér réttinn til að hafna þátttöku, þennan margumrædda rétt. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa bent á nauðsyn þess að réttur látinna til friðhelgi einkalífs sé verndaður á einhvern hátt en ein leið til að gera það er að setja ekki upplýsingar um látna einstaklinga inn í grunninn. Önnur leið gæti verið að leita samþykkis aðstandenda en sú leið er líklega mjög flókin í framkvæmd og einkum ef aðstandendur eru ekki sammála um hvað gera skuli. Mannvernd hefur m.a. bent á nauðsyn þess að hafa sérákvæði um látna einstaklinga og vernd þeirra og lagt til að um þá sé sett sérstök reglugerð því að það er ljóst að viðkvæmar persónuupplýsingar geta áfram verið viðkvæmar eftir andlát viðkomandi og tjónið orðið mjög tilfinnanlegt ef þær leka út. Og enn vil ég vitna í þessi frumvarpsdrög um persónuvernd, og þó að þau séu ekki orðin að þingskjali þá eru þau mjög góð almenn lesning um persónuvernd og hvernig henni er háttað og hvernig henni á að vera háttað. Ég ætla að grípa aðeins niður í kafla í þessum ágætu frumvarpsdrögum um vernd látinna manna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í gildandi lögum er ekki berum orðum tekin afstaða til þess að hve miklu leyti látnir einstaklingar njóta verndar laganna. Má því segja að réttarstaðan hér á landi sé ekki fyllilega ljós að því leyti. Almennt hefur þó verið gengið út frá því í íslenskum rétti að látnir einstaklingar njóti friðhelgi um einkalíf sitt ekki síður en lifandi menn. Hefur tölvunefnd byggt á því í störfum sínum, t.d. að því er varðar aðgang að heilsufarsupplýsingum um látna menn í tengslum við framkvæmd vísindarannsókna á heilbrigðissviði.

Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að ný tækni á sviði erfðavísinda gerir það brýnna en ella að tekin sé afstaða til þess í persónuverndarlöggjöf að hve miklu leyti upplýsingar um látna menn falli undir gildissvið laganna því að upplýsingar um látna menn geta veitt mjög mikilvægar og afdrifaríkar upplýsingar um lifandi menn.

Með framangreind rök í huga er á því byggt í frv. þessu, þótt ekki segi það berum orðum í frumvarpstextanum sjálfum, að skráðar upplýsingar um látna menn falli undir gildissvið laganna, einkum ef þær geta veitt upplýsingar um lifandi menn.``

Og í þessu tilviki er ljóst að til þess er leikurinn gerður. Þær munu geta veitt upplýsingar um lifandi menn.

,,Á það t.d. við um upplýsingar um arfgenga sjúkdóma. Teljast slíkar upplýsingar þá ótvírætt persónuupplýsingar í skilningi laganna.``

Þetta er sá frumvarpstexti sem liggur fyrir í dómsmrn. og liggur fyrir hjá hæstv. ríkisstjórn að samþykkja eða hafna og ég er ekki hissa þó að menn hafi svolítið tafsað á þessu í þingflokki sjálfstæðismanna, eftir að hafa barist fyrir því að frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði væri samþykkt í þeirri mynd sem það er í dag.

Ég vil líka ítreka þá skoðun mína, sem hefur reyndar komið fram áður, að ég tel persónuverndina mun tryggari í dreifðum gagnagrunnum en í einum miðlægum. Ef unnt yrði að persónugera fólk í þessum grunni og upplýsingar um það yrðu notaðar gegn fólki þá væri tjónið ómetanlegt og afsökunarbeiðnir dygðu þá skammt. Það er þetta stóra ,,ef`` sem margir óttast og þeim mun meiri samkeyrsla sem á sér stað þeim mun meiri er áhættan og á þetta hefur einmitt verið bent í áliti tölvunefndar. Það hafa aldrei þótt góðir búskaparhættir að hafa öll eggin í sömu körfunni og þar er kannski komin ástæðan fyrir því að aðrar þjóðir velja þá leið að byggja upp kerfi dreifðra grunna í stað þess að gera einn miðlægan. Mögulegur vísindalegur ávinningur sem kynni hugsanlega að verða meiri af miðlægum grunni en dreifðum er þá látinn víkja --- ef hann er til staðar --- í nafni tryggari persónuverndar og slíkar varúðarráðstafanir eru fullkomlega skiljanlegar í ljósi þess tjóns sem getur orðið í kjölfar misnotkunar á upplýsingum sem þessum.

Ég vék aðeins að því í upphafi hversu mikilvægt það væri að tryggja frelsi til rannsókna og frjálsa samkeppni á vísindasviðinu. Til þess að framþróun vísindanna geti orðið sem mest er mikilvægt að rannsóknarfrelsið sem slíkt sé virt. En því verður þó auðvitað líka að setja þau takmörk sem reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs krefjast. Á það hefur verið bent af fjölmörgum umsagnaraðilum að rekstrarleyfið sem frv. gerir ráð fyrir geti ógnað verulega nauðsynlegu frelsi til rannsókna. Nokkur atriði hafa verið tínd til þessu máli til stuðnings.

Í fyrsta lagi má þar nefna veitingu sérleyfisins sem slíka, þ.e. einkaréttinn í sjálfu sér. Hann skapi rekstrarleyfishafa óeðlilegt samkeppnisforskot en frjáls samkeppni sé hið eðlilega umhverfi í vísindaheiminum og án hennar geti vísindin ekki þrifist vel. Möguleikar annarra vísindamanna til fjármögnunar starfsemi sinnar verði minni ef á markaðnum er stóri bróðir sem nýtur sérstakrar lagaverndar og velvildar stjórnvalda, auk þess að hafa einn óheftan aðgang að öllum heilsufarsupplýsingum íslensku þjóðarinnar. Aðgengi annarra vísindamanna verði alltaf takmarkað út frá hagsmunum rekstrarleyfishafa og skipan aðgengisnefndarinnar svokölluðu er einmitt eitt dæmi þess, en þar er gert ráð fyrir að einn nefndarmanna sé fulltrúi rekstrarleyfishafa. Þannig er öðrum vísindamönnum gert að leggja viðkvæmar rannsóknir sínar eða hugmyndir á borð samkeppnisaðila, sem hlýtur að teljast óeðlilegt.

Ég tek undir slíkar áhyggjur og bendi á að kerfi dreifðra gagnagrunna er mun vænlegra til að tryggja rannsóknarfrelsið auk þess sem einokun á borð við þá sem lögð er til í frv. á að heyra sögunni til.

Tekið er fram í nál. meiri hlutans að það þurfi að vera tryggt að þegar aðrir vísindamenn leggja fram umsókn til aðgangs að grunninum fyrir nefndina, aðgengisnefndina svokölluðu, sem á að fjalla um slíkar umsóknir, en þar sem fulltrúi rekstrarleyfishafa sitji, þá sé mjög mikilvægt að fólki sé ekki gert að leggja fram meiri upplýsingar um viðkomandi verkefni en nauðsynlegt er. Ég spyr frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. --- sem ég óska enn og aftur eftir að sé í salnum og hlýði á mál mitt, herra forseti, við hvað sé átt með þessu. Hefur það eitthvað verið skilgreint hvað eru nauðsynlegar upplýsingar sem þarf að leggja fyrir aðgengisnefndina um þau verkefni sem hún á að ræða um, hvað eru nauðsynlegar upplýsingar? Hefur það eitthvað verið skoðað af hálfu heilbrrn.?

[18:45]

Bent hefur verið á að frv. brýtur í bága við samkeppnisreglur EES og má fullyrða að það sé fyrirséð að framkvæmdin verði kærð hið fyrsta til samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisstofnun telur ljóst að almennt séð sé veiting einkaréttar til gerðar og starfrækslu miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði ekki í samræmi við þá þróun sem hefur orðið innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Líka er á það bent í áliti Samkeppnisstofnunar að veiting einkaréttarins muni skapa markaðsráðandi stöðu á verulegum hluta Evrópska efnahagssvæðisins og líklegt sé að sú staða verði misnotuð en sú misnotkun muni hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EES-samningsins. Ég vil líka vekja athygli á því hér að ekki aðeins hunsar ríkisstjórnin ráð og umsagnir okkar færustu manna á sviði persónunefndar, sem tölvunefnd er og þeir sem hafa starfað með tölvunefnd, heldur eru líka hunsuð rök þeirra manna sem hvað best þekkja til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, samkeppnishluta hans.

Samkeppnisstofnun telur sýnt að veiting einkaréttarins brjóti í bága við 1. mgr. 59. gr., samanber 54. gr. EES-samningsins og að ólíklegt sé að hægt sé að heimfæra veitinguna undir veitingu sérleyfisins undir undanþágu 2. mgr. 59. gr. samningsins um undanþágu frá samkeppni. Samkeppnisstofnun bendir á að þar sem þær reglur feli í sér undanþágu frá einhverjum þýðingarmestu ákvæðum EES-samningsins sé ljóst að reglan sætir þröngri skýringu og að ríkar kröfur séu gerðar til þess að skilyrði ákvæðisins séu upfyllt. Þá er vakin athygli á því að fá dæmi eru fyrir því hjá dómstóli EB að fallist hafi verið á undanþágu frá samkeppnisreglu sáttmálans á grundvelli þessa ákvæðis og hefur þróun dómsúrlausna í þokkabót verið á þann veg á undanförnum árum að möguleikar aðildarríkja ESB til að koma við einkarétti hafi verið þrengdar þar sem slíkt verður æ oftar talið brjóta gegn ákvæðum Rómarsáttmálans en áður. Nauðsynlegt er að mati Samkeppnisstofnunar að nálgast álitaefni um undanþágu frá samkeppnisreglum í ljósi þess að þar sem dómstóllinn hefur áður talið að opinber einokunarfyrirtæki og fyrirtæki er njóta einkaréttar væru leyfð nema þau væru sérstaklega bönnuð á tilteknum sviðum hefur dómstóllinn nú tekið þá stefnu að telja slík fyrirtækin bönnuð nema þau beri að leyfa af sérstökum ástæðum. Í raun og veru hefur verið snúið við áherslunum hjá dómstólnum. Að auki telur Samkeppnisstofnun sýnt að veiting einkaréttarins stríði gegn markmiði samkeppnislaga og Lagastofnun Háskóla Íslands treystir sér ekki til að fullyrða að einkarétturinn standist EES-reglur heldur segja höfundar álitsins einungis að einkarétturinn geti samrýmst þeim þó með því sé tekin nokkur áhætta eins og fram kemur í áliti Lagastofnunar á bls. 28, herra forseti.

Ég er sammála mati Samkeppnisstofnunar og tel vandrataða þá leið sem gæti orðið til sátta hvað þennan þátt varðar. Það verður mjög flókið að útfæra ákvæði 9. gr. um aðgang annarra vísindamanna að grunninum en rekstrarleyfishafa en af hálfu ríkisstjórnarinnar eru ódýr eða svo til ókeypis aðgangur íslenskra vísindamanna að grunninum talin vera mikilvæg rök fyrir því að koma honum upp. Hins vegar liggur nokkuð ljóst fyrir í dag að slíkur aðgangur íslenskra vísindamanna telst brot á EES-reglum ef erlendum vísindamönnum er seldur aðgangur að grunninum á fullu verði. Þá mundi mjög líklega vera talið að þarna væri um að ræða brot á samkeppnisreglum EES og talið að um væri að ræða mismunun á grundvelli þjóðernis. Ein af grundvallarstoðum EES-samningsins byggist á því að óheimilt er að mismuna mönnum innan svæðisins á grundvelli þjóðernis.

Mismunun eins og núverandi gerð frv. gerir ráð fyrir á milli íslenskra vísindamanna og annarra stenst því ekki og telst að mati margra sem vel þekkja til þessara reglna ótvírætt brot á ákvæðum EES-samkomulagsins. Þá verður að telja óeðlilegt að fulltrúi rekstrarleyfishafa eigi sæti í aðgengisnefndinni eins og áður hefur verið vikið að.

Ég tek undir þær hugmyndir að breytingu á 9. gr. frv. sem raktar eru í áliti 1. minni hluta og tel mikilvægt að ef af samþykkt frv. verður verði reynt að koma til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið á þessa grein, það tel ég mjög mikilvægt því að að óbreyttu er þetta eins og tímasprengja sem springur fyrr en seinna.

Þá tel ég mjög erfitt að sjá rökin gegn því að útboð sé haft um svo viðamikla framkvæmd sem gerð og starfræksla gagnagrunnsins er og burt séð frá því hvort það sé lagaskylda eða ekki eins og menn greinir á um. Bent hefur verið á það, m.a. af hálfu Ríkiskaupa, að það væri skylda að bjóða þetta út á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tek í sjálfu sér ekki afstöðu til þess en ég tel burt séð frá því þá sé beinlínis æskilegt að gera það. Í raun er mjög óeðlilegt að farið sé út í svo dýra og viðamikla framkvæmd sem frv. gerir ráð fyrir án þess að leitað sé að besta kostinum í stöðunni fyrir land og þjóð, séð bæði út frá vísindalegu sjónarmiði og hagfræðilegu sjónarmiði og án þess að öðrum en einu fyrirtæki sé í raun veittur möguleiki til að vinna þetta verk.

Í raun og veru má taka mjög margt til skoðunar í tengslum við þetta frv. Ég verð að segja það að þeim mun meira sem ég hef lesið mér til í tengslum við málið frá upphafi, þeim mun vissari verð ég í þeirri sök minni að þessi hugmynd gangi hreint og klárt ekki upp. Það er bara svo einfalt mál að hún gengur ekki upp. Jafnvel þó ég mundi vilja sýna jafnmikið hugrekki og kannski bjartsýni og hv. frsm. 1. minni hluta sem talaði á undan mér, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að ef ríkisstjórn mundi falla frá einkaréttinum sem ég tel reyndar algerlega útilokað vegna þess að út á það held ég að þessi hugmynd gangi, en segjum sem svo að ég mundi telja að það væri mögulegt, þá efast ég samt um að þessi hugmynd væri til einhvers nýtanleg. Í því sambandi vil ég ekki síst vísa til þess hvernig staðið hefur verið að málinu í ósætti við allt vísindasamfélagið meira og minna og ég tel hreinlega að þessi hugmynd, hvort sem af samþykkt þessa frv. verður eða ekki, sé dauð í þeirri mynd sem hún átti upprunalega að vera, að það galdatæki sem um var talað í upphafi verði aldrei til. Það á tíminn hins vegar eftir að leiða í ljós ef af samþykkt frv. verður.

Ég vil ítreka í lokin mikilvægi þess fyrir vísindamenn að vera í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að við hlustum á þær viðvaranir sem hafa komið fram frá hinu alþjóðlega vísindasamfélagi um þessi mál. Borist hafa bréf frá prófessorum og frá fólki sem hefur starfað erlendis um að það geti komið til þess að íslenskir vísindamenn verði á einhvern hátt útilokaðir frá slíku samstarfi. Ég held að við eigum að hlusta og eigum að reyna alla vega að komast að raun um það hvort slíkar viðvaranir séu raunhæfar. Við eigum ekki að hunsa þær algerlega eins og ég vil meina að meiri hlutinn hafi gert því að ef af þeim verður eru afleiðingarnar mjög alvarlegar og geta orðið mjög alvarlegar og miklar fyrir íslenska vísindamenn.

Ég vil líka draga það fram að ýmislegt í frv. snertir bara skilgreiningar sem er mjög óljóst og mjög erfitt að átta sig á hvað átt er við og það tengist m.a. þessu sem ég kom inn á áðan varðandi það hvort ættfræðiupplýsingarnar eða ættfræðigrunnurinn ætti að vera þarna inni eða ekki og sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson dró líka fram. Ég vil enn og aftur ítreka að hv. frsm. meiri hlutans gerir algerlega ljóst fyrir okkur hvort þær eigi að vera inni í grunninum eða ekki. Ef þær eiga ekki að vera inni þá á hvern hátt sé hægt að samkeyra þetta vegna þess að þetta er mjög mikilvægt atriði.

Reynir Arngrímsson læknir hefur margoft bent heilbr.- og trn. á það hversu víðtæk skilgreiningin sé á erfðafræðilegum upplýsingum í frv. og hann hefur bent á að það þurfi að liggja mjög ljóst fyrir hvað sé átt við með því hugtaki. Hann hefur t.d. bent á að slíkar upplýsingar eru oft og tíðum afrakstur vísindarannsókna sem má nota t.d. í sakamálum þannig að þetta séu í raun og veru ekki endilega heilsufarsupplýsingar. Ég held að það þurfi að liggja skýrt fyrir hvort við ætlum að setja slíkar upplýsingar í grunninn eða ekki.

Hann hefur bent á það að Íslensk erfðagreining ráðgerir að gera svokölluð genakort með 700 örmerkjum fyrir hvern einstakling og hann bendir á það að við notkun DNA í sakamálarannsóknum nægi að hafa 13 örmerki til að dæma einstakling. Reyndar hefur líka verið bent á það í þessari umræðu allri hversu hæpið getur verið að byggja mikið á upplýsingum sem þessum. Við höfum t.d. dæmi þess að DNA-rannsóknir hafa reynst hæpin sönnunargögn í ákveðnum sakamálum þannig að mjög varhugavert er að gera of miklar væntingar um niðurstöðurnar sem hugsanlega kæmu út úr þessum grunni.

Ég vil líka vekja athygli á áhyggjum Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja sem hafa bent á að það er mjög óljóst hversu langt sérleyfið eigi að ganga hvað varðar hugbúnaðinn og það sé talað um gerð og starfrækslu gagnagrunns. Síðan er bent á að upplýsingarnar skulu unnar þannig að þær uppfylli þarfir viðkomandi stofnunar eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns o.s.frv. og þeir spyrja sem svo: Hversu langt nær þetta? Þetta frv. muni ef að lögum verður hafa það í för með sér að það þurfi að breyta ýmsu í tölvukerfum í kjölfar grunnsins, aðlaga bókhaldskerfi og ýmislegt annað þurfi hugsanlega að gera og þeir spyrja sem svo: Á sérleyfishafi að fá öll smáverkefni sem til falla, alla forritsstubba sem þarf að gera, eins og þeir orðuðu það?

Ég vil, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu, enn vitna í Boga Andersen sérfræðing, í sameindaerfðafræði og lyflæknisfræði við læknadeild Kalíforniuháskóla í San Diego, og það sem hann skrifar í Morgunblaðið nú nýverið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Hafa amerískar mýs meiri rétt en Íslendingar?

Áður en undirritaður getur framkvæmt tilraunir á músum þarf hann að leggja fram nákvæma rannsóknaráætlun til samþykkis hjá siðanefnd sem fjallar um dýrarannsóknir innan Kaliforníuháskóla. Þar þarf ég að rökstyðja tilraunina, gera grein fyrir fjölda músa sem nota þarf, réttlæta fjöldann, áætla mögulegan sársauka þeirra og gera grein fyrir hvernig sá sársauki verði minnkaður og almennt tryggja að mannúðlega verði farið með mýsnar. Það er því hrikalegt að hugsa til þess að einkafyrirtæki skuli geta fengið stjórnvöld til að skrifa lög sem leyfa þeim tilraun á allri þjóðinni án þess að leggja fram neina rannsóknaráætlun, hvað þá hlutlægt mat á áhættu og óvissuþáttum. Hvernig geta stjórnvöld ákvarðað það að ekki sé nauðsyn á upplýstu samþykki áður en þau vita hvaða upplýsingar fara í grunninn eða hvernig gagnagrunnurinn verður notaður?

Er til of mikils ætlast að farið sé jafn vel með Íslendinga og amerískar mýs?

Mannkynssagan kennir okkur að stærstu slysin í rannsóknum á fólki hafa einmitt átt sér stað þegar stjórnmálamenn og stjórnvöld hafa hunsað álit faglegra siðanefnda og tekið að sér siðferðilegt mat á rannsóknum, nákvæmlega eins og hefur átt sér stað í þessu máli. Þannig hafa íslenskar siðanefndir bent m.a. á tvo alvarlega galla á frumvarpinu sem eru einkarétturinn annars vegar og vöntun á upplýstu samþykki hins vegar. Ekki hefur verið tekið tillit til þessara álita í nýjustu útgáfu frumvarpsins.

En jafnvel þegar stjórnvöld taka þátt í að reka ósiðlegar rannsóknir þá er vísindasamfélagið ekki alveg ráðalaust í að vernda heiðarleika vísinda og þá sem eru rannsakaðir. Þannig mun það hafa ýmsar afleiðingar verði frumvarpi um gagnagrunn á heilbrigðissviði ekki breytt í samræmi við ráðleggingar siðanefnda. Til dæmis er ætlast til að rekstrarleyfishafi semji við heilbrigðisstofnanir um flutning á heilsufarsupplýsingum í gagnagrunn. Slík rannsóknarsamvinna mun krefjast samþykkis siðanefnda þessara stofnana og það er augljóst að hæfar siðanefndir munu aldrei samþykkja samvinnu byggða á núverandi frumvarpi, m.a. vegna einkaréttarákvæðisins. Síðan má einnig benda á að stofnanir sem veita styrki og vísindarit gera kröfu til þess að rannsóknir á fólki hafi samþykki siðanefnda. Því munu þeir vísindamenn sem eiga í samvinnu við rekstrarleyfishafa útiloka sig frá styrkjum og birtingu á rannsóknarniðurstöðum í vísindaritum.

Við búum í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Ef Alþingi samþykkir lög sem innleiða allt aðrar aðstæður í íslenskar lífvísindarannsóknir en tíðkast annars staðar gæti það haft alvarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar bæði fyrir íslenska sjúklinga og fyrir íslensk lífvísindi. Í stað þess að ýta undir rannsóknir mun einkarétturinn þvert á móti hamla rannsóknum og framförum byggðum á íslensku framlagi.``

Vegna þess, herra forseti, sem hér hefur verið rakið tel ég frv. ótækt til afgreiðslu í þeim búningi sem það er í núna og get því ekki stutt samþykkt þess. Ég vil hins vegar taka fram að ég styð fram komnar brtt. 1. minni hluta og þau rök sem færð eru fyrir þeim í áliti hans en áskil mér rétt til að leggja fram eða styðja aðrar brtt. eftir atvikum.