Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 19:01:20 (1749)

1998-12-07 19:01:20# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[19:01]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að það komi fram að ég er mjög sammála fulltrúa 2. minni hluta sem hafði framsögu fyrir máli sínu með vel rökstuddu áliti. En mig langaði til að spyrja hv. þm. um það atriði sem snertir alþjóðavísindasamfélagið og þær sterku raddir erlendis frá sem borist hafa þar sem menn hafa mjög miklar áhyggjur, eins og ræðumaður tók fram, af því sem er að gerast á Íslandi. Reyndar tók hv. þm. það fram að lagt hefði verið til í heilbr.- og trn. að leitað yrði slíks álits, þá langar mig að fræðast um með hvaða rökum meiri hluti nefndarinnar hafi hafnað því að leita álits frá virtum aðilum erlendis. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að það skýrist hvers vegna í ósköpunum þingnefnd vill ekki fá sem gleggstar upplýsingar í máli af þessum toga sem við erum auðvitað ekki skuldbundin á Alþingi til að hlíta eins og segja má um EES-reglur og annað slíkt sem við erum njörvuð í samningsbundið.

Varðandi eignarréttinn á upplýsingum þætti mér einnig vænt um að heyra álit hv. þm. á því sjónarmiði að upplýsingar í heilbrigðisskýrslum séu í raun eign sjúklinga sem upplýsingarnar veita. Ég er ekki að tala um heilbrigðisskýrslurnar sem pappírsgögn heldur upplýsingarnar. Væri ekki nærtækt að álykta sem svo að ef farið er út í ævintýri sem þetta, raunalegt ævintýri eins og þennan miðlæga gagnagrunn, að rökrænt sé að þeir sem veittu upplýsingar væru um leið eignaraðilar, hluthafar að fyrirtækinu og í raun eignaraðilar þess?