Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 19:05:58 (1751)

1998-12-07 19:05:58# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[19:05]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir upplýsingarnar og tel mikilvægt að þær komi fram. Auðvitað undrar mig þau sjónarmið sem virðast hafa legið að baki höfnun meiri hluta nefndarinnar á þessu. Það er alveg dæmalaust að menn skuli ekki vilja hafa augun opin og reyna að átta sig á eðli máls sem best með því að fá upplýsingar utan lands frá.

Ég kannast við erindi sem bárust nefndarmönnum um það efni, vel útfært sem var auðvitað aðeins hugmynd. Þetta er alveg dæmalaus þröngsýni í svo stóru og alvarlegu máli.

Varðandi hinn þáttinn sem ég vék að finnst mér að ríkur skyldleiki sé á milli þessa máls og varðandi umráða- eða eignarrétt auðlinda. Við höfum lögfest sameign íslensku þjóðarinnar á lífræðilegum auðlindum hafsins. Er ekki eðlilegt að litið sé á þær upplýsingar sem liggja í heilbrigðisskýrslum og eru komnar frá einstaklingum sem sameign, hversu vítt er farið, a.m.k þeirra sem veita upplýsingarnar, og ekki sé hægt að ráðstafa þeim til einkafyrirtækis eins og hér er lagt upp með? Ég fæ ekki komið því heim og saman.