Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:03:09 (1757)

1998-12-08 13:03:09# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Árið 1992 sagði hæstv. viðskrh., þá þingmaður í stjórnarandstöðu, orðrétt:

,,Hins vegar hafnar Framsfl. því að brjóta niður margar mikilvægar þjónustustofnanir, svo sem ríkisbankana, ... og brjóta þá þannig niður að molarnir passi í ginið á kolkrabbanum.``

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta sem hæstv. viðskrh. er að gera núna, brjóta niður bankakerfið svo það passi í ginið á kolkrabbanum. Dreifð eignaraðild, sem að nafninu til er stefna ríkisstjórnarinnar, er ekkert nema orðin tóm því það er einkavinavæðingin sem þessi ríkisstjórn stendur fyrst og fremst að. Ekkert hefur komið fram um að hæstv. ráðherra ætli að grípa til ráðstafana til að stöðva það að fjársterkir aðilar sölsi undir sig stóran hlut í bankakerfinu og eigi þar ráðandi ítök. Þvert á móti virðist sem á fullri ferð sé hér í þinginu verið að keyra út heimild til ráðherra til að selja allan Fjárfestingarbankann, málið sé komið út úr efh.- og viðskn. án þess að skorður sé settar við eignaraðild þrátt fyrir að t.d. Kaupþing hefur nú eignast 9% af heildarhlutafé og atkvæðisrétt sem nemur 14% af heildaratkvæðamagni í Fjárfestingarbankanum, meðan útboðsskilmálar kváðu á um að enginn einn aðili eignaðist meira en 3% í Fjárfestingarbankanum.

Ég bið hæstv. ráðherra að átta sig á því á hvaða ferð hann er með íslenska bankakerfið. Kolkrabbinn er á góðri leið með að soga það til sín líkt og við höfum séð gerast í olíu-, tryggingafélögunum og í flutningastarfsemi. Þessi þróun stuðlar ekki að samkeppni, ekki að dreifðri eignaraðild. Þvert á móti eru peningaöflin þessa dagana, kolkrabbinn og fjölskyldurnar fjórtán, með ægihraða að soga til sín bankakerfið sem stuðla mun að samþjöppun valds og óeðlilegum hagsmuna- og stjórnartengslum í atvinnulífinu og verður farvegur fyrir einokun, hringamyndun og fákeppni á peningamarkaðnum og í bankakerfinu.

Ég skil vel að fjöldi landsmanna standi nú við dyr bankastofnana og verðbréfafyrirtækja og reiði fram kennitölur sínar og fái í staðinn ágóða inn á bankareikning sinn án áhættu og mikið liggur við hjá verðbréfafyrirtækjunum sem sögð eru ganga meira að segja inn á elliheimili og í skóla til að safna kennitölum.

En hverjir eru það sem raunverulega græða? Það er ekki fólkið í biðröðunum. Það eru verðbréfafyrirtækin, kolkrabbinn og peningaöflin í landinu, en stærstur hluti ágóða hverrar kennitölu í Fjárfestingarbankanum rann til þeirra því að af allt að 160 þús. kr. sem fékkst fyrir hverja kennitölu fóru 140 þús. til peningaaflanna en flestir sem lánuðu kennitölur sínar fengu einungis í sinn hlut 18 þús. kr. af 160 þús. kr. gróða.

Það sama er að gerast í Búnaðarbankanum, en á örfáum klukkutímum í gær hækkaði gengi bréfanna um nálægt 20% og talað er um að þegar upp verði staðið renni aðeins 1--2 þús. kr. til þeirra sem lána kennitölur sínar en margir tugir milljóna miðað við hækkun á markaðsvirði bréfanna til peningaaflanna. Því er ljóst að verið er að selja eigur ríkisins og skattgreiðenda langt undir raunvirði og ég hygg að það sé ekki ofáætlað að miðað við markaðsvirði bréfa í Fjárfestingarbankanum og í Búnaðarbankanum sé reiknaður ávinningur stóreigna- og peningamanna í þjóðfélaginu, þeirra sem raunverulega græða á öllu saman meðan ríkið og skattgreiðendur tapa mörg hundruð millj. kr., sumir segja ekki undir 1--1,5 milljörðum. Má t.d. nefna að miðað við markaðsvirði bréfanna í gær var virði Búnaðarbankans um 10 milljarðar en bankinn var metinn á 8,6 milljarða. Þannig er hæstv. viðskrh. búinn að brjóta niður bankakerfið svo það passi vel í ginið á kolkrabbanum.

Þegar þessi þróun blasti við átti ráðherrann vitanlega að stöðva söluna, t.d. núna í Búnaðarbankanum, meðan Alþingi og ríkisstjórn athuguðu hvernig rétt væri að bregðast við í málinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Kom aldrei til greina að stöðva söluna í Búnaðarbankanum og er það virkilega svo að ráðherrann ætli að láta það átölulaust að hér í gegnum þingið fari frv. um Fjárfestingarbankann, heimild til sölu á 51% í Fjárfestingarbankanum, án þess að skorður séu settar á eignaraðild? Ég spyr því ráðherrann um álit hans á því að stórir fjárfestar hafa náð til sín hlutafé í FBA sem er langt umfram leyfilegt hámark og hvort slík kennitölusöfnun, leynileg eða auglýst, samrýmist eðlilegum viðskiptaháttum og hvert sé álit bankaeftirlitsins á því. Einnig hvort ætla megi að gengi í bönkunum hafi verið langt undir raunvirði bankanna. Ég spyr líka um það hvernig ráðherrann ætlar að tryggja framgang stefnu ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild, m.a. hvort hann muni beita sér fyrir því að enginn geti eignast meira en 3--5% í bönkunum, hvorki í hlutafé né heildaratkvæðamagni, og ákvæði verði sett um lágmarkseignarhaldstíma á hlutafé?