Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:08:43 (1758)

1998-12-08 13:08:43# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:08]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Áður en ég svara spurningum hv. þm. tel ég rétt að rekja í stuttu máli þau markmið sem ríkisstjórnin lagði til grundvallar við sölu hlutafjár í bönkunum. Meginmark ríkisstjórnarinnar með þeim söluáföngum sem nú er að ljúka er að stuðla að dreifðri eignaraðild í bönkunum. Í umræðum um hlutafjárvæðingu í þinginu virtist stjórnarandstaðan leggja höfuðáherslu á þetta sama markmið.

Með dreifðri eignaraðild vildi ríkisstjórnin einkum ná fram þrennu: Í fyrsta lagi að veita öllum almenningi tækifæri til þess að eignast hlut í bönkunum og gerast þannig þátttakendur í rekstri bankanna. Í öðru lagi að skrá hlutabréf bankanna á Verðbréfaþingi Íslands í því skyni að nýta þann viðskiptalega aga sem Verðbréfaþingið veitir og fá verðmæti bankanna mælt á viðskiptalegum markaði. Í þriðja lagi að koma í veg fyrir að fjársterkar viðskiptablokkir í atvinnulífinu yrðu alls ráðandi í bankakerfinu.

Til viðbótar þessu voru þessir söluáfangar nýttir til að gefa starfsmönnum kost á að vera hluthafar í bönkunum. Markmið þess var að efla tengsl bankanna og starfsmanna þeirra auk þess sem þetta var liður í heildarskipulagi á þeim breytingum sem áttu sér stað um síðustu áramót.

Reynsla af sölu hlutafjár í Landsbanka og Fjárfestingarbanka staðfestir að ríkisstjórnin hefur náð fram markmiðum sínum um dreifða sölu. Enginn vafi er á að það sama verður uppi á teningnum að því er varðar sölu hlutafjár í Búnaðarbanka Íslands hf. Með því á ég við að tugir þúsunda Íslendinga hafa fjárfest og munu fjárfesta í bönkunum til þess að eiga hlutabréf í þeim sem eigendur. Þessi gífurlegi áhugi til þátttöku hefur opnað almenningi leið til þess að hagnast á viðskiptum með hlutabréf og kynnast því hvernig hlutabréfamarkaður virkar og þannig hefur almenningur orðið betur meðvitaður um tengsl atvinnulífs og bættrar velferðar. En jafnframt hefur þessi áhugi opnað samkeppnisaðilum bankanna leið til að eignast stærri hlut en nokkurn grunaði strax í upphafi. Þannig tilkynntu tveir hluthafar á fyrsta skráningardegi Fjárfestingarbankans á Verðbréfaþingi Íslands að þeir ættu 5% og 9% og sá sem átti stærri hlutinn hafði tryggt sér atkvæðisrétt sem nam 14%.

Ég hef áður sagt að kennitölusöfnun sú sem skilar slíkri hlutdeild í eignum og áhrifum í bankanum sé andstæð þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér. Þegar reynslan er fengin af þessum útboðum og betur kemur í ljós hvernig eftirmarkaðurinn virkar mun ríkisstjórnin í ljósi þeirrar reynslu taka ákvörðun um hvernig staðið skuli að næstu skrefum við söluna.

Sem svar við spurningu hv. þm. er ég ekki reiðubúinn til þess að fullyrða að þau viðskipti sem fram hafa farið undir þessu nýja samheiti, kennitölusöfnun, samrýmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum. Frjáls viðskipti með hlutabréf í bönkunum og jafnvel kauprétt að hlutafé þurfa ekki að vera óeðlileg. Það er hins vegar ekki sama hvernig er staðið að viðskiptunum. Þar geta vaknað ýmsar spurningar, m.a. um skyldur fyrirtækja í verðbréfaþjónustu gagnvart fjárvörsluþegum sínum.

Mér er kunnugt um að bankaeftirlitið sé nú að kanna hvernig staðið var að þessari kennitölusöfnun í einstökum tilvikum. Niðurstaða bankaeftirlitsins er ekki fengin og ég vil bíða niðurstöðu þess áður en ég fullyrði neitt um þetta.

Eins og fram hefur komið hafa bankarnir í meirihlutaeigu ríkisins tekið þátt í þeim viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar. Þegar sala hlutafjár í Fjárfestingarbankanum stóð yfir taldi ég rétt að gefnu tilefni að rita Landsbanka og Búnaðarbanka bréf þar sem ég tjáði þeim að ég teldi óeðlilegt að þeir keyptu stóran hlut í bankanum. Með því átti ég við hlut sem ætlaður væri til þess að ná áhrifum í stjórnun bankans. Vitaskuld var bönkunum engu að síður rétt og skylt að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna og fjárfesta fyrir þá, t.d. í hlutabréfasjóðum sínum. Hafi kaup bankanna miðað að slíku get ég ekki gert athugasemdir við það.

Sem svar við annarri spurningu hv. þm. vil ég segja þetta: Þegar gengi Fjárfestingarbankans og raunar allra bankanna var ákveðið var tekið mið af því sölufyrirkomulagi sem ákveðið var. Verðlagningin var miðuð við að þar yrðu seldir litlir hlutir í dreifðri sölu til almennings. Einkavæðingarnefnd leitaði sér erlendrar sérfræðiráðgjafar til þess að leggja mat á verðmæti í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og niðurstaðan um gengi var innan þess ramma sem sú ráðgjöf gaf til kynna. Ef stjórnvöld hefðu hins vegar ákveðið að selja stærri hluta, 5--15% hlut til hvers aðila, hefði verðmætið orðið annað en í dreifðri sölu.

Reynsla hlutabréfaviðskipta í fjármálastofnunum í Evrópu bendir til að munur á verði í þessum tveimur söluaðferðum geti numið allt að 30--50%. Í þessu tilviki töldu stjórnvöld að markmiðið um dreifða eignaraðild til almennings væri mikilvægara en markmiðið um hámarksverðmæti. Svar mitt við spurningu hv. þm. er því það að ég tel að verðlagning á bankanum hafi verið rétt miðað við þá söluaðferð sem notuð var. Það er útúrsnúningur hjá hv. þm. að fullyrða að ríkissjóður hafi orðið af tekjum við söluna þegar haft er í huga að stjórnvöld lögðu áherslu á dreifða eignaraðild í bankanum og að almenningur ætti að njóta góðs af hækkandi verði bréfanna á markaði.

Sem svar við þriðju spurningu hv. þm. vil ég benda á að ákvarðanir um sölu hlutafjár í Búnaðarbankanum voru teknar á hluthafafundi 29. september sl. Áskriftin hefst í dag og lýkur á föstudag. Ekkert svigrúm er því til aðgerða til að sporna við kennitölusöfnun í þessari sölu jafnvel þó að menn teldu ástæðu til þess.

Ég vek einnig athygli á því að í þessu útboði eru aðeins hlutabréf að nafnvirði 350 millj. kr. til sölu eða um 10%. Hér er því ekki verið að keppa um stóran hlut í bankanum. Ég vil einnig minna á að það er almenningur, jafnvel svo skiptir tugum þúsunda, sem er að taka meðvitaða ákvörðun um þátttöku í þessum viðskiptum. Það er því áhugi almennings sem ræður för í þessari sölu og er það jákvætt að mínu viti.

Ég vil að síðustu leggja áherslu á að við tökum okkur tíma til að draga ályktanir og það yfirvegaðar ályktanir af þeirri reynslu sem við höfum aflað okkur við sölu hlutafjár í bönkunum en flönum ekki að lítt ígrunduðum ákvörðunum í þeim efnum.