Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:15:26 (1759)

1998-12-08 13:15:26# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:15]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Menn eru einmitt að fara að lítt ígrunduðum ákvörðunum og menn eru að framfylgja hugmyndafræðilegri stefnu. Alveg sama hvernig málin koma út fyrir íslenska þjóð. Það var inntakið í boðskap hæstv. ráðherra.

Á síðasta kjörtímabili gagnrýndi stjórnarandstaðan einkavæðingu ríkisstjórnarinnar mjög ákveðið. Fannst mörgum farið offari í því efni en jafnvel í þeim tilvikum þar sem mönnum þótti að einkavæðing gæti átt rétt á sér í iðnaði og framleiðslu þar sem um samkeppni er að ræða blöskraði þjóðinni einkavinavæðingin og tóku menn SR-mjöl sérstaklega sem dæmi um slíkt.

Nú hefur komið á daginn að þjóðin var hlunnfarin í ríkari mæli í þeirri sölu en flesta grunaði og var það staðfest m.a. í svari sem dreift var á Alþingi fyrir nokkrum dögum við fyrirspurn frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Þar kom í ljós að í tengslum við þá sölu var mokað úr ríkissjóði yfir 630 millj. kr. Hins vegar var söluvirðið að núvirði 790 millj. Með öðrum orðum, ríkissjóður, skattborgarinn, var að fá um 150 millj. en núvirði hlutabréfanna í því fyrirtæki er tæpur milljarður, 947 millj. kr.

Nú er þetta, hæstv. forseti, að endurtaka sig nema það er Framsfl. sem stýrir för og það er ömurlegt hlutskipti fyrir framsóknarmenn að láta Sjálfstfl. nota sig til þessara verka. Ég hef ekki trú á því að kjósendum Framsfl. sé skemmt.

Mergurinn málsins er þessi: Verið er að ráðstafa eignum þjóðarinnar langt undir markaðsverði og hér er um að ræða upphæðir sem verið er að hlunnfara þjóðina um sem mundu gagnast öryrkjum mjög vel og leysa ýmis brýnustu vandamál öryrkja sem heyja nú eins og kunnugt er mannréttindabaráttu gegn ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Krafan sem við settum fram hjá þingflokki óháðra í gær er að þessari útsölu verði hætt þegar í stað.