Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:20:07 (1761)

1998-12-08 13:20:07# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:20]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það hefur vægast sagt horft skringilega við manni að horfa á það kapphlaup sem átt hefur sér stað undanfarna daga í kringum hina svokölluðu kennitölusöfnun í hlutafjárútboði Búnaðarbankans. Svo virðist sem þúsundir Íslendinga hafi framselt kauprétt sinn á hlutabréfum á síðustu dögum og líklegt er að það haldi áfram næstu daga.

Ég get tekið undir það með framsögumanni að þetta geta vart talist eðlilegir viðskiptahættir, herra forseti, og skyldi maður ætla að hæstv. ríkisstjórn hygðist bregðast við þessu á einhvern hátt. En svör hæstv. viðskrh. eru hálfloðin. Hann segir í fjölmiðlum í dag að svo virðist sem markaðurinn hafi komið inn í þetta fyrr en menn ætluðu en hann segir jafnframt að framvirk viðskipti samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild. Nú reynir hann aftur á móti í umræðunni að draga úr þessari gagnrýni á eigin stefnu svo afstaða hans er alls kostar óljós.

Staðreyndin er hins vegar sú að viðskrh. hefur viðurkennt að aðferð ríkisstjórnarinnar við sölu á eignum ríkisins hafi beðið skipbrot og skili ekki þeim markmiðum sem að var stefnt. Það er það sem fyrst og fremst er athyglisvert, herra forseti, að viðskrh. hefur kveðið upp áfellisdóm yfir eigin stefnu þótt hann reyni nú að draga úr þeirri gagnrýni sinni í þessari umræðu.