Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:27:46 (1765)

1998-12-08 13:27:46# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mjög merkilegt með þetta einkavæðingartrúboð að það er í raun og veru alveg sama hvernig málum er klúðrað. Þó að almenningur horfi upp á fyrirtækin afhent á undirverði, þó að almenningur horfi upp á einkavinavæðingu og þó að menn horfi upp á markmið um dreifða eignaraðild renna út í sandinn, þá virðast ekki læðast neinar minnstu efasemdir að trúboðsmönnum. Ekki er staldrað við, staðan er ekki endurmetin.

Á síðasta kjörtímabili var það Alþfl. sem var í skítverkunum fyrir íhaldið en nú er það Framsókn, gamla Framsókn. Hún er með hugleiðingar um að selja ráðandi hluti í stærsta banka þjóðarinnar til útlanda sisvona. Einhver fær flog um mitt sumar og ákveður þetta. Nú er komið að bönkunum og auðvitað er alveg augljóst mál að það á að hætta við útboð hlutafjár í Búnaðarbankanum. Búnaðarbankann vantar enga peninga, hann er prýðilega staddur. Engin ástæða er til þess að vera að halda þessu til streitu og að sjálfsögðu á að leggja á ís hugmyndir um að selja stærri hluti í Fjárfestingarbankanum og endurmeta stöðuna, m.a. aðferðir. Þó að menn kunni að vera ósammála um markmið sem þeir eiga auðvitað að vera og ræða það hvort ástæða sé til þess yfir höfuð að vera að einkavæða eða einkavinavæða fjármálastofnanir þjóðarinnar með þessum hætti, ættu menn a.m.k. að geta verið menn til að setjast niður og ræða um framkvæmd, ræða um aðferðir og það er krafa okkar í þingflokki óháðra.

Ég held, herra forseti, að teiknarinn Sigmund hafi hitt naglann á höfuðið í teikningu núna fyrr á árinu þegar hann lét karl og kerlingu vera að ræðast við og karlinn sagði eitthvað eftirfarandi: ,,Ja, allur fjandinn dettur þeim nú í hug. Nú ætla þeir að fara að láta okkur kaupa okkar eigin banka.`` Það er auðvitað það sem er hér að gerast. Hver á Búnaðarbankann? Er það ekki þjóðin? Er hann ekki í eins dreifðri eignaraðild og hann getur verið með því að öll þjóðin á hann saman? Er þá ástæða til að fara út í skrípaleik af þessu tagi? Auðvitað var aumkunarvert að heyra fyrrum stjórnarandstöðuþingmanninn Finn Ingólfsson, núv. hæstv. viðskrh. Framsfl., koma hér og reyna að svara eins og ég kýs að orða það.