Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:30:10 (1766)

1998-12-08 13:30:10# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Kennitöluslagurinn hefur verið á allra vörum síðustu daga. Á yfirborðinu er þetta leið fyrir félítinn almenning til að krækja sér í nokkrar aukakrónur en undir niðri á sér stað slagur fjáfesta um hlutabréf í Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem nú eru seld á undirverði til þeirra sem eiga peninga, þeirra sem hafa markaðsráðandi aðstöðu.

Hér eru í gangi lögmál markaðarins sem að sjálfsögðu eru af hinu góða svo framarlega sem eðlileg samkeppni er tryggð á fjármagnsmarkaði og varðandi eignaraðild á bönkum. Dreifð eignaraðild er eðlilegt markmið sem pólitísk eining virðist ríkja um nema í Sjálfstfl. En spyrja má hvort hægt er að ná því markmiði án lögbundinna hámarksákvæða, samanber t.d. lög um að engin fyrirtæki megi eiga meira en ákveðinn hluta í kvóta eða í kvóta ákveðinna fisktegunda.

Ég styð frjáls viðskipti að öðru leyti með þessi bréf, en auk dreifðrar eignaraðildar hlýtur markmið ríkisstjórnarinnar að vera að sem mest fáist fyrir hlut ríkisins. Mér virðist það ekki vera markmiðið hér. Það á ekki að líðast að einkavinavæðing ríkisstjórnarinnar á eigum ríkisins gerist á þennan hátt. Þörf er á skýrari lögum og það strax. Eftir engu er að bíða. Að öðrum kosti væri rétt að senda þessi hlutabréf í pósti til landsmanna sem gætu ráðið því sjálfir hvort þeir eiga þau eða selja þau í hendur markaðsráðandi aðila. Nú hefur félítið fólk lítið val en tekur þátt í þessu til að græða þúsundkall eða tvo. Hæstv. viðskrh. ræður ekki neitt við neitt og því þarf að aðstoða ríkisstjórn hans með skýrari lögum. En dreifð eignaraðild er raunhæft markmið og samkeppni er auðvitað af hinu góða og á að ráða en ekki fáokun stórfyrirtækja.