Sala hlutabréfa í bönkum

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 13:37:16 (1769)

1998-12-08 13:37:16# 123. lþ. 35.91 fundur 147#B sala hlutabréfa í bönkum# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[13:37]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þegar við sátum í þinginu oft og tíðum næturlangt við að breyta formi ríkisviðskiptabankanna og koma á fót Fjárfestingarbanka atvinnulífsins lagði stjórnarandstaðan höfuðáherslu á að það yrði að vera um dreifða eignaraðild að ræða í þessum fyrirtækjum þannig að það væri alveg ljóst að ekki gæti orðið um einkavinavæðingu að ræða.

Nú, fáum mánuðum seinna, stendur þessi sama stjórnarandstaða í þessum ræðustól og talar um að með dreifðu eignaraðildinni hafi menn náð því fram að fara út í einkavinavæðingu. Sé það svo að með þessu formi sölunnar sé um einkavinavæðingu að ræða, þ.e. að selja þjóðinni, bjóða þjóðinni allri upp á að geta keypt bréf í þessum fjármálafyrirtækjum þjóðarinnar á hagstæðu verði, sem hún getur síðan selt aftur, sé þar um einkavinavæðingu að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar þá er það bara svo að þjóðin er þá einkavinur þessarar ríkisstjórnar, ef stjórnarandstaðan flokkar þetta á þennan hátt.

Aðalatriðið er að þjóðin á að njóta ávinnings af því sem þarna er um að ræða, þessara eigna sinna. Þá er um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að fara í dreifða eignasölu eins og ríkisstjórnin ákvað og þá er gengið lægra en ef menn velja þá leið að selja stóra hluti því þá er gengið hærra. En þjóðin nýtur ávinnings í báðum tilfellum. (SJS: Í lægra söluverði?) Í fyrri leiðinni, með lægra söluverði, (SJS: ... bankann sem hún á.) getur þjóðin sjálf beint selt og haft beinan ávinning af sölunni. (SJS: Heimsótti Davíð þig?) Hann rennur þannig til þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Með hinni að taka hærri tekjur inn í ríkissjóð og veita þannig fjármunina til samfélagslegra verkefna á sviði heilbrigðismála, menntamála og tryggingamála. (JóhS: Ætlar ráðherrann að ...) Um þessar tvær leiðir er að ræða. Fyrri leiðin var valin að þessu sinni, að dreifa þessu á þjóðina, bjóða þjóðinni upp á að kaupa.

Núna gefst almenningi tækifæri til þess fyrir þessi jól að auka ráðstöfunartekjur sínar örlítið með því að verða virkir þátttakendur á hlutabréfamarkaðnum. (Gripið fram í.) Stjórnarandstaðan á Alþingi með þá forustumenn sem hér hafa verið í broddi fylkingar sér ofsjónum yfir því að ríkisstjórnin skuli hafa gefið þjóðinni kost á því að geta aukið ráðstöfunartekjur sínar fyrir þessi jól og aflað sér þannig viðbótartekna og haldið betri jól. (SJS: Með því að gefa bankann hennar?)