Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:28:36 (1773)

1998-12-08 14:28:36# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Frsm. 2. minni hluta (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það eru svo mörg atriði í ræðu hv. þm. sem ég hefði viljað gera athugasemdir við að ég átta mig á því nú þegar að ég mun aldrei geta tekið þau öll fram í andsvari og verð að bíða með einhver þeirra þangað til í seinni ræðu minni.

Hins vegar get ég ekki annað en vakið athygli á því að nú grípur hv. þm. Tómas Ingi Olrich til þess ráðs að gera þá sem eru á móti málinu persónulega tortryggilega. Hann dregur það fram að þeir muni nota hvaða tækifæri sem þeir geta til þess að veikja grunninn, til að gera hann veikari en ella.

Ég vek athygli á því að þetta er sama aðferð og hefur verið notuð um þá fjölmörgu vísindamenn, sérfræðinga á sviði persónuverndar, heilbrigðisstarfsmenn, lækna og alla hina sem hafa hrópað hátt innan lands og utan og innan þings og utan á móti þessari hugmynd og því hvernig hún er útfærð í þessu frv., nákvæmlega sama aðferðin. Þeir eru ýmist öfundsjúkir vegna framgöngu hins væntanlega rekstrarleyfishafa eða gerðir tortryggilegir af öðrum ástæðum. Það er algjörlega óþolandi að sitja undir þessu, og að þessi umræða skuli vera komin hingað inn í sali Alþingis.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að hefði það verið takmark mitt að veikja þennan grunn hefði ég þagað þunnu hljóði og látið hæstv. ríkisstjórn framkvæma hugmyndina eins og hún kom fram í þeirri mynd sem hún var í í vor. Þá fyrst hefði þetta mál verið skandall fyrir ríkisstjórnina.