Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:31:23 (1775)

1998-12-08 14:31:23# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 2. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru augljósir útúrsnúningar sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur hér í frammi. Umræðan um upplýst samþykki tengist því ekki síður að um er að ræða persónuupplýsingar í þessum grunni, persónugreinanlegar upplýsingar. Á þeim forsendum hefur m.a. verið vakin athygli á því að fara þurfi fram á upplýst samþykki. Ég vil t.d. nefna tölvunefnd sem á að framkvæma þessa hugmynd fyrir hv. ríkisstjórn, hvernig sem þeir ætla nú að þvinga hana til þess þar sem hún er greinilega á móti því og er ekki á þeirri skoðun að þarna séu ópersónugreinanlegar upplýsingar. Er Þorgeir Örlygsson prófessor, okkar helsti sérfræðingur á sviði persónuverndar, ekki líka eitthvað tortryggilegur úr því hann getur ekki fallist á þessar hugmyndir og kokgleypt þær hugmyndir sem stór hluti, a.m.k. vísindamanna, langstærstur hluti íslenskra vísindamanna og erlendra er á móti? En hann er kannski eitthvað dularfullur líka eins og ég. Það má vel vera.