Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:49:01 (1789)

1998-12-08 14:49:01# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:49]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er rætt hið umdeilda frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Umræðan í hv. heilbr.- og trn. hefur verið mjög ítarleg en óhætt er að segja að enn er grundvallarágreiningur um málið, bæði innan og utan Alþingis. Það veldur mér verulegum áhyggjum ef málið fer í gegnum þingið í þeim búningi sem það er nú.

Sem áheyrnarfulltrúi í heilbr.- og trn. hef ég ekki skrifað upp á neitt þeirra þriggja nál. sem liggja fyrir þar sem afstaða mín fellur ekki nákvæmlega að sjónarmiðum þeim sem þar koma fram. En í grundvallaratriðum get ég tekið undir álit 1. minni hluta og margt í áliti 2. minni hluta líka og get því ekki stutt frv. í núverandi mynd. Ég tel einnig að margar brtt. meiri hlutans séu til bóta en þær ganga þó ekki nógu langt í samkomulagsátt að mínu mati.

Meginathugasemdir mínar eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi set ég spurningarmerki við réttmæti þess að veita einum aðila sérleyfi á miðlægum gagnagrunni til 12 ára, þ.e. grunnhugmyndinni sjálfri. Vísindalega mætti ná sömu markmiðum með dreifðum gagnagrunnum en fjárhagslega lítur út fyrir að ekki fáist erlendir fjárfestar til að kosta þá hugmynd.

Í öðru lagi. Hugmyndin um sérleyfi á einum miðlægum gagnagrunni mismunar vísindamönnum þannig að óásættanlegt er. Ég stórefast um að þessi mismunun standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, samanber nýfallinn dóm Hæstaréttar um veiðileyfi eða þá bara greinina um atvinnufrelsi. Þessi mismunun gagnvart vísindamönnum mun valda því að a.m.k. þrjár stéttir vísindamanna myndast. Það er sérleyfishafinn sjálfur sem hefur aðgang að öllum upplýsingum, getur gert rannsóknir í hagnaðarskyni og hefur aðgang að dulkóðunum í öðrum gagnagrunni sem hann kann að hafa þannig að hann getur samkeyrt eigin rannsóknir í öðrum grunnum og miðlæga grunninn. Það eru þeir sem láta upplýsingar inn í grunninn og geta þá fengið aðgang að rannsóknum sem skerða þó ekki samkeppnishæfni sérleyfishafans. Síðan eru það þeir sem ekki leggja upplýsingar inn í grunninn eða þá þeir sem eru með arðbærar rannsóknir á prjónunum. Þeir þurfa annaðhvort að lúta því að komast ekki inn í grunninn eða greiða fyrir það fullu verði. Ég legg áherslu á það sem bent hefur verið á, þ.e. þann reginmun á sérleyfishafanum miðað við aðra vísindamenn að hafa aðgang að kóðunum sjálfum og geta tengt þá við eigin rannsóknir, t.d. við ættfræðigrunna eða erfðafræðiupplýsingar. Þetta skapar mjög mikla mismunun þannig að hinir geta ekki staðið jafnfætis.

Þriðja grundvallarathugasemd mín varðar það að boðað frv. ríkisstjórnarinnar um persónuvernd skuli ekki vera afgreitt samhliða þessu frv. eða helst á undan. Reynslan erlendis sýnir, t.d. frá Bandaríkjunum, að ef erfðarannsóknir eru orðnar almennar og hafa þróast frjálslega án slíkrar löggjafar, þá er mjög erfitt að setja slík lög um persónuvernd og þau hafa tilhneigingu til að verða mjög máttlaus þar sem öflugir hagsmunaaðilar koma í veg fyrir setningu slíkrar löggjafar.

Það vekur furðu, herra forseti, að samkvæmt drögum að persónuverndarfrv. ríkisstjórnarinnar er gagnagrunnurinn sem nú er til umræðu með persónugreinanleg gögn. En meginforsendan fyrir því að styðjast við ætlað samþykki í stað upplýsts er að um ópersónugreinanleg gögn sé að ræða. Það og sú staðreynd að tölvunefnd, einn helsti eftirlitsaðili gagnagrunnsins fyrirhugaða, skuli leggjast gegn samþykki frv. auk þeirra alvarlegu athugasemda sem koma fram hjá Samkeppnisstofnun um að frv. stríði gegn EES-samningnum, samanber nál. 1. og 2. minni hluta, sýnir að þetta mál er í uppnámi svo ekki sé meira sagt. Því verður að breyta til að það geti talist ásættanlegt og að um það náist sátt sem er nauðsynleg til að koma ekki heilbrigðiskerfinu í algert uppnám. Því hlýt ég að krefjast þess að frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga verði rætt og afgreitt á undan eða samhliða þessu máli eins og margir aðrir hafa gert en þeirri beiðni hefur þegar verið hafnað.

Áður en ég kem að einstökum brtt., herra forseti, vil ég taka undir með hv. formanni heilbr.- og trn. frá því í gær um meðferð ættfræðiupplýsinga og samtengingu þeirra við gagnagrunninn. Sú umræða kom einnig upp áðan í andsvörum. Ég sem sat langflesta fundi nefndarinnar vil staðfesta sem áheyrnarfulltrúi hennar að skilningur á því hvernig ætti að haga ættfræðiupplýsingum, þ.e. að hafa upplýsingar í sérgrunni sem þyrftu sérstakt vinnulag eða leyfi tölvunefndar til að tengja við miðlæga gagnagrunninn jafnvel þó um væri að ræða sérleyfishafann sjálfan, sá skilningur er einnig minn skilningur, þ.e. ég skildi málið nákvæmlega eins og hv. formaður heilbr.- og trn. Þetta er hins vegar í andstöðu við það sem sagt er í nál. meiri hlutans á bls. 7, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir því að ættfræðiupplýsingar verði í miðlægum gagnagrunni en þær verði geymdar í aðskildu gagnasafni og við samtengingu þeirra við heilsufarsupplýsingar í gagnagrunninum þarf að gæta sérstaks vinnuferlis sem uppfyllir skilyrði tölvunefndar.``

Ég tel að þarna sé um annaðhvort vísvitandi blekkingu að ræða miðað við þá umræðu sem átti sér stað í nefndinni, hugsanlegan misskilning eða hugsanlega nýjan pólitískan þrýsting sem var til umræðu áðan um að þrátt fyrir allt eigi að hafa ættfræðiupplýsingar inni í gagnagrunninum sjálfum. Þessi misskilningur eða mismunandi skilningur er mjög bagalegur og ég tel mjög mikilvægt að þetta verði rætt ítarlega á milli 2. og 3. umr. Það er mjög mikið öryggi í því að hafa ættfræðiupplýsingarnar og erfðafræðiupplýsingarnar aðskildar, ekki síst í svo litlu þjóðfélagi og hér er, en ekki síst í ljósi þess að við vitum ekki hvernig þróunin í heilbrigðiskerfinu verður. Hugsanlega á eftir að einkavæða heilbrigðiskerfið. Í frv. er ekki enn þá inni ákvæði um að bannað sé að keyra upplýsingar fyrir tíu einstaklinga eða fleiri, það er ekki bundið. Það er því full ástæða til að læra af reynslu annarra. Þá má alveg búast við því að þessar upplýsingar fari á flakk ef til frekari einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu eða tryggingakerfinu kemur.

[15:00]

Þetta er mjög alvarlegt mál. Stundum er talað um að örfá örmerki þurfi, 13 örmerki held ég, til að greina einstaklinga út frá erfðafræðiupplýsingum, t.d. í dómsmálum. Sagt er að Íslensk erfðagreining ráði yfir gögnum sem innihalda 700 örmerki fyrir hvern einstakling. Það segir sig sjálft að þessi gögn mega ekki vera í miðlægum gagnagrunni. Ég geri ekki athugasemd við að sérleyfishafi stundi þessar rannsóknir ef hann hefur það í aðskildum grunnum og samtenging fer eftir viðkenndu ferli sem tölvunefnd hefur lagt blessun sína yfir. Því er mikilvægt að fara með gát að málum af þessu tagi. Ég tel að þessa umræðu verði að taka upp í heilbr.- og trn. á milli 2. og 3. umr. og ræða mjög vandlega, ekki síst ef það er rétt hjá hv. formanni nefndarinnar að hér sé pólitískum þrýstingi beitt til að breyta frv. frá því sem rætt hefur verið í nefndinni allan tímann.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að ættfræðiupplýsingar eigi ekki að vera í miðlægum gagnagrunnum heldur í sérgrunni og fyllstu öryggisráðstafana verði að gæta ef um samtengingu er að ræða. Ég ítreka að ég skildi málið eins og formaður nefndarinnar en ekki eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans.

Herra forseti. Næst vil ég fjalla um breytingartillögur þær er ég tel að skipti mestu máli um leið og ég bendi á annmarka þeirra. Ég er ánægð með breytingartillögu meiri hlutans við 4. gr., að heimilað verði að frekari greiðslur komi fyrir einkaréttinn. Að mínu mati er það spor í rétta átt að setja heimildarákvæði inn í lagagreinina sjálfa í stað þess að nefna það aðeins í greinargerð. Æskilegra hefði þó verið að þarna kæmi inn skylduákvæði, þ.e. að rekstrarleyfishafi skuli semja við ríkið um arðsemishlutdeild, t.d. á tveggja ára fresti eftir að grunnurinn væri orðinn til og farinn að skila hagnaði. Eftir að hafa ráðfært mig við nokkra lögfræðinga er mat mitt að slíkt yrði vel mögulegt eða þá að ríkið eignaðist hlutabréf í fyrirtækinu á sérleyfistímanum undir markaðsverði. Ég mun kanna hvort hljómgrunnur sé fyrir brtt. á þessari grein á milli 2. og 3. umr.

Í nefndinni var mikið rætt um að nauðsynlegt væri að allar fyrirspurnir um upplýsingar úr grunninum færu fyrir vísindasiðanefnd. Í upphaflega frv. frá í haust var gert ráð fyrir að vísindasiðanefnd fengi þær til umsagnar eftir á. Nú leggur meiri hlutinn til brtt. við 12. gr. Hún var rædd í nefndinni og mjög mikið rætt um að ekki væri nægilegt að setja á stofn innanhússsiðanefnd til að tryggja meðferð af vísindasiðfræðilegum toga sem samræmdist viðurkenndum reglum vísindasamfélagsins. Orðalag brtt. núna tryggir því miður ekki að um sjálfstæða óháða nefnd verði að ræða, þ.e. valdið til þess að skipa og ráða samsetningu þessarar þverfaglegu siðanefndar er framselt til ráðherra. Þar sem við vitum ekki hverjir koma til með að sitja í nefndinni óskaði minni hlutinn eftir því að frv. færi í lokagerð sinni nú til umsagnar erlendra vísindasiðanefnda en því hafnaði meiri hlutinn.

Aðrar brtt. meiri hlutans eru minni háttar en þó til bóta eins og t.d. að í 8. gr. skuli skýrt tekið fram að fólk geti hvenær sem er dregið sig út eða ákveðið að vera ekki með í grunninum.

Herra forseti. Ég get tekið undir og stutt velflestar brtt. minni hluta heilbr.- og trn. og vona að samstaða náist um aðra hvora leiðina sem 1. minni hluti stingur upp á með aðgengi vísindamanna að grunninum. Auk þess sakna ég þess að ekki skuli gerð sú brtt. að skylda að taka upp ágóðaskiptingu milli ríkisins og rekstrarleyfishafa. Ég sakna þess einnig að ekki skuli skýrt tekið fram í lagatextanum að óheimilt sé að keyra upplýsingar úr grunninum fyrir færri en tíu einstaklinga, það er nú eingöngu í greinargerðinni. Um þetta atriði var sátt í nefndinni og skilningur minn sá sami og fram kom hjá nokkrum ræðumönnum í gær, að talað hefði verið um að þetta færi inn í nál. meiri hlutans. Það er hins vegar ekki gert. Því vil ég spyrja hv. framsögumann meiri hlutans, sem reyndar er ekki stödd í salnum, hvort það hafi ekki einnig verið þeirra skilningur að nefna ætti þetta ákvæði í nál. meiri hlutans. Datt þetta atriði út fyrir misskilning og væri ekki rétt að koma fram með brtt. í þá veru? Ég tel að ekki hafi verið nokkur ágreiningur um það atriði að ekki mætti keyra úr grunninum upplýsingar fyrir færri en tíu einstaklinga.

Herra forseti. Við 1. umr. málsins nefndi ég að mér fyndist álitamál hvort væri geggjaðri hugmynd, að samþykkja frv. og heimila grunninn eða hafna frv. og tilheyrandi möguleikum. Hið sérkennilega við þetta mál er að það er stórbrotið á báða bóga og erfitt að taka afstöðu til þess. Því hef ég komið að með mjög opnum huga og reynt að finna einhverja leið sem gæti sætt sjónarmið. Því miður virðist mér erfitt að sjá þá leið. Möguleikarnir með frv. eins og þeir voru fyrst kynntir eru margir. Talað var um aukna möguleika til þekkingarsköpunar, möguleika til að efla heilbrigðiskerfið og framþróun vísindanna. Ég ræddi um að til mikils væri að vinna ef framþróun erfðavísindanna á Íslandi tryggði að aldrei yrði farið út fyrir það sem talið er siðfræðilega ásættanlegt að mati vísindasiðanefnda. Ég tel að ef þetta frv. yrði til þess þá væri til mikils unnið. Ég taldi hugsanlegan möguleika að með þessu frv. sköpuðust störf fyrir fjölda manns sem mikið hafa lagt í menntun sína og eiga rétt á að fá vel launuð störf. Einnig talaði ég um að mikilvægt væri að þjóðinni tækist að nýta sér þessa auðlind, heilbrigðisupplýsingar landsmanna, sem heilmiklu hefur þegar verið kostað til við að safna og nútímaupplýsingatækni gerir kleift að nýta enn betur, til gagns fyrir heilbrigðiskerfið og vísindin.

Við 1. umr. sagði ég jafnframt að margt þyrfti að breytast í frv. til að hægt væri að ná öllum þessum markmiðum ef það væri þá hægt. Niðurstaðan nú er að þó margt hafi breyst til batnaðar þá hafi það ekki breyst nóg. Ég met það svo að frv. sé í uppnámi vegna þess að það stangast á við EES-samninginn og hugsanlega gildandi vísindasiðareglur um persónuvernd en ekki síður vegna þess að sátt hefur ekki náðst um málið meðal heilbrigðisstarfsmanna, lækna og vísindamanna sem koma til með að gegna lykilhlutverki í því að framkvæma þessa hugmynd. Í því sambandi vil ég nefna mótmæli fjölmargra heilsugæslulækna og annarra lækna sem tilkynnt hafa að þeir ætli ekki að senda gögn í grunninn. Einnig vil ég benda á yfirlýsingar samtakanna Mannverndar sem birtu m.a. mótmæli í blöðunum um síðustu helgi þar sem skírskotað var til friðhelgi einkalífsins. Þarna er um öfluga hópa að ræða sem mjög erfitt er að hunsa í þessu máli. Allir þessir hópar mæla gegn samþykki frv.

Við 1. umr. kvaðst ég mótfallin einkaleyfi sérleyfishafa til 12 ára sem sérleyfishafinn sjálfur telur nauðsynlegt til þess að fjárfestar séu tilbúnir til þess að greiða vel fyrir upplýsingar úr grunninum. Þetta er kjarni vandans. Dreifðir gagnagrunnar væru um margt æskilegri og öruggari en þá kæmu síður til stórir fjárfestar, eins og lyfjafyrirtæki sem greiða aðgangseyri að grunninum með því að fjármagna gerð hans. Sérleyfi á upplýsingum til vísindarannsókna gengur ekki upp. Í því sambandi vil ég nefna rök Mannverndar um óskrifuðu sinfóníuna sem víti til varnaðar. Á að banna öllum öðrum að spila sinfóníur næstu 12 árin jafnvel þó hún sé óskrifuð enn og við vitum ekki hvort hún verði nokkurn tíma skrifuð?

Eins og skýrt kemur fram í nál. 1. minni hluta eru einu rökin með einkarétti sérleyfishafans þau að stofnkostnaður sé mikill og óvissa ríki um hagnýtingarmöguleika þar sem um frumkvöðulsstarf og samkeppni sé að ræða sem ylli því að heildarverðmæti vegna viðskipta með upplýsingar úr grunninum yrðu minni en ella. Þessum rökum er hafnað af Samkeppnisstofnun og Lagastofnun Háskóla Íslands. Bent er á að aðrar atvinnugreinar, t.d. stóriðja, hafi mjög háan stofnkostnað og þar ríki oft óvissa í markaðsmálum. Að mati Lagastofnunar getur þetta hugsanlega samrýmst EES-reglum en það er ekki fullyrt að svo sé. Ég vil ítreka að þó ég beri fullt traust til Lagastofnunar Háskóla Íslands þá var álitið unnið að beiðni Íslenskrar erfðagreiningar.

[15:15]

Samkeppnisstofnun færir hins vegar sterk rök fyrir því að frv. brjóti gegn ákvæðum EES-reglna í sex liðum sem skráðir eru í nál. 1. minni hluta og ég hyggst ekki tímans vegna endurtaka hér. Þá þarf að mínu mati að skoða mjög vel í ljósi nýfallins hæstaréttardóms hvort einkaleyfið stríðir ekki einnig gegn bæði 60. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, samanber nýfallinn dóm Hæstaréttar.

Við 1. umr. málsins lagði ég áherslu á að eitt væri að gera frv. þannig að persónuvernd samrýmdist vísindalegum vinnubrögðum og annað að koma í veg fyrir innbrot í gagnagrunninn innan frá, t.d. af þeim sem starfa við gagnagrunninn og eru skúrkar. Til að hefta þetta síðarnefnda væri langbest að setja nýja löggjöf sem bannar misnotkun á heilbrigðisupplýsingum og persónulegum upplýsingum í tölvukerfum. Því miður hefur verið neitað að afgreiða þá löggjöf samhliða þessu frv.

Herra forseti. Ég hef sagt áður og segi aftur: Til að þessi hugmynd verði ekki til að koma heilbrigðiskerfinu í uppnám og til að þessi hugmynd verði ekki andvana fædd vegna þess að læknar og sjúklingar vilji ekki taka þátt verður að nást meiri sátt um frv. Ég vil því taka undir með formanni heilbrn. og benda á ef fallið verður frá einkaleyfinu og opnað skýrar fyrir aðgengi annarra vísindamanna er líklegra að meiri sátt náist um málið bæði innan og utan Alþingis. Ég tek undir þessi sjónarmið og vona að þetta verði skoðað á milli 2. og 3. umr. þó augljóst sé að þá verði um allt aðra hugmynd að ræða og spurning hvort það verður nægilega ábatasamt til að búa til miðlægan grunna á heilbrigðissviði fyrir einkaaðila eða ríkið. Sjálfri finnst mér líklegra að væntanlegum sérleyfishafa finnist ásættanlegra að stytta sérleyfistímann og þá yrði viðunandi að mínu mati að heimila eingöngu arðgreiðslur en skylda þær ekki en ég tel slíkt ekki ásættanlegt ef leyfið er til tólf ára.

Um þetta frv., herra forseti, má hafa mun fleiri orð. En ég ætla að láta staðar numið mjög fljótlega. Að lokum vil ég þakka fyrir sérlega gott samstarf í heilbr.- og trn. og á það jafnt við nefndarmenn og embættismenn. Ég hef sjaldan unnið að máli í nefnd þar sem jafnmikill einhugur hefur ríkt um að bæta málið með hliðsjón af mjög mörgum og gagnlegum viðtölum og athugasemdum. Leiðir minni og meiri hlutans skildu varðandi nokkur grundvallaratriði en ljóst er þó að þetta mál á sér andstæðinga í flestum flokkum og andstaðan úti í þjóðfélaginu fer vaxandi með vaxandi upplýsingu og fræðslu um málið. Sumt af því er vissulega hræðsluáróður sem ber að sjálfsögðu að varast í svo mikilvægu máli.

Sjálfri finnst mér hugmyndin enn þá spennandi og stórhuga en ég er ekki sannfærð um að þjóðin í búrinu eða þjóðin sem --- ef þessi grunnur verður samþykktur --- verður í vísindatímaritum lyfjafyrirtækjanna í framtíðinni, fái nægilegt fyrir snúð sinn. Ég er ekki viss um að vísindasamfélagið og heilbrigðiskerfið þoli þá ósátt sem samþykkt frv. í núverandi búningi mundi valda. Ég get því ekki stutt frv. í núverandi mynd, herra forseti, en vona svo sannarlega að sáttaleið finnist á milli 2. og 3. umr. Málið er of mikilvægt til þess að það fari í gegn í þeirri ósátt sem nú ríkir. Þá verður grunnurinn lítils virði og ekki það rannsóknartæki sem jafnvel sérleyfishafinn bindur vonir við. Er þá verr af stað farið en heima setið.