Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:23:55 (1796)

1998-12-08 17:23:55# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega athyglisvert að heyra málflutning eins og þann sem kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf. og hefði maður óskað þess að þeir hv. stjórnarsinnar væru fleiri og yrðu ekki taldir á fingrum annarrar handar eða svo, sem gera sig gildandi í þessu máli og reyna að átta sig á eðli þess eins og ég tel að hv. þm. hafi leitast við að gera allt frá því að það kom hér fram og hann fyrst fór að ræða það. Ég hef veitt því athygli að hv. þm. hefur ekki aðeins talað að mér finnst af þekkingu og innsæi heldur einnig sótt ýmsa upplýsandi fundi um málið sem ég held að fleirum hefði verið hollt að gera vegna þess að þetta mál er víðtækt eins og kom fram hjá hv. þm.

Það eina sem ég hafði við mál hans að athuga er sá uppgjafartónn sem mér fannst gæta í máli hv. þm. sem byggir kannski á innsæi í stjórnarliðið og þar get ég auðvitað ekki verið dómbærri en hv. þm. nema síður væri. Ég vil þó leyfa mér að minna á það sem kom fram í umræðu í dag frá einum talsmanni sama flokks, ég á við hv. þm. Tómas Inga Olrich, sem sagði að það væri margt, ég hef það ekki orðrétt fyrir framan mig, en það væri margt óljóst og óunnið í þessu máli og mátti skilja að mikil efnisleg vinna væri eftir í málinu milli umræðna. Það var nánast boðað af hálfu þessa þingmanns sem hefur sótt fundi heilbr.- og trn. sem áheyrnarfulltrúi og er að mér skilst sérstakur trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar í málinu ef ég hef skilið það rétt. Þetta voru hans orð.