Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:28:43 (1798)

1998-12-08 17:28:43# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það er fyrst og fremst sagan og reynslan sem sker úr um það hver sé --- ég leyfi mér að túlka það svo --- í sigurliði í þessu máli. Við ættum ekki að vera að ræða þetta mál út frá þeim forsendum hver ber annan ofurliði. Við ættum að ræða þetta mál í þinginu og alveg sérstaklega við þessa umræðu út frá því hver sé grundvöllurinn, hvað sé líklegt að þetta mál beri í skauti sér fyrir framtíðina, fyrir heilbrigðismálin í landinu, fyrir persónuvernd í landinu. Og þá er ég ekki í neinum vafa um að efasemdir hv. þm. um þetta mál og andstaða við það hittir alveg í lið. Því miður er það svo að ef þetta frv. ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga þótt með breytingum sé, þá er það í rauninni þjóðin sem tapar í þessu máli. Þetta er eitthvert allra stærsta og afdrifaríkasta mál sem hefur borið við á þingi þau ár sem ég hef setið og mér sýnist að menn séu að fara út á alranga braut og í rauninni er ekki ástæða til að ætla að þetta mál gangi fram í reynd eins og ríkisstjórnin ætlar sér. Ef ríkisstjórnin nær markmiðum sínum með að fá samþykkt þetta frv., þá sýnist mér það skelfilegur Pyrrhosarsigur sem þar verði unninn ef svo fer. Ég er svo bjartsýnn að ég hef verið að vænta þess að þær blikur sem hrannast upp í þessu máli ættu eftir að verða til þess að opna augu manna fyrir því að hér þurfi að skoða mál með öðrum hætti og skoða mál betur. Ég hef leyft mér að vera svo bjartsýnn en við spyrjum að leikslokum og þetta mál er auðvitað ekki búið hvað sem líður atkvæðagreiðslum á Alþingi.