Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:36:45 (1802)

1998-12-08 17:36:45# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lét heldur engin orð um það falla að þessi væntanlegi gagnagrunnur mundi stýra heilbrigðisþjónustuna í framtíðinni. Ég sagði ekki orð í þá veru. Ég sagði að mjög margir stuðningsmenn þessa máls hefðu mjög oft rætt það og farið yfir að það væri einn af kostum þess að gagnagrunnurinn gæti komið okkur til mikillar hjálpar við stjórnun heilbrigðismálanna í framtíðinni. Þetta hafa allir þeir sem hafa talað fyrir málinu tekið fram margsinnis. Ég var bara að benda á að ég efast stórkostlega um að það gæti orðið að neinni hjálp. Ég vil t.d. benda á umsögn landlæknisembættisins sem liggur fyrir hjá heilbrigðisnefnd um þetta mál þar sem þeir deila þessum skoðunum með mér. Þeir gátu ekki séð hvernig í ósköpunum gagnagrunnurinn ætti að vera til hjálpar í stjórnun heilbrigðismálanna. Ég var að vara við þessu því að það er mjög slæmt ef við erum ekki nú þegar reiðubúin að átta okkur á því að það er bráðnauðsynlegt að fara út í að stjórna heilbrigðismálum af meiri festu en við höfum gert og ég kenni engum um það nema Alþingi sjálfu, hinu pólitíska valdi á Íslandi. Við höfum ekki gert okkur nógu rækilega grein fyrir hversu þörfin er mikil á því að stjórna vel og nýta nútímatækni til þess. En við verðum að vera meðvituð um það. Við höfum náð gríðarlegum árangri í efnahagsmálum og til þess að halda þeim mikla árangri áfram verðum við að breyta, við verðum að setja inn mjög mikla viðbótarpeninga í menntamálin og skólana. Það er lykillinn okkar að halda áfram þeirri hagsældarþróun sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Það er lykillinn að því. Svarið hvernig við ætlum að gera það er fyrst og fremst fólgið í því að við gerum það með því að eyða ekki peningunum í annað því það eru gríðarlegir fjármunir sem Ísland þarf að setja í skólamálin á næstu árum, gríðarlegir fjármunir, kannski milli 1 og 2% af vergri landsframleiðslu, þetta milli 6, 7, 8 upp í 10--11 milljarða kr. Hér er um gríðarlegt átak að ræða sem við verðum að geta framkvæmt.