Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:38:06 (1812)

1998-12-08 22:38:06# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:38]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Hjörleifur Guttormsson aðallega vera í andsvari við viðtal sem haft var við mig í gærkvöldi í sjónvarpi, og einkum fannst mér hann þó vera með andsvar við það sem ekki voru mín orð í því heldur fréttamanns.

Ég flutti hér enga stólræðu að ég hygg heldur kom með rök og málflutning eins og hver annar þingmaður. Hann spurði hins vegar að því hvað ég ætti við með því að opnað væri eins og frekast væri kostur á aðgengi íslenskra vísindamanna án þess að ganga gegn ákvæðum EES-samskomulags, ef ég man rétt að hann hafi sagt það svo.

Ég hef skilið málið svo að EES-samkomulagið geri ráð fyrir að þá þurfi að opna fyrir alla vísindamenn þannig að við værum búin að missa þennan gagnagrunn úr landi og til annarra þjóða allra jafnt ef opnað væri fullkomlega á þennan grunn.