Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:39:42 (1813)

1998-12-08 22:39:42# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hafi það verið útlegging hv. þm. þá skil ég betur mál hans áðan, ég hef e.t.v. ekki náð alveg hugsuninni. En það hefur margkomið fram í umræðunni og liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að sú mismunun sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. gengur þvert á ákvæði þessa samnings sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá 1991 ber ábyrgð á, EES-samningsins.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að lesa tilvitnun úr nefndu viðtali og ekki neinn inngang, þar sem hv. þm. sagði:

,,Við höfum hins vegar lesið kristna siðfræði töluvert og út frá henni segi ég það að það er eðlilegt að leita alltaf framfara og ég get ekki séð að þetta samrýmist ekki kristinni trú heldur þvert á móti, við þurfum að hafa ákveðið hugrekki til þess að leita framfara og bæta og auka velferð.``

Menn skulu bera þetta saman við tilvitnuð orð úr grein biskupsins yfir Íslandi, herra Karls Sigurbjörnssonar. Þar ber mikið á milli.

Vegna ummæla um undirskriftir og áskoranir 108 lækna þá tel ég það ekki efni til athugasemda. Ég hefði vænst þess að við fengjum jafnvel enn fleiri undirskriftir í sömu veru frá starfandi prestum í landinu.