Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:39:46 (1848)

1998-12-09 13:39:46# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað en orðið ósammála þeirri túlkun sem nú gengur fram af forsetastóli. Ekki er hægt að líta svo á að það sé mál nefndarinnar að kanna hvort vilji sé til þess að skipta um formann vegna þess að breytingar hafi orðið á hlutföllum stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta er ekki mál sem varðar einungis hv. sjútvn. Þetta eru samningar sem voru gerðir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í haust. Þegar það gerist að breytingar verða á afstöðu manna og þeir ganga frá stjórnarandstöðu til stjórnar, og í þessu tilviki vill svo til að þar er um að ræða mann sem hefur verið kjörinn af hálfu stjórnarandstöðu sem formaður sjútvn., hlýtur það auðvitað að vera viðfangsefni þeirra sem hafa forustu fyrir stjórnarandstöðunni og stjórnarliðinu að ræða saman um það.

Ég tel sjálfur að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eigi ekki eftir þessi sinnaskipti að verða formaður sjútvn. Af hverju? Vegna þess að þetta var hluti af samningum við stjórnarandstöðuna, að stjórnarandstaðan ætti að fá þrjá formenn nefnda. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þm. skipti um flokk og fari í Framsfl. Í mínum augum hefur hann verið framsóknarmaður um talsvert langt skeið og til hamingju með þau sinnaskipti. Ég geri heldur engar athugasemdir við þá skoðun hv. þm. að honum muni fylgja miklar sveitir manna yfir í Framsfl. Hann trúir því bersýnilega sjálfur enda hefur honum nánast að hálfu leyti tekist að ryðja valið. Það liggur fyrir að hann er næstum því búinn að ná fyrsta sæti framsóknarmanns á Vestfjörðum. Ég óska honum líka til hamingju með það. En það er þessu máli í sjálfu sér óviðkomandi.

Hér eru menn að tala um sanngirnisvinnubrögð og þetta var samkomulag og þessi afstaða og sinnaskipti þingmannsins eiga ekki að geta breytt þessu samkomulagi vegna þess að það er óbreytt. Stjórnarliðið verður þá að segja samkomulaginu formlega upp og ég tel að í þeim hópi séu menn það sanngjarnir að þeir muni ekki gera það vegna þeirra breytinga sem orðið hafa.