Formennska í sjávarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 13:44:07 (1852)

1998-12-09 13:44:07# 123. lþ. 36.91 fundur 151#B formennska í sjávarútvegsnefnd# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Nefndaformennsku til stjórnarandstöðunnar var skipt eftir stjórnarandstöðuflokkum eins og menn vita. Formennsku í sjútvn. hafði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gegnt með mikilli prýði. Þegar hann fór úr Alþb. var sóst eftir því að skipt yrði um formennsku og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tók við. Hann fór síðan úr Alþb. fyrir allnokkru og þá brá svo við að þá var engin krafa gerð um það að hann viki þó að hann væri ekki lengur fulltrúi Alþb. (Gripið fram í.) Ja, þetta var fulltrúi Alþb. sérstaklega. (Gripið fram í: Í stjórnarandstöðu.) Bíddu nú við, hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon var áfram í stjórnarandstöðu. Það dugði ekki til, hann varð að víkja sem formaður af því að hann var ekki lengur í Alþb. En þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór úr Alþb., brá svo við að þá var allt í einu ekki gerð nein krafa til þess að nýr alþýðubandalagsmaður kæmi þar inn.

Það þarf að vera festa í þessum málum. Nú höfum við þegar haft tvo formenn með skömmu millibili á þessum þingtíma og það er algerlega ómögulegt fyrir þingmeirihlutann að fara að taka enn einn nýjan frá Alþb. sem yrði kannski ekki mjög margar vikur í þeim flokki eins og tíðindin hafa gerst þar að undanförnu þannig að slíkt hringl getur bara ekki gengið.